Eftirfarandi kafli er fenginn að láni úr bókinni “Helping Your Hyperactive / ADD Child” eftir Bandaríkjamanninn John Taylor sem starfar í Salem í Oregon. Hann er eins konar hughreystingarbanki og ætti að geta orðið mörgum foreldum að gagni. Bókina er að finna í bókasafni Foreldrafélags misþroska barna.
Hvernig á að bæta sjálfsvirðinguna?
Að nýta sér glappaskot á gagnlegan hátt
Barninu þínu verða á fjöldamörg glappaskot en það er óþarfi að láta þau rýra eða eyðileggja sjálfsvirðinguna. Glappaskotin eru þvert á móti tækifæri til að styrkja við sjálfvirðinguna og að eflast andlega frá því að berjast við að fækka mistökunum og að auka færni sína.
Enginn hegðar sér fullkomlega. Glappaskot og gallar eru eðlilegur þáttur lífsins. Það á ekki að gagnrýna yfirsjónir þannig að það eyðileggi sjálfvirðingu barnsins þíns. Kenndu barninu þínu að læra af glappaskotum.
Mikilvægt er að sætta sig við gallana hjá sjálfum sér og þeim sem maður umgengst. Það er einnig mikilvægt að taka á glappaskotum á uppbyggilegan hátt svo barnið geti lært að líkja eftir þeim þroska sem uppalandinn hefur tileinkað sér. Þegar barn þitt er að missa sjálfstraustið vegna yfirsjóna sinna ver að hughreysta það að sinni með því að kenna því eftirfarandi staðreyndir.
Glappaskot gefa til kynna að maður sé að sinni ekki reiðubúinn. Glappaskot sýna að viðkomandi var ekki búinn undir að framkvæma það sem gert var. Yfirsjón er engin sönnun þess að maður verði alla ævi ófær eða óhæfur um að vinna ákveðið verk. Sem dæmi um hvetjandi setningar má nefna: „Glappaskot táknar stundum að maður sér ekki tilbúinn“ eða „mér sýnist þú ekki vera alveg fær um að gera þetta ennþá.“
Glappaskot eiga sér ástæður. Yfirsjónir eru ekki viljandi gerðar. Þær eru afsakanlegar og réttlætanlegar. Gerðu þér far um að rekja rætur glappaskota. Þannig kennir maður barni sínu að nýta sér mistökin til að auka hæfileika sína. Það þarf að hvetja barn til þess að hafa hugrekki til að vera ekki fullkomið og þú verður að vera nógu hugrakkur/hugrökk til að sætta þig við þann ófullkomleika.
Oft er hægt að hlæja að glappaskotum. Leitaðu að því broslega og fáránlega í því sem gerist og hlæðu að þínum eigin yfirsjónum hvenær sem það er mögulegt. Þessi aðferð gefur tóninn við að taka þeim á eðlilega léttvægan hátt. Ef barnið er hvatt til þess að horfa á broslegu hliðina á glappaskotum sínum hefur það uppörvandi áhrif.
Glappaskot eru eðlileg. Fólk ætti að hafa í handraðanum efni eða aðferðir til að hjálpa barninu við að jafna sig á glappaskotinu. Komdu upp öryggisneti við þá starfsemi sem þú og barnið sinnið. Sé barninu sagt að það sé engin hætta á yfirsjónum er verið að leggja aukna áherslu á einmitt þær. Það gæti kannski virst sem það dragi kjark úr fólki að maður eigi von á glappaskotum en svo er þó alls ekki ef það er gert á réttan hátt, til dæmis: „þess vegna er strokleður á blýöntum“, „Auðvitað verður manni á“ eða „þú hefur bara sannað að þú ert mannleg(ur).“
Glappaskot verða af slysni. Segðu barninu þínu að þú vitir að því varð ekki viljandi á. Líttu á glappaskot eins og hvert annað óhapp. Þau gerast, það þarf að leiðrétta yfirsjónina og lífið á að halda áfram með eins litlu tjóni og mögulegt er. Hafðu á takteinum setningar á borð við: „óhöpp geta orðið og fólk gerir glappaskot“ og „ég veit að þetta var ekki viljandi gert.“
Stundum nýtir barn sér óhöpp á borð við það að hella niður mjólk, missa blýant eða rekast á önnur börn sem leið til að vekja óþarfa athygli. Við þannig aðstæður þarf þó fremur að beita aga en uppörvun.
Glappaskotin sanna að maður var að reyna. Glappaskot eru nauðsynleg og eðlileg aukaafurð þess að leggja sig fram af einlægni. Eina örugga leiðin til að forðast öll glappaskot er að spreyta sig aldrei á neinum verkefnum. Minntu banrið þitt á að meira að segja bestu handboltamennirnir missa stundum boltann og stangarstökkvarar geta fellt rána. Leggðu áherslu á að glappaskotin sýna að barnið er að reyna. Forðastu að leggja áherslu á fjölda eða glappaskotanna eða hve alvarleg þau eru. Sem dæmi um hvatningu má nefna setningar eins og: „þetta sannar bara að þú varst að reyna“ og „ef þér hefði ekki orðið nein mistök á hefði ég ekki vitað að þú værir að fást við þetta.“
Glappaskot sýna að fólk er ófullkomið, ekki að það sé misheppnað. Maður á ekki að láta yfirsjónirnar stöðva sig, þær eru einmitt ástæðan fyrir því að halda áfram að reyna. Kenndu barninu þínu að líta á glappaskot sem ólokið verkefni. Það á að ætlast til þess að barnið haldi áfram að vinna að ákveðnu verkefni, ekki bara þar til því er lokið heldur að það sé unnið að þolanlegri nákvæmni. Gættu þess að leggja ekki ofmikla áherslu á gæði frammistöðunnar en hvettu barnið til að leiðrétta villur í verkefnum sínum. Frægur þjálfari sagði eitt sinn eftir að lið hans tapaði: „við töpuðum ekki, við höfðum bara ekki nægan tíma.“ Það er skynsamlegt að kenna barninu þessa lífssýn.
Glappaskot eru óheppileg en ekkert stórslys. Því minna veður sem gert er út af yfirsjón, þeim mun betra. Ef barni þínu verður á skaltu vera róleg(ur) og segja fátt en hughreysta barnið. Þetta er stundum erfitt, einkum þegar barnið gerir sama glappaskotið aftur og aftur, en þolinmæði þrautir vinnur allar. Sem dæmi um hvetjandi setningar má nefna: „Heimurinn ferst ekki þótt þetta hafi gerast“ eða „fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.“
Glappaskot koma að gagni. Kenndu barninu að glappaskot geti komið að gagni og maður hagnast á þeim. Hvettu það til að nýta sér reynsluna og að breyta til þannig að glappaskotið bæti frammistöðuna. Það er til dæmis hægt að hvetja stálpað barn með þessum setningum: „Maður þarf stundum að lenda í blindgötu til að komast aftur á rétta leið“ og „eini munurinn á þröskuldi og fótfestu er hvernig maður nýtir sér hana.“
Það er mikilvægt að halda ekki umvöndunarræður yfir barninu um hvernig það eigi að nýta sér glappaskot á jákvæðan hátt. Ræddu frekar við það og sýndu þínum eigin glappaskotum umburðarlyndi. Ef þér sýnist sem glappaskotin séu farin að angra barnið skaltu hughreysta það af hlýhug. Sýndu bæði í orði og verki hvernig á að nýta þessar jákvæðu hugmyndir um hvernig eigi að nýta sér glappaskot á jákvæðan hátt.
Það þarf stöðugt að styðja við sjálfsvirðingu barna, einkum þeirra sem kljást við þroska- og hegðunarvandamál því hún er forsenda alls þess sem barnið þitt á eftir að afreka, bæði nú og síðar. Allir þrá að heyra til ákveðins hóps, að eiga sér félagslegan samastað. Þar er ábyrgð okkar foreldra mikil.
Matthías Kristiansen þýddi