Vitundarvakning ADHD: Forsetinn keypti fyrsta armbandið

Forseti Íslands keypti fyrsta armbandið
Forseti Íslands keypti fyrsta armbandið

Vitundarvakningu ADHD samtakanna var ýtt úr vör í dag en átakið hófst með sölu á armböndum. Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson keypti fyrsta armbandið af Ellen Calmon, framkvæmdastjóra ADHD samtakanna á Bessastöðum.

Yfirskrift átaksins er "Ég er gimsteinn - hvað með þig?" og er því ætlað að efla vitund almennings, stuðla að skilningi og auka stuðning við einstaklinga með ADHD.

Armbandið  er gert úr svörtu gúmmíi með áletrun ADHD samtakanna og glitsteinn á því vísar til þess jákvæða, góða og fallega sem í öllum býr, líkt og Bólu-Hjálmar bendir á í ljóði sínu;

Víða til þess vott ég fann
þó venjist tíðar hinu.
Að Guð á margan gimstein þann
sem glóir í mannsorpinu.

Fulltrúar íþróttafélaga, grunnskólanemar og fleiri munu á næstu dögum bjóða armböndin til sölu og er það von ADHD samtakanna að vel verði tekið á móti sölufólki.

Armbandið kostar kr. 1.500 og er einnig til sölu á vef ADHD samtakanna, www.adhd.is

Sala armbandanna er einn liður í fjölbreyttum viðburðum sem efnt er til á afmælisári en ADHD samtökin fagna 25 ára afmæli í ár.

Meðal annarra atburða sem efnt verður til á afmælisárinu má nefna alþjóðlega ADHD ráðstefnu á Grand Hótel 25. og 26. október nk. og afmælisveislu í sumarbyrjun.

KAUPA ARMBAND