Skrefi á undan - forvarnarefni ætlað foreldrum barna í ákveðnum áhættuhópum

Bindindissamtökin á Íslandi stóðu í sumar að útgáfu bókarinnar Skrefi á undan í umsjá
Elínar E. Jóhannsdóttur og í samstarfi við Foreldrafélag misþroska barna og samtökin
Geðrækt.

Bókin er ætluð foreldrum og hugsuð þeim til stuðnings í forvarnarstarfi gegn áfengis
og vímuefnaneyslu barna í ákveðnum áhættuhópum. Í því skyni er leitað fanga hjá fólki
með bakgrunn af ýmsu tagi og má þar til dæmis nefna Ólaf Ó. Guðmundsson barnalækni og
forstöðumann á BUGL, Pál Magnússon sálfræðing við sömu stofnun og Rögnu
Freyju Karlsdóttur sérkennara en þau hafa öll miklu reynslu af starfi með börn með
athyglisbrest með ofvirkni og ýmis þroska- og hegðunarvandamál. Einnig má nefna
Vigdísi Stefánsdóttur blaðamann og Davíð Bergmann Davíðsson unglingafulltrúa sem
bæði hafa kynnst vandanum og afleiðingum hans og eru þá margir ónefndir með mikla
þekkingu og reynslu sem við sögu koma við tilurð bókarinnar.

Í bókinni Skrefi á undan er farið yfir einkenni ofvirkni og hegðunarraskana, helstu
áhættuþætti og einkenni, atferlismótun, umbunarkerfi og mikilvægi góðra samskipta og
hvernig foreldrar geta veitt börnum sínum stuðning í nútímasamfélagi sem sífellt verður
flóknara. Rætt er við mann sem gengið hefur í gegnum ferli ofvirkni og neyslu og móður
ungs manns sem missti fótanna með dýrkeyptum afleiðingum. Þar er einnig að finna góð
ráð til foreldra bæði grunnskóla- og forskólanema en oft má finna börn í umrædd-um
áhættuhópum strax á unga aldri og í framhaldi af því er hægt að bregðast við á meðan
tækifæri gefst til.

Síðast en ekki síst er í bókinni mjög fróðlegt viðtal við þaulreyndan sérkennara
sem gefur þeim góð ráð sem móta nánasta umhverfi barnsins.

Í bókinni Skrefi á undan er einnig vísað á stofnanir og samtök sem veitt geta
aðstoð bæði áður og eftir að vandinn kemur fram og margt fleira fróðlegt er að finna í
þessari merku bók en hún er gott framtak fólks sem vill æsku þessa lands og framtíð þess
allt hið besta. Hún staðfestir þá skoðun margra að forvarnir gegn hvers kyns
vímuefnanotkun ungs fólks skili því einungis árangri að börn í áhættuhópum séu leituð
uppi á sem yngstum aldri og markvisst tekið á vanda þeirra með það fyrir augum að koma
í veg fyrir neyslu vímugjafa. Allur kostnaður við þá vinnu skilar sér margfaldlega síðar
meir.

Við sem stöndum að Foreldrafélagi misþroska barna erum stolt af því að eiga hlutdeild í
útgáfu þessarar athyglisverðu bókar og hvetjum félaga okkar til að styðja við útgáfu
hennar. Henni er dreift til þeirra sem sækja námskeið og fræðslu á vegum félagsins en
félagið hefur alltaf haft það á stefnuskrá sinni að miðla fræðsluefni ókeypis til þeirra sem
það vilja þiggja.

Að lokum viljum við benda á heimasíðu félagsins, www.obi.is/ADHD.htm, en þar er að
finna meira fræðsluefni sem nýtist bæði foreldrum, grunn- og forskólakennurum og
öðrum þeim sem vinna með börn.

Börn með þroska- og hegðunarvanda af ýmsu tagi eru á bilinu 5 til 10 af hundraði hvers
árgangs þannig að allir sem hafa með börn að gera, kynnast líka þessum hópi sem er bæði
skemmtilegur og vandmeðfarinn.

Matthías Kristiansen