Um boðskipti og skipulagða kennslu og vinnubrögð

Fyrirlestur Svanhildar Svavarsdóttur

Svanhildur Svavarsdóttir boðskiptafræðingur og einhverfuráðgjafi var með fyrirlestur 24 janúar síðastliðinn þar sem hún fjallaði um boðskipti og skipulagða kennslu og vinnubrögð.
Þar sem Svanhildur er nú búsett erlendis og hefur á seinni árum einbeitt sér að einhverfum börnum þá er orðið ansi langt síðan að hún hefur haldið fyrirlestur hjá okkur. Því var það mjög ánægjulegt að hún skyldi gefa sér tíma til að halda þennan fyrirlestur í sinni stuttu heimsókn til landsins. Einnig var ánægjulegt að sjá hversu margir mættu á fyrirlesturinn, ekki bara foreldrar heldur einnig var fagfólkið fjölmennt, en það sýnir það hversu vel þekkt Svanhildur er fyrir vinnu sína í þágu barna með ýmiss konar þroska- og málhamlanir.
Í byrjun fyrirlestursins kom fram að einungis 7% af öllum boðskiptum eru orð. Þetta kom mörgum á óvart. Getur það virkilega verið að við séum svo meðvituð um orðin og mátt þeirra að við sjáum ekki eins hin boðin eða eru þau bara svo sjálfsögð að við erum ekki meðvituð um að við séum að taka á móti öðrum boðum?
Erfitt er að reyna að koma öllu því á blað sem bar á góma hjá Svanhildi en hér á eftir er það helsta.

Hver er tilgangur boðanna?
1) það er að sinna eigin þörfum (instrumental)
2) það er að stjórna öðrum (regulatory)
3) það er til að ná tengslum (international)
4) það er til að tjá líðan (personal)
5) það er til að tjá ímyndun (imaginative)
6) það er til að fá upplýsingar (heuristic)
7) það er að veita upplýsingar (informative)

Hver er færnin til boðskipta?
Þegar verið er að athuga færni einstaklings til boðskipta þarf að hafa þessa þætti í huga:
a) hvernig viðkomandi horfir á viðmælanda/hlustar/af hvaða athygli
b) hvernig viðkomandi byrjar samskiptin
c) hvort viðkomandi ástundar gagnkvæm boðskipti
d) hvort viðkomandi heldur áfram
e) hvort viðkomandi breytir umræðunni
f) hvort viðkomandi er fær um að útskýra
g) hvort viðkomandi spyr spurninga.

Gildi skipulags fyrir nemanda
Mikilvægt er að kennari geri sér ljóst hversu mikilvægt það er að visst skipulag ríki innan veggja skólastofunnar.
1) hvar á nemandinn að vinna/leika/borða ..?
2) hvenær á nemandinn að vinna/leika/borða?
3) hvernig á nemandinn að vinna?
4) hversu mikið á nemandinn að vinna?
5) hvað gerist næst?
6) hvað fær nemandinn fyrir vinnuna?

Greind felur í sér skilning á:
Rúmi - hvar
Tíma - hvenær
Eiginleika - hvað
Magni - hversu mikið
Orsök - hvers vegna

Atriði sem trufla boðskipti:
a) umhverfið
b) skipulagsleysi
c) lélegt minni
d) kröfur
e) breytingar (á fólki eða aðstæðum)
f) merki eða boð óljós
g) þreyta - spenna

Svanhildur notaði þó nokkurn tíma til að útlista boðskiptin nánar og skilning á þeim og hvernig hægt er að örva skilninginn með t.d. ýmsum leikjum eins og ímyndunarleik og hreyfileik. Einnig talaði hún um málþroskamat, málþroskapróf, boðskiptamat, þjálfun á málþroska, málörvun, hvernig við lærum, hvernig hægt sé að kenna (leiðbeina) rétta hegðun og samskipti í leik. Þar sem þetta eru allt ansi viðamiklir flokkar þá er erfitt að fara nánar út í það hér að þessu sinni.
Miklar umræður spunnust í lokin og var Svanhildur fús til að svara öllum fyrirspurnum. Almenn ánægja var meðal þeirra er sáu sér fært á því að mæta. Er það von okkar að Svanhildur sjái sér fært um að koma aftur til okkar á næstu árum og þá hvetjum við þá foreldra sem ekki voru svo lánsöm að koma börnunum sínum til hennar í þjálfun að mæta á fyrirlestur hjá henni og drekka í sig þann fróðleik sem hún hefur upp á að bjóða.

Steinunn Þorsteinsdóttir og Kristín I. Guðmundsdóttir