Vel heppnuðu málþingi lokið

Húsfyllir var á málþingi ADHD samtakanna í Gamla Bíói í gær. Yfirskriftin var "Leikskólar og ADHD, að skilja - styðja og styrkja. Tæplega 180 manns voru skráðir þátttakendur og var þetta því eitt fjölmennasta málþing sem ADHD hefur haldið. Þá var ánægjulegt að sjá hve víða að, þátttakendur komu. Dagskráin fjallaði að stórum hluta um hvernig hægt er að vinna með börnum á leikskólaaldri og hvernig hægt er að koma til móts við þeirra þarfir.

Elín H. Hinriksdóttir, formaður ADHD samtakanna setti þingið. Hún sagði meðal annars að koma yrði til móts við börnin þar sem þau væru stödd og búa svo um hnútana að hverju barni væri gert kleift að nýta sína styrkleika. Að skilja, styðja og styrkja barnið ætti að vera forgangsverkefni okkar allra.

"ADHD samtökin hafa fundið fyrir að vandinn er mikill og til samtakanna leita iðulega foreldrar sem eru orðin úrkula vonar um að fá þjónustu fyrir barnið sitt. Hafa ber í huga að hvert ár í lífi barns telur. Fyrir hvert ár sem ekkert er gert eykst vandinn sem bitnar ekki eingöngu á barninu sjálfu heldur fjölskyldunni allri sem og nærumhverfinu. Markmið okkar á í fyrsta lagi að vera að útrýma biðlistum. Í öðru lagi að stytta biðtíma og veita viðunandi aðstoð, greiningu og meðferð innan mjög skamms tíma. Í stóra samhenginu er um litla upphæð að ræða miðað við þann ávinning sem af fjárfestingunni hlýst til lengri tíma litið. Að efla greiningar á börnum með ADHD og skyldum röskunum er ekki einungis til hagsbóta fyrir barnið, heldur erum við að fjárfesta í framtíð þeirra. Vilji er allt sem þarf.  Lengi býr að fyrstu gerð og með því að beita snemmtækri íhlutun og viðeigandi meðferð getum við búið til samfélag sem kemur til móts við börnin og stuðlar að því að þau geti tekið þátt í því samfélagi sem við búum í," sagði Elín H. Hinriksdóttir í ávarpi sínu.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðhera flutti ávarp og í kjölfarið fylgdu sex áhugaverðir fyrirlestrar.

Brynhildur Guðmundsdóttir, sérkennslustjóri leikskólans Múlaborgar fjallaði um stefnu Múlaborgar en leikskólinn sérhæfir sig í sameiginlegu uppeldi fatlaðra og ófatlaðra barna.

Bettý Ragnarsdóttir, sálfræðingur á Þroska- og hegðunarstöð kynnti námskeiðin "Klókir litlir krakkar", forvarnarnámskeið sem ÞHS ´byður upp á fyrir kvíðin og varkár börn.

Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, móðir,þroskaþjálfi og nemi í fötlunarfræðum fjallaði flutti erindi sem hún nefndi "Frá mínum bæjardyrum". Þar fjallaði Elín Ýr um upplifun sína semmóður barns með frávik, m.a. samskipti við starfsfólk kerfisins, sorgir og sigra, orðnotkun og hvað gera má betur. Óhætt er að segja að erindi hennar hafi vakið verðskuldaða athygli.

Elísa Guðnadóttir, sálfræðingur á Þjónustumiðstöð Breiðholts, fjallaði um hegðunarvanda, erfiða eða óæskilega hegðun hjá börnum á leikskólaaldri og fyrirbyggjandi aðferðir.

Anna Lind Pétursdóttir, dósent í sálfræði, sérkennslu og atferlisgreiningu við menntavísindasvið Háskóla Íslands fjallaði um aðferðir til að draga úr alvarlegustu hegðunarerfiðleikum, virknimat og einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir.

Síðasta fyrirlestur málþingsins flutti svo Bára Björk Björnsdóttir, sérkennari og deildarstjóri við heilsuleikskólan Álfastein í Hörgársveit í Eyjafirði. Í erindi sínu fjallaði Bára Björk um „Leikskólastelpur með ADHD einkenni – Frá sjónarhorni leikskólakennara“ meistarprófsverkefni sitt frá kennaradeild, hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Þar kemur m.a. fram að leikskólakennurum sem þátt tóku í rannsókninni, fannst vanta markvissari íhlutun fyrir stelpur með ADHD einkenni í leikskólum og aukna aðstoð í leikskólana til að sinna því. Einnig fannst þeim mikilvægt að auka þekkingu á ADHD meðal kennara og barna í leikskólum og í þjóðfélaginu öllu með fræðslu.

Lokaatriði Málþingsins var í höndum Svenna Þórs, Sigursveins Þórs Árnasonar, tónlistarmanns, leikara, söngvara og dansara.

Málþingsstjóri var Friðrik Sigurðsson, fyrrverandi framkvmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar og núverandi verkefnastjóri samtakanna.

Fyrirhugað er að birta einhvern hluta fyrirlestra af málþinginu hér á vef ADHD innan skamms.

Myndir frá málþinginu