Vel heppnað málþing!
Að þessu sinni var sjónum beint að krefjandi hegðun barna með ADHD, þeim þáttum sem ýta undir hana og raunhæfum leiðum til að fyrirbyggja og styðja við börn, foreldra og starfsfólk skóla.
Málþingið hófst á afhendingu Hvatningarverðlauna ADHD samtakanna og hlaut Sara Rós Kristinsdóttir þau að þessu sinni fyrir sitt framúrskarandi framlag.
Þá var Sólveig Ásgrímsdóttir einnig heiðruð fyrir brautryðjandastarf sitt á vettvangi ADHD og áralanga vinnu innan samtakanna. Sólveig hefur lengi barist fyrir bættum skilningi á ADHD og er m.a. höfundur bókarinnar ADHD í flughálku, sem ætluð er foreldrum ungmenna með ADHD.
Atla F. Magnússonar flutti fyrsta erindið sem fjallaði um áfallamiðaða nálgun og þá innsýn sem hún gefur í hegðunarvanda barna.
Signý Gunnarsdóttir fór yfir samspil málþroska og hegðunar með áherslu á málþroskaröskun (DLD).
Sharon Saline talaði m.a. um stýrifærni heilans (brain executive function) og aðferðir til að hjálpa börnum að takast á við verkefni sem þeim finnast leiðinleg eða krefjandi. Sharon færði einnig einum heppnum þátttakanda eintak af bók sinni What Your ADHD Child Wishes You Knew og ADHD lausnaspilastokk.
Guðbjörg Þórlindsdóttir fræddi okkur um tengsl skynúrvinnsluvanda og ADHD og mikilvægi þess að skólakerfið og foreldrar vinni markvisst að því að draga úr óþarfa áreitum.
Heiða Guðmundsdóttir kynnti svo verkfæri úr Jákvæðum aga (Positive Discipline) með áherslu á kenna þurfi börnum tilfinningastjórn og að þau eigi og kunni að nýta sér griðastað.
Soffía Ámundadóttir kennari við Menntavísindasvið HÍ, lauk síðan málþinginu með yfirgripsmikilli umfjöllun um hegðunarvanda og ofbeldi barna í skólum ásamt leiðum og úrræðum til að fyrirbyggja og bregðast við. Hún lagði áherslu á brýna þörf þess að farið sé í átak í þessum málum og kallaði eftir því að stjórnvöld vinni með fagfólki af vettvangi í stað þess að fresta málinu í nefndir. ADHD samtökin taka heilshugar undir það ákall.