Tíu góð ráð fyrir þá sem búa með ofvirku og/eða misþroska barni

Greinin byggist á reynslu fólks við Colorado Medical Centre og er unnin af Dr. B. Schmitt yfirlækni þar og norska barnageðlækninum Jørgen Diderichsen. Matthías Kristiansen þýddi á íslensku.

1. Sleppið engu tækifæri til að sýna barninu að ykkur þykir vænt um það þrátt fyrir erfiðleikana

2. Reynið að byrja á því að sætta ykkur við takmarkanir barnsins
Barnið er knúið áfram af innri óróleika og hvatvísi sem leiðir til marklausar virkni, án þess að það geti við það ráðið. Barninu tekst sjaldnast að losna alveg við þetta hegðunarmynstur. Þó er hægt að minnka það að vissu marki og beina því markvisst í jákvæðar áttir með því að beita innsæi, þolinmæði og umburðarlyndi. Ástandið batnar oft á skólaárunum.

3. Gefið barninu tækifæri til að nýta sér orkuna sem það á svo nóg af
Það þarf að geta hreyft sig utandyra, hlaupið, stokkið, klifrað, leikið sér með bolta o.s.frv., helst oft á dag. Reynið að finna staði þar sem það er ekki í hættu vegna umferðar, eða þar sem nágrannar og aðrir fullorðnir eru ekki sífellt með boð og bönn.
Innandyra gæti einfalt kjallaraherbergi með traustum húsgögnum, bílskúr eða gangur sem hægt er að loka með grind, komið í stað stórs barnaherbergis.
Ekki má alltaf hugsa um að slá á ofvirknina, hún verður að sleppa út öðru hverju. Þó ætti ekki að hvetja ofvirk börn eða æsa þau með fyrirgangi og hávaðasömum leikjum, stríðni eða hrópum (Náðu mér, náðu mér! o.s.frv.).

4. Forðist ofþreytu og að æsa barnið um of
Stórir mannfagnaðir, ferðir á veitingastaði, stórverslanir í önnum, strætó þegar umferðin er mest o.s.frv. hafa yfirleitt mjög slæm áhrif á sjálfstjórn barnanna sem er þó léleg fyrir. Hana þarf að þjálfa við rólegri aðstæður áður en hægt er að bjóða barninu aukið álag.

5. Skipuleggið daglega lífið eins vel og kostur er
Máltíðir, notalegar stundir saman og svefntími á að vera í eins föstum skorðum og hægt er, en þó auðvitað í samræmi við þarfir bæði barns og fjölskyldu. Rökrétt og eðlileg viðbrögð og reglur fullorðinna veita barninu öryggi og betri möguleika á að koma skipulagi á líf sitt.

6. Fastar viðmiðanir í uppeldinu
Gamaldags agi skiptir ofvirkt barn miklu meira máli en önnur börn. Reglurnar eiga fyrst og fremst að vernda barnið og umhverfi þess fyrir slysum. Þess vegna er nauðsynlegt að forgangsraða því sem leyfilegt er eða bannað. Ýta þarf til hliðar smáatriðum og forðast ber óþarfa reglur og kröfur sem þessi börn eiga í miklum erfiðleikum með að fara eftir.

7. Hjálpið barninu til aukins þroska með verkefnum og ögrunum sem það getur örugglega náð tökum á
Hrósið barninu strax og hvetjið það (jafnvel með verðlaunum) þegar það nær tökum á verkefni. Ef barnið ræður ekki við verkefnið má reyna minni áfanga og þannig kynnast verklaunum í litlum skömmtum.Forðist stöðugt nöldur, gagnrýni og almennar athugasemdir sem lítillækka barnið („Þú ert óþolandi“ - „Þú getur aldrei neitt“ - „Geturðu ekki verið til friðs?“ o.s.frv.). Reynið að forðast að fá barninu hlutverk blóraböggulsins í samskiptum við nágranna og félaga með því að sýna öðrum að það nýtur ástar og viðurkenningar heima hjá sér. Gerið barninu skýra grein fyrir, að það ráði yfirleitt ekki sjálft við aðstæður sem koma upp þegar það lendir í vandræðum.

8. Vinnið gegn reiðiköstum og árásargirni með refsingu sem ekki er líkamleg
Ef það hefur ekkert að segja að ræða við barnið eða að reyna að beina athyglinni að öðru, kemur einangrun á sérstökum stað sér oft vel, vel að merkja ef þetta er gert á rólegan og rökréttan hátt og án rökræðna. Einangrunin á aðeins að vara þar til barnið er orðið rólegt, eða í fyrirfram ákveðinn tíma ( 5 til 10 mínútur) ef um stærra barn er að ræða. Hægt er að nota baðhergið, krók í stofunni eða leiðinlega kompu (smíðastofan hans Emils í Kattholti var líklega of spennandi). Reynið að líta fram hjá minniháttar óróleika og nöldi í barninu, þegar ykkur finnst að búið sé að mæta nægilega vel þörf þess fyrir athygli og umönnun.

9. Þjálfið eftirtekt barnsins (athyglisspanið)
Verðlaunið umsvifalaust og reglubundið einbeittan leik og önnur viðfangsefni sem krefjast athygli (myndabækur, minnisleiki, púsluspil, teikningu o.s.frv.). Byrjið með smávegis eftirvæntingu og aukið smám saman tímann og þyngd verkefna sem þarf til að hrós eða áþreifanlegum verðlaun verði veitt. Látið barnið ekki hafa of marga leiki og verkefni í einu en farið mismunandi leiðir að því að læra það sama (t.d. að horfa samtímis á mynd eða orð, að heyra nafnið á myndinni eða orðinu, teikna eða herma eftir myndum með blýanti eða handahreyfingum o.s.frv.). 12 x 5 mínútna einbeiting við ákveðið verkefni er að jafnaði miklu betri en 2 x 30 mínútur.

10. Slakið á öðru hverju!
Hversdagslífið gerir svo miklar kröfur til foreldra og systkina þessara barna að fólk þarf að geta slakað á. Móðir, sem er með barnið heima allan daginn, þarf að láta föðurinn leysa sig af þegar hann kemur heim úr vinnunni. Föst barnagæsla eða dagvistun t.d. tvo daga síðdegis í viku og eitt kvöld eða helgi öðru hverju er fjölskyldunni ómissandi, ef hún á að geta þraukað og haldið kröftum og lífslöngun.

Börn eru eins og svampar. Þau sjúga í sig alla orku manns og geta gert út af við fólk, en ef maður þrýstir þeim fast að sér kemur það allt til baka.
Abraham Lincoln.