Starf félagsráðgjafa á Dalbraut.

Samantekt frá fyrirlestri Kristínar Kristmundsdóttur og Karls Marínóssonar
félagsráðgjafa á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans við Dalbraut. Ræddu þau um
námsferð til Bandaríkjanna og hvernig unnið er að málefnum barna með ofvirkni á
Dalbraut. Einnig er fléttað inn í samantektina spurningum úr sal og umræðum út frá
þeim.

Námsferðin

Starfsfólk á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans fór til Bandaríkjanna til að kynna
sér hvernig staðið væri að meðferð og greiningu barna með ofvirkni og fræðslu til
foreldra þeirra. Þeir sem fóru utan voru læknir, kennari, félagsráðgjafar, myndþerapisti og
sálfræðingur.

Áður en farið var í þessa ferð hafði átt sér stað mikil umræða um hvernig hægt væri að
breyta og bæta þá þjónustu sem Barna- og unglingageðdeildin við Dalbraut (hér eftir
nefnd Dalbraut) veitti börnum með ofvirkni og fjölskyldum þeirra.
Fyrir valinu var ofvirkni-„klínik“ rétt fyrir utan Boston. Yfirmaður þar er Russel
Barkley sálfræðingur. Hann er nú í fremstu röð í heiminum í rannsóknum á ofvirkni
barna.

Á þessari „klínik“ fer fram greining á ofvirkni, foreldranámskeið og fræðsla til kennara.
Mikil áhersla er lögð á að fræða bæði foreldra og kennara og aðra sem hafa með börnin
að gera.

Námskeið fyrir foreldra stendur í 10 vikur. Hópur foreldra 6 til 8 barna sem hafa greinst
með ofvirkni eru einu sinni í viku, 90 mínútur í senn. Fyrst er almenn fræðsla um
ofvirkni. Foreldrar fá lesefni og heimaverkefni. Einnig eru sýnd myndbönd. Fræðslan
felst í því að kenna og þjálfa foreldra til að nýta sér atferlismótun “time out“ (einvist) sem
virðist nýtast best á börn með ofvirkni.

Sýnd eru fjögur mismunandi myndbönd.

* Fyrsta myndbandið er 30 mín. langt. Fjallar það um einkenni ofvirkni, tíðni og
framtíðarhorfur hjá ofvirkum börnum.
Foreldrar fá að taka myndbandið með sér heim.
* Annað myndbandið sýnir aðferðir til að takast á við ofvirkni.
Atferlismótun “time out“ - umbun og styrking.
* Þriðja myndbandið er um erfiðleika í skóla. Þar eru kennsluaðferðir kynntar.
* Fjórða myndbandið er um fullorðna einstaklinga með ofvirkni.

Þessi stofnun gefur einnig út fréttabréf 5 til 6 sinnum á ári, þar sem kynntar eru nýjustu
rannsóknir og nýjustu bækur varðandi ofvirkni.
Stofnunin hefur útbúið skriflegar leiðbeiningar fyrir kennara. Mikil áhersla er lögð á
samvinnu milli heimilis og skóla hjá þessum börnum.
Þau sem fóru utan voru mjög ánægð með ferðina og töldu sig hafa lært mikið.

Hvernig er þetta hér heima í dag?

Á Dalbraut fer fram nánari greining á þeim börnum sem þangað er vísað eða foreldar
koma með. Foreldrar geta þó leitað inn á Dalbraut sjálfir án tilvísunar. Þar er ráðgjöf til
foreldra barna með ofvirkni og leikskóla- eða grunnskólakennara barnsins. Einnig hafa
verið haldin námskeið fyrir foreldra þeirra barna sem hafa fengið greininguna ,,ofvirkni”.

Á Dalbraut eru tvær deildir.

* Dagdeild er fyrir yngstu börnin 5 til 9 ára. Hún er opin frá klukkan 9 til 5 virka daga.
* Legudeild er með sólarhringsvistun fimm daga vikunnar. Börnin fara heim um helgar.
Þessi deild er ætluð eldri börnum og unglingum.

Í tengslum við Dalbraut er starfræktur skóli. Í Dalbrautarskóla eru eingöngu börn sem
lögð hafa verið inn til greiningar.

Við skólann starfa eingöngu sérkennarar. Börnin fá kennslu við hæfi. Útbúin er
kennsluáætlun fyrir hvert barn og er henni síðan fylgt eftir í heimaskóla. Eftir greiningu
og mat er barninu fylgt eftir í sínum heimaskóla. Kennarar barnsins fá ráðgjöf. Þessi
eftirfylgd stendur í eitt ár.

Hverjir vísa á Dalbraut?

Foreldrar geta sjálfir snúið sér til sérfræðinga á Dalbraut. Algengast er þó að þeim sé
vísað þangað af sálfræðingum, leikskóla eða grunnskóla. Einnig vísa barnalæknar á
Dalbraut. Barnalæknar framkvæma oft sjálfir greiningu og veita ráðgjöf. Sumir hverjir
reyna einnig lyfjameðferð. Þeir senda aðeins brot af þeim foreldrum, sem til þeirra leita
með börn sín, inn á Dalbraut.

Hvers vegna greining?

Mikilvægt er að fá greiningu til að vita hvers eðlis vandinn er. Einnig fást þá oft svör við
ýmsum spurningum sem hafa valdið sektarkennd hjá foreldrum.

Foreldrar eru oft fremur seinir að leita aðstoðar. Börnin eru flest á aldrinum 5 til 8 ára
þegar þau koma inn á Dalbraut. Börn sem hafa verið á leikskóla koma fyrr en önnur börn
og börn á Reykjavíkursvæðinu koma einnig fyrr en landsbyggðarbörn.

Um aðstæður fjöldskyldna ofvirkra barna

Fjölskyldur ofvirkra barna búa við meira álag en fjölskyldur annarra barna. Hinar
almennu uppeldisaðferðir sem flestir foreldrar beita, duga ekki og þá finnst oft foreldrum
sem þeim hafi mistekist og/eða þau hafi gert eitthvað rangt. Það er erfitt að setja barninu
mörk og fylgja þeim eftir. Einkennin valda því að barnið lendir í erfiðleikum innan
skólans, á erfitt með að sitja kyrrt eða býr við samskiptaerfiðleika við félaga og
fjölskyldu. Sú staða kemur oft upp að foreldrar ásaka hvort annað um erfiðleikana,
sérstaklega ef öðru foreldrinu tekst betur að kalla fram góða hegðun en hinu. Komið
hefur fram að það foreldri sem sinnir barninu lengur tímalega á dag, lendir frekar í
erfiðleikum. Vinnustundir mæðra eru oftar styttri utan heimilis en feðra þannig að
mæðurnar lenda frekar í erfiðleikum. Einnig hefur komið fram að það foreldri sem notar
samningaaðferðina í deilum við barnið lendir fremur í erfiðleikum. Reynslan sýnir að
mæður eru líklegri til að nota samningaaðferðina. Líkamleg stærð föður getur einnig haft
áhrif. Feður fylgja fyrirmælum frekar eftir en mæður.

Hvaða stuðning fá svo foreldrar?

Þegar barnið hefur verið á Dalbraut er staða fjölskyldunar kortlögð. Eru báðir foreldrar til
staðar? Eru foreldrar í hjónabandi eða sambúð eða er um einstætt foreldri að ræða?
Foreldrar þurfa að hafa aðgang að ráðgjöf um einkenni og ráð til að draga úr neikvæðri
hegðun og styrkja hið jákvæða í fari barnsins.

Á Dalbraut hafa verið haldin námskeið fyrir foreldra ofvirkra barna sem verið hafa í
greiningu.

Foreldrar telja að námskeiðin hafi nýst vel og að það hafi verið stuðningur að hitta aðra
foreldra sem búi við svipaðar aðstæður.

Einungis foreldrar þeirra barna sem hafa verið í greiningu á Dalbraut og fengið
greininguna „ofvirkni“ geta tekið þátt í þessum foreldranámskeiðum sem boðið hefur
verið upp á.

Einnig er lagt mikið upp úr samvinnu milli foreldra og skóla eða leikskóla til að að
samræma bæði viðmót það sem barninu mætir og þær reglur sem gilda hjá þeim er annast
barnið að staðaldri. Þessi samvinna getur verið í formi reglulegra símtala á milli foreldra
og kennara, samskiptabókar sem fer á milli eða fyrirfram ákveðinna fundartíma.

Stuðningur maka er afgerandi til að halda út í erfiðu uppeldishlutverki. Gagnkvæmur
stuðningur þarf að vera til staðar. Gott er að makar hlusti hvor á annan gagnrýnislaust og
hafi gagnkvæman skilning á stöðu hins. Með því minnkar spennan á heimilinu og
heimilisandinn verður notalegri.

Það eru ekki bara foreldrar sem þurfa að skilja og styðja hvort annað heldur þurfa systkini
ofvirka einstaklingsins einnig á stuðningi og skilningi að halda. Foreldrar þurfa að sinna
ofvirka barninu meira en öðrum og það kemur niður á hinum börnunum. Reglur á
heimilinu þurfa að vera mjög skýrar og þeim fylgt eftir.

Oft getur verið erfitt að fá gæslu fyrir barnið. Afi og amma treysta sér ekki til að passa
þótt þau gæti annarra barnabarna sinna. Oft er einnig lítill tími fyrir hjónalíf. Foreldrar
finna oft til gremju og auka þannig á samskiptaörðugleikana í hjónabandinu. Sumir
foreldrar kvíða mjög fyrir samkomum í stórfjölskyldu, jólaboðum og fermingum. Þeir
vita sem er, að um samanburð verður að ræða á milli ofvirka barnsins og annarra barna í
fjölskyldunni. Fólk þarf líka oft að hlusta á óumbeðin ráð. Þetta leiðir oft til þess að
fjölskyldan fer ekki í boð og einangrast.

Skammtímavistun

Samkvæmt 21. grein um málefni fatlaðra er hægt að fá skammtímavistun í 3 sólarhringa á
mánuði ef um mjög ofvirkt barn og um einstætt foreldri er að ræða. Í nær 70 % þessara
tilfella hafa ættingjar verið stuðningsaðilinn.

Liðveisla

Hvorki ofvirk né misþroska börn eiga rétt á liðveislu en barnaverndarlögin gefa rétt til
almenns stuðnings eða tilsjónarmanns. Þessa þjónustu á að sækja um til
félagsmálastofnunar.

Annar stuðningur

Ofvirk börn eru ekki ennþá skilgreind sem fötluð og þau falla því ekki að öllu leyti innan
laga um fötluð börn.

Umönnunarbætur

Greiningaraðili á að benda foreldrum á að þeir geti átt rétt á umönnunarbótum frá
Tryggingastofnunar ríkisins. Þeir sem hafa umönnunarbætur eiga rétt á niðurfellingu á
bifreiðagjöldum.

Það foreldri sem nýtur bótanna, þarf einnig að minnsta kosti að vera skráð sem
meðeigandi bílsins.

Neyðarúrræði

Upp geta komið þannig tilvik að foreldrar eru alveg að gefast upp á ástandi því sem
ríkjandi er. Geta þeir þá hringt á félagsmálastofnun eða í farsíma utan skrifstofutíma. (Í
Reykjavík nefnist það í símaskrá „bakvakt vegna barnaverndarmála“.) Starfsmaður er á
bakvakt alla daga og allar helgar. Hann metur aðstæður og ástand, kemur sjálfur eða vísar
fólki á vistheimili fyrir börn sem þurfa að vistast utan heimilis fyrirvaralaust vegna
heimilisaðstæðna, heilsubrests eða sjúkdóms. Ekki er um skammtímavistun að ræða og
þetta er einungis neyðarúrræði.

Samantektina vann Margrét H. Þórarinsdóttir.