Var að gefast upp á því hvernig mér leið

Stefán Karl Stefánsson, leikari, upplýsti á Facebook-síðu sinni í gærkvöld að hann hefði notað lyf við ADHD frá því snemma á síðasta ári. Hann tengdi við frétt Spegilsins þar sem fram kom að Íslendingar ættu heimsmet í notkun lyfja gegn athyglisbresti og ofvirkni. Stefán Karl segir alltaf jafn fyndið að lesa svona greinar frá hinum yfirborðslega heimi „um að við, sem loksins erum komin á lyfin sem þið viljið að við tökum, séum nú farin að misnota þau líka.“

Færsla Stefáns Karls hefur vakið nokkra athygli. Þetta er ekki í fyrsta skipti þar sem hann stígur fram um málefni sem þykir feimnismál – barátta hans gegn einelti er flestum kunn.

Stefán Karl segir í samtali við fréttastofu RÚV að greiningin hafi verið honum mikill léttir.

„Það var auðvitað engum blöðum um það fletta að karlinn hefur verið með þetta í dágóðan tíma – þetta kom manni ekkert í opna skjöldu,“ segir Stefán Karl.

Þegar hann var í skóla hafi hann verið ólátabelgur og óstýrilátur enda ekki búið að finna upp ADHD.

Stefán segir að ástæðan fyrir því að hann ákvað að leita sér hjálpar hafi verið mjög einföld – hann hafi verið orðinn þreyttur – lífsþreyttur.

„Ég var eiginlega búinn að gefast upp á því hvernig mér leið. Að geta aldrei sest niður og einbeitt mér að einum einasta hlut, að geta stundum ekki hlustað á börnin mín eða konuna mína.“

Stefán nefnir það í pistli sínum að fylgikvillar ADHD geti verið þess eðlis að þeir gera líf annars fólks erfitt. „Svo erfitt að maður getur misst alla frá sér, eiginkonu og jafnvel börnin hætta að leita til manns og tala við mann og vinir, þetta er einangrandi.“

Hann bendir á þeir sem séu greindir með ADHD þurfi hjálpartæki til að lifa með sínum sjúkdómi – framleiðsla dópamíns sé ekki með eðlilegum hætti.

„Og með hjálp góðs geðlæknis, sem aðstoðar mann í gegnum þetta, er hægt að finna rétta skammtastærð og hvenær maður eigi að taka lyfið til að virka eðlilega,“ segir Steán Karl.

Hann áréttar þó að þessu fylgi engin persónubreyting – hann verði áfram eins og hann hafi alltaf verið. Nema að nú líði honum betur.

Sú aðstoð og hjálp sem hann hefur fengið við sínum sjúkdómi varð meðal annars til þess að hann treysti sér til að hætta að reykja eftir nokkur ár í reyknum.

„Ég hef meiri hugarstjórn og sjálfstjórn. Ég hef haldið tangarhaldi í sígarettuna eins og að hún hafi haldið í mér lífinu. Nú er ég í þeirri aðstöðu að hafa einhverja stjórn á lífinu.“

Stefán segir að það verði alltaf til fólk sem misnoti lyf. „Og það verða læknar sem ávísa þessum lyfjum eins og smartís. Læknastéttin verður að stíga fram og benda á þessa menn því það vita allir hverjir þeir eru.“

Hann gagnrýnir jafnframt að börn skuli þurfa að sitja á einhverjum biðlista svo mánuðum skiptir til að komast á lyf sem hjálpar þeim.

„Hvort er mikilvægara – að börn fórni lífi sínu fyrir lestrarátak eða að þeim líði vel í skólanum?“ spyr Stefán Karl Stefánsson.

Umfjöllun Spegilsins á RÚV

Færsla Stefáns Karls á facebook

 

Ég hef notað ADHD lyf frá því snemma á síðasta ári og það var engin hægðarleikur að fá þessi lyf. Ég fór í gegnum greiningu hjá sálfræðingi sem tók sinn tíma og svo skilaði sálfræðingur skýrslu sem var nokkuð nákvæm og persónuleg til geðlæknis sem kallaði mig svo á sinn fund. Þar fórum við yfir skýrsluna og niðurstöðurnar þar sem geðlæknirinn fór yfir stöðuna og sagði sitt álit. Í fullkomnu samráði prófuðum við hvort að lyf væri málið og skammtastærðin skipti þar máli, mín tilfinning og svörun.

Eftir að hafa prófað mig áfram í um 3 mánuði þá fann ég rétta skammtastærð sem hentaði mér og hvenær dags væri best fyrir mig að taka lyfin.

Líf mitt breyttist svo mikið til hins betra að ég ætla ekki að lýsa því, hvar voru þessu lyf þegar ég var að alast upp? Ég get ímyndað mér að þetta henti ekki öllum en í mínu tilfelli þá létti þokunni, ég get tekist á við lífið með mun einfaldari hætti en áður, ég get ekki lýst því svo einfalt er það, þessu lýsir maður ekkert svo auðveldlega en kannski að fjölskylda mín geti það.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að einhverjir misnota lyf o.s.fv. en ég ætla rétt að vona að líf okkar sem notum þetta til þess að eiga betra líf verði ekki stefnt í voða vegna einhverrar misnotunar á lyfjum sem öðrum kunna að vera lífsnauðsynleg.

Ég fann vissulega fyrir pressu að komast á lyf, fá hjálp en kannski er það skiljanlegt þar sem fylgikvillar ADHD geta verið þess eðlis að þeir gera líf annars fólks erfitt, svo erfitt að maður getur misst alla frá sér, eiginkonu og jafnvel börnin hætta að leita til manns og tala við mann og vinir, þetta er einangrandi.

ADHD er eitthvað sem ég væri alveg til í að vera laus við en ég væri ennþá meira til í að vera laus við og þetta stöðuga áreiti frá fólki að ég sé með ADHD, þetta daglega háð um að maður sé ofvirkur, velvirkur, tali of mikið og sé of mikið einhvern veginn svona eða hinsegin, það eru því miður ekki til nein lyf sem draga úr athugasemdum hinna vammlausu, það er eitthvað sem við þurfum að lifa með og þvi finnst mér alltaf jafn fyndið að lesa svona greinar frá hinum yfirborðslega fallega heimi um að við, sem loksins erum komin á lyfin sem þið viljið að við tökum, séum nú farin að misnota þau líka.

Pikkið í öxlina á mér þegar ég er orðinn nákvæmlega eins og þið viljið að ég sé, þá ætla ég að baka köku.


Senda póst á ADHD samtökin