Örvandi leikir

Okkur hefur áskotnast nokkurt lesefni frá kanadískum foreldrasamtökum barna sem eiga

erfitt með nám. Eftirfarandi er upptalning á leikjum sem skerpa athygli og örva börn til
máls. Leikirnir eru einkum ætlaðir yngri börnum.

I - Að staðsetja hljóð

1. Barnið situr með augun lokuð eða með bundið fyrir augun. Færðu þig um herbergið,
talaðu, klappaðu saman höndum, notaðu hluti sem gefa frá sér hljóð, svo sem klukkur
o.s.frv. Barnið á að benda á þann stað sem hljóðið kemur frá. Athugaðu að láta hljóðið
koma úr öllum áttum til barnsins. Hafðu einnig styrk hljóðsins breytilegan.

2. Feldu klukku sem tifar eða hlut með sóni í herberginu. Barnið á að finna hlutinn.

II - Að greina hljóð

1. Barnið situr með lokuð augun í herbergi með nokkrum manneskjum. Síðan á barnið að
geta sér til um það hver segir: „Hver er ég?“.

2. Þennan leik mætti reyna með síma. Samvinnuþýðir vinir eru fengnir til þess að hringja
og barnið látið segja til um það hver sé í símanum.

3. Barninu eru sýndir nokkrir hlutir sem gefa frá sér mismunandi hljóð þegar á þá er
slegið. Barnið á að reyna að þekkja hljóðin með lokuðum augum eða með því að snúa
bakinu að hlutunum.

4. Hvetjið barnið til þess að greina milli hljóðs sem er nær eða fjær, hátt eða lágt, hávært
eða hljótt.

III - Að greina fjölda hljóða

1. Að klappa eða stappa einu sinni, tvisvar eða þrisvar samkvæmt fyrirmælum.

2. Takt klapp. Barnið á að endurtaka klapp eftir að hafa horft á eða hlustað.

3. Það má fara í svipaða leiki með breytilegum takti. Þetta gæti verið skemmtilegra með
trommum. Einnig mætti nota sílófóna eða píanó og takturinn gæti falið í sér laglínu.

4. Að telja langa röð slaga taktmælis með breytilegum hraða.

IV - Orð og söngvar

1. Notaðu ljóð og lög með taktvissu viðlagi, sum til þess að hlusta á og önnur til þess að
læra utan að.

2. Lestu barnagælur fyrir yngri börnin og hvettu þau til þess að fylla inn í orð eða jafnvel
síðustu línuna þegar þau fara að þekkja ljóðið.

3. Segðu og lestu spennandi sögur.

4. Ef barnið þitt er sólgið í sjónvarp þá er ráð að láta barnið af og til hlusta á útvarpsþátt í
staðinn og fylgja efnis-þræði án þess að styðjast við myndir. Með útvarpstækjum er hægt
að stuðla að þjálfun hlustunar.

5. Æskilegt er að hlusta á hljómplötur, bæði tónlist og sögur.

V - Að fylgja fyrirmælum

Gefðu barninu fyrirmæli sem smátt og smátt verða flóknari. Gefðu barninunægan tíma
til þess að átta sig vel á leiðbeiningunum áður en það hefst handa. Grínaktugir leikir eru
til þess fallnir að ná betur athygli barnsins.

Dæmi:
* Láttu skó á höfuðið
* Finndu blýant og láttu hann í ísskápinn.
* Farðu inn í eldhús, snúðu þér í þrjá hringi og komdu svo með fiskibolludós. O.sv.fr

HEILRÆÐI

1. Talið oft við barnið.
2. Gefið hlutum nöfn.
3. Finnið ný nöfn fyrir gömul.
4. Lýsið athöfnum ykkar með orðum.
5. Lýsið athöfnum barnsins með orðum.
6. Lýsið atburðum líðandi stundar með orðum.
7. Talið hægt og skýrt.
8. Notið heilar setningar þegar þið talið við barnið.
9. Forðist smábarnamál.
10.Takmarkið notkun sjónvarps.
11. Ræðið við barnið um þá þætti sem þið horfið á í sjónvarpinu.
12. Lesið fyrir barnið.
13. Örvið barnið til máls.
14. Skapið barninu tækifæri til þess að tala.
15. Leiðbeinið barninu með því að segja setningar á réttan hátt án þess að tala um mistökþess.
16. Hrósið barninu fyrir málfarið.

Ingólfur Eyfells þýddi og staðfærði.