Tilnefningar til Hvatningarverðlauna ÖBÍ óskast

Á alþjóðadegi fatlaðra þann 3. desember 2007 voru Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands veitt í fyrsta sinn til þeirra sem stuðlað hafa að einu samfélagi fyrir alla. Veitt voru þrenn verðlaun til fyrirtækis, stofnunar og einstaklings, sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Verðlaunaflokkum var breytt 2010, á þann hátt að nú eru þrenn verðlaun í eftirtöldum flokkum einstaklings, fyrirtækis/stofnunar og umfjöllunar/kynningar. Verðlaunafhendingin er árlegur viðburður á alþjóðadegi fatlaðs fólks og er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson verndari verðlaunanna.

Markmið verðlaunanna er að skapa jákvæða ímynd fyrir fatlað fólk og vekja athygli á þeim sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Þá er verðlaununum ekki síst ætlað að vekja athygli á þeim aðilum eða verkefnum sem stuðla að því að íslenskt samfélag verði raunverulega samfélag fyrir alla.

Verðlaununum er ætlað að vera öðrum hvatning til að stuðla að samfélagi fyrir alla ásamt því að efla frumkvæði til nýrra verkefna og hugmyndavinnu í málaflokknum. Fjöldi tilnefninga hefur aukist frá ári til árs og vitund um verðlaunin hefur eflst, en kallað er eftir tilnefningum frá almenningi.

Þekkir þú einhvern sem ætti að tilnefna?

Lesendur eru hvattir til að taka sér stund og velta því fyrir sér hver hefur skarað fram úr á þessu sviðið og senda inn tilnefningu til Hvatningarverðlauna Öryrkjabandalags Íslands fyrir 15. september næst komandi.

Tilnefningar má senda um rafrænt eyðublað á heimasíðu ÖBÍ slóðin er HÉR

Einnig má senda tilnefningu í bréfpósti ef það hentar betur.