Úrræði fyrir fanga vantar með ADHD

„Þetta er mesta sóun sem hægt er að hugsa sér", segir framkvæmdastjóri ADHD samtakanna, en yfir sextíu prósent fanga í íslenskum fangelsum eru haldnir ADHD, eða ofvirkni með athyglisbresti. Úrræði vantar fyrir fanga með greininguna hér á landi. 

Fréttastofa Stöðvar 2 hefurundanfarna daga fjallaðítarlega um málefni einstaklinga með ADHD. Talið er er að um fimm til tíu prósent barna séu haldin ADHD þó ekki séu til nákvæmar tölur um það hér á landi. Fjöldi barna með greininguna lendir í áhættuhópi gagnvart áhættuhegðun og fíkniefnaneyslu en Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna segir mörg þeirra hreinlega enda innan refsivörslukerfisins, sérstaklega ef þau fá ekki greiningu tímanlega. 

„Þessi hópur sem glímir við þessa taugaþroskaröskun ADHD, eða athyglisbrest með eða án ofvirkni, honum er hættara við að framkvæma áður en hann hugsar. Hvatvísin er mjög ráðandi þáttur,“ segir Þröstur. Hann fullyrðir að stór hluti fanga hér á landi sé með ADHD.

„Við getum alveg kinnroðalaust sagt að við séum að tala um 60 til 65 prósent plús. Jafnvel þaðan af hærri tölu, ég hef heyrt tölur alveg upp í 80 prósent. Auðvitað er það breytilegt frá einum tíma til annars en kinnroðalaust segjum við 60, 65 prósent. Og eigum við ekki að spyrja okkur að því, hefðum við getað gert eitthvað til að koma í veg fyrir þetta? Því að meiri sóun er varla hægt að hugsa sér.“

Þröstur segir að tölfræðin sé svipuð í fangelsum nágrannalanda okkar, en að úrræði fyrir fanga með ADHD vanti í íslenskum fangelsum. Til að mynda vanti sálfræðiþjónustu vegna fjárskorts og fangar fái ekki að taka ofvirknilyf innan fangelsisins. 

„Lyfjameðferð er lítil sem engin þegar það kemur að þessum lyfjaflokki. Og það er náttúrlega mjög alvarlegt að einstaklingur með ADHD, sem hefur fram að þeim tíma sem hann er tekinn og lokaður inni í fangelsi notað lyf, að þau séu bara tekinn af honum.“

Í október verður árlegur vitundarvakningarmánuður ADHD samtakanna, en í þetta sinn verður áherslan lögð á einstaklinga með ADHD innan refsivörslukerfisins.

„Þetta er bara einn af mörgum hópum sem þarf að veita sérstaka athygli,“ segir Þröstur Emilsson. 

 

Frétt Stöðvar 2 um málið

Tengdar fréttir

Stöð 2 - 25. ágúst 2016: Ekki vitað umfjölda barna með ADHD hér á landi

Stöð 2 - 24. ágúst 2016: Mörg börn með ADHD í sambærilegum vanda og Ingibjörg Melkorka

Stöð 2 - 22. ágúst 2016: Hafði þá tilfinningu að hún myndi ekki lifa af að prófa e-töflu

Stöð 2 - 22. ágúst 2016: Vona að sagan hennar verði til þess að forða einhverjum frá því að prófa fíkniefni og enda á þennan hræðilega hátt


Senda póst til ADHD samtakanna