Vill að ungir strákar með ADHD tjái sig í dansi

Fréttablaðið 01. september 2014

Guðmundur Elías Knudsen heldur námskeiðið Hreyfismiðjuna fyrir unglingsstráka með ADHD. Fréttablaðið greinir frá í dag og birtir viðtal við Guðmund. Hann byggir námskeiðið á eigin reynslu, en sjálfur er hann lesblindur og með athyglisbrest.

„Ég er sjálfur lesblindur með athyglisbrest og allan pakkann. Skóli var helvíti fyrir mig. Ég faldi mig bak við her af vinum, sem voru eiginlega allir haldnir sömu vandamálum. Svo fékk ég útrás í dansinum,“ segir Guðmundur Elías Knudsen sem hefur í samvinnu við Klifið, skapandi fræðslusetur, þróað námskeiðið Hreyfismiðjan fyrir stráka á aldrinum 13-16 ára sem eru með ADHD, athyglisbrest eða ofvirkni.

Guðmundur byggir námskeiðið upp á eigin reynslu. „Ég upplifði mikla reiði á unglingsárum vegna þess að ég féll ekki inn í boxið. Í menntaskóla var skorað á mig að mæta í ballet og ég ákvað upp á grínið að mæta. Eftir fyrsta tíma varð ekki aftur snúið," útskýrir Guðmundur Elías.

Hann hóf svo nám við Listdansskóla Íslands, en eftir það flutti hann sig til Hollands í nám við Hogeschool voor de Kunsten í Arnhem.

Guðmundur Elías leggur um þessar mundir stund á meistaranám við listkennsludeild Listaháskóla Íslands og verður Hreyfismiðjan hluti af meistaraverkefni hans.

„Ef ég hefði haft eitthvað svona þegar ég var á þessum aldri hefði kannski meira orðið úr manni en fátækur listamaður,“ segir Guðmundur Elías og hlær.

Markmið námskeiðsins er að auka sjálfstraust og líkamsímynd strákanna sem taka þátt. Að sögn Guðmundar verður unnið með líkamsmeðvitund og beitingu dansins sem farveg fyrir tilfinningar og reiði.

 

Á heimasíðu Klifsins - fræðsluseturs segir að námskeiðið sé ætlað fyrir unglingsstráka með ADHD. Á námskeiðinu eru kenndir nokkrir dansstílar sem byggja á YES AND tækni, eða jákvæðni í bland við flæði, sköpun og nútímadans. Unnið er með hreyfingu á fjölbreyttan hátt með liðleikaæfingum, gjörningum, flashmob, spuna auk þess sem farið verður í vettvangsferðir. Gestakennarar koma líka í heimsókn og fjalla sérstaklega um mátt hugans.

Markmið námskeiðsins er að auka sjálfstraust og líkamsímynd þátttakenda. Unnið er með líkamsmeðvitund og beitingu dansins sem farveg fyrir tilfinningar og reiði.

Námskeiðið er samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Klifsins, en Guðmundur Elías stundar kennsluréttindanám við LHÍ. Hreyfismiðjan er í þróun og munu þátttakendur fá tækifæri til þess að taka virkan þátt í mótun námskeiðsins með Guðmundi að þörfum unglingsstráka með ADHD.

Klifið / Vefsíða