Skólarnir eru að hefjast - höfum aðgát í umferðinni!

Af vefsíðunni born.is

Eftirfarandi kafli er að uppistöðu ráðleggingar sem birtust á heimasíðu born.is fyrir skömmu en þar er mikið af áhugaverðu efni að finna fyrir foreldra. Þar er t.d. bæklingur sá sem Foreldrafélagið hefur látið prenta og dreifa með stuðningi Velferðarsjóðs íslenskra barna, og auk þess umræðuhópur um ýmsa hluti, t.d. athyglisbrest með/án ofvirkni og þroska- og hegðunarvandamál af ýmsu tagi.
Við fengum góðfúslegt leyfi ritstjóra til að nýta okkur þetta efni af síðunni.

Skólarnir eru að hefjast -höfum aðgát í umferðinni!

Nú eru skólarnir að hefjast og þá þarf að huga að mörgu. Eitt af því er aukin umferðarhætta. Ökumenn þurfa nú að taka sérstakt tillit þar sem það má segja að umferðarmenningin taki stakkaskiptum þegar tugþúsundir barna streyma í og úr skóla. Hafa þarf sérstaka aðgát við skólana og annarsstaðar þar sem börn eru á ferð og að sjálfsögðu er hraðakstur eitthvað sem á ekki að sjást við skólalóðir, en því miður kemur það fyrir.

Ennfremur þarf að hafa sérstaka aðgát þar sem börn hafa ekki sama þroska og fullorðnir vegfarendur. Sum barnanna eru líka að stíga sín fyrstu skref í grunnskóla. Hafa ber í huga að það er sannað að sérstaklega yngri börn eru ekki komin með fullmótað fjarlægðarskyn auk þess sem þau skynja ekki hraða á sama hátt og fullorðnir. Málið er því að aka varlega og vera á varðbergi gagnvart börnunum, og sérstaklega við skólana.

Síðan skiptir miklu máli að þegar foreldrar keyra og sækja börnin sín í skólann að börnin geti hættulaust farið frá og að bílnum.

Við foreldrar berum alla ábyrgð! Förum varlega, verum góðar fyrirmyndir og fræðum börnin okkar um hætturnar.

Börn hafa þrengra sjónsvið en við fullorðnir og eiga því erfiðara með að meta hraða og fjarlægð ökutækja. en þeir Heyrn þeirra er heldur ekki fullþroska og eiga þau því erfitt með að átta sig á hvaðan hljóðin koma. Þegar börnin eru að byrja að fara út í umferðina eru þau svo lítil að þau sjá ekki yfir bílana þegar þau standa á gangstétt þar sem bílum hefur verið lagt. Kennið því barninu að fara aldrei yfir götu nema á gangbraut.

Leikskólinn er fyrsta skólastig barnsins og þar læra börn umferðarreglur eins fljótt og þau hafa þroska til m.a. í gegnum leik, daglegu starfi og gönguferðum. Mikilvægt er að koma umferðarfræðslu til skila í gegnum daglegar venjur barnsins. Við þurfum að vekja áhuga barnanna á þeim atriðum sem eru mikilvægust hverju sinni. Best er að fara með börnin út og leyfa þeim að læra af reynslunni. Börn læra betur það sem fyrir þeim er haft en það við þau er sagt. Áríðandi er því að vera góð fyrirmynd barnanna.

Þegar börn ganga ein heim úr skóla er mikilvægt að foreldrar kanni með þeim hentugustu leiðina. Kennið börnunum hvar öruggast sé að ganga, að þau eigi að nota göngustíga ef þeir eru fyrir hendi, að nota undirgöng undir miklar umferðargötur, að fara alltaf yfir götu á gangbraut og kennið þeim á gangbrautarljósin. Í nýrri hverfum og þar sem ekki eru gangbrautir á alltaf að ganga á móti umferð. Síðast en ekki síst eiga allir að vera með endurskinsmerki.

Algengasti tími slysa á börnum er í septembermánuði, á föstudögum milli 16.00-19.00. Flest slysin gerast í bílum eða 56%, 19% gangandi og 18% á reiðhjóli.

Kynnið ykkur góðar heimasíður t.d. hjá www.born.is