ADHD hjá fullorðnum

Grein eftir Grétar Sigurbergsson geðlækni.

Inngangur

Tilgangur þessarar greinar er að veita upplýsingar um athyglisbrest og ofvirkni (ADHD) hjá fullorðnum. ADHD er skammstöfun úr ensku (attention deficit hyperactivity disorder) sem þýða má á íslensku sem athyglis- og ofvirkniröskun. Þessi skammstöfun hefur unnið sér sess á alþjóðavettvangi og verður notuð í þessari grein.

Þar eð ADHD er yfirleitt til staðar frá bernskuárum verður leitast við að fjalla um hvað helst einkennir ástandið frá upphafi og hvernig það getur þróast með aldrinum. Megináherslan verður þó lögð á ADHD hjá fullorðnum og fjallað um það frá hinum ýmsu hliðum. Er vonast til að grein þessi geti svarað ýmsum þeim spurningum sem vakna þegar ADHD ber á góma.

Áhersla skal lögð á að fjöldi fólks er með ADHD, án þess að það ástand hái því né meðferðar sé þörf eða að hún geri hið minnsta gagn. Vel er þekkt að margt afreksfólk er með ADHD, sem er ástand sem getur haft ýmsar jákvæðar hliðar við hagstæðar kringumstæður. Í þessari grein verður fyrst og fremst rakið hvernig ADHD getur valdið fólki vanda af ýmsu tagi og jafnvel spillt heilsufari þess og lífsgæðum.

Hvað er ADHD?

ADHD er ástand sem kemur í ljós hjá sumum börnum á fyrstu æviárunum. Erfitt er fyrir þessi börn að hafa stjórn á hegðun sinni og / eða athygli og einbeitingu. Talið er að um 5% barna séu með þessa röskun, þ.e.a.s. um það bil eitt af hverjum tuttugu börnum.

ADHD var fyrst lýst af þýskum geðlækni að nafni Heinrich Hoffmann árið 1845. Hann var jafnframt ljóðskáld og fékk áhuga fyrir að skrifa efni fyrir börn, þegar honum gekk illa að finna bækur til að lesa fyrir þriggja ára son sinn. Hann samdi þá vísnabók með tilheyrandi myndskreytingum um börn og sérkenni þeirra. Saga hans um hinn órólega og utangátta Fidgety Phil, sem líkja mætti við hin íslensku Guttakvæði, var nokkuð nákvæm lýsing á dreng sem þjáðist af ADHD. Það var þó ekki fyrr en 1902 að barnalæknirinn Sir George F. Still flutti fyrirlestraröð við Konunglega Læknaháskólann í London þar sem hann lýsti hópi hvatvísra barna með mikil hegðunarvandamál, ástand sem stafaði af erfðum en ekki af lélegu uppeldi og væri nú á dögum kallað ADHD. Síðan þá hafa verið skrifaðar þúsundir vísindaritgerða um þessa röskun í taugakerfi barna og, á síðustu áratugum, einnig hjá fullorðnum. Þar er m.a. lýst eðli ADHD, þróun, orsökum, einkennum, fylgikvillum og meðferð auk þess sem æ skýrar hefur orðið, að meirihluti þeirra, sem í bernsku þjást af ADHD, losnar ekki við einkennin með aldrinum, eins og áður var talið að væri raunin. Aðeins er rúmur áratugur síðan farið var að greina og meðhöndla ADHD hjá fullorðnum hér á landi.

Einkenni ADHD

Höfuðeinkenni ADHD eru þrennskonar: Athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi. Tvö síðastnefndu einkennin fylgjast oftast að og eru mjög áberandi einkenni hjá mörgum sem þjást af ADHD, en hafa þarf hugfast að athyglisbrestur getur verið til staðar án þess að honum fylgi ofvirkni eða hvatvísi. Í þeim tilfellum er erfiðara að greina kvillann og tilvist ADHD fer þá gjarnan fram hjá foreldrum og kennurum og greinist þá stundum ekki fyrr en vaxandi námsörðuleikar koma í ljós eða við bætast s.k. fylgiraskanir (=fylgikvillar), sem með aldrinum einkenna ADHD í æ ríkara mæli og vikið verður að síðar. Hér á eftir verður fjallað nánar um ofangreind einkenni, einkum eins og þau lýsa sér hjá fullorðnum. Mörg af þeim einkennum sem minnst verður á kannast flestir, sem ekki þjást af ADHD, við að hafa upplifað stöku sinnum. Sá sem er með ADHD er aftur á móti alltaf og yfileitt stöðugt með þessi einkenni. Við greiningu á ADHD þarf að hafa hugfast að allir geta verið utan við sig öðru hvoru, á köflum jafnvel virst ofvirkir eða hvatvísir. Allir þekkja t.d. það að missa þráðinn við lestur bóka öðru hvoru eða glopra út úr sér orðum, sem betur hefðu verið ósögð. Allir kannast við að fara á milli herbergja á heimili sínu til að sækja eitthvað en steingleyma síðan hvert erindið var. Þetta hendir okkur öll stöku sinnum. Sá sem er með ADHD upplifir slíka hluti alltaf.

Athyglisbrestur: Hjá fullorðnum með ADHD er athyglisbrestur oftast höfuðvandamálið. Þetta einkenni hverfur síður en önnur með aldrinum. Um er að ræða einbeitingarskort, erfiðleika við að halda athyglinni vakandi nema stutta stund í einu við sama viðfangsefni, sérstaklega ef efnið er ekki áhugavert. Þá er tilhneiging til að fara stöðugt úr einu í annað, eiga í erfiðleikum með að byrja á viðfangsefni og ekki síður við að ljúka við það. Fólk kvartar um minnisleysi, það þurfi að skrifa allt á minnismiða, týni endurtekið hlutum eins og lyklum, farsímum, fötum o.s.frv. og eyði miklum tíma við að leita að hlutum.

Þessu geta fylgt erfiðleikar við lestur bóka. Fólk missir þráðinn við lesturinn og fer að hugsa um eitthvað allt annað, sérstaklega ef söguþráðurinn er ekki þeim mun áhugaverðari. Það sama getur gerst í samtölum við fólk. Maður hættir að taka eftir því sem fólk er að segja við mann í miðju samtali og hugurinn reikar að allt öðru, jafnvel dagdraumum. Þetta getur komið sér mjög illa í samskiptum við aðra og maður getur virkað utan við sig, annars hugar eða eins og úti á þekju.

Sérstaklega er athyglisbrestur bagalegur fyrir námsmenn. Ef fólk er með góða greind, getur það spjarað sig allvel á fyrri stigum menntunar s.s. í grunnskóla. Þegar námið þyngist og kröfur aukast um viðvarandi einbeitingu og verkefnaskil, getur ADHD fyrst farið að valda verulegum námsörðugleikum. Sumum tekst að bæta þetta upp með því að eyða meiri tíma í heimavinnuna, lesa námsefnið aftur og aftur. Algengt er að ungt fólk, jafnvel ágætlega greint og efnilegt, gefist upp í framhaldsskóla á þessu stigi, jafnvel aftur og aftur. ADHD leiðir þannig gjarnan til þess að fólk er langt undir getu í námi og síðar meir einnig í starfi.

Athyglibrestur hefur í för með sér skipulagsleysi. Hlutir svo sem pappírar, þvottur, fatnaður o.s.frv. hefur tilhneigingu til að safnast í hrúgur og erfiðlega gengur að finna það sem á þarf að halda hverju sinni. Þegar athyglisbrestur er á háu stigi getur fólk átt í sífelldum vandræðum með að rata um götur borga, jafnvel um heimaslóðir. Sumir geta verið mjög annars hugar við akstur bifreiða. Þá hendir marga að fara framhjá fyrirhuguðum áfangastað. Fólki með athyglisbrest er hættara en öðrum að lenda í vandræðum í umferðinni.

Athyglisbrestur hefur í för með sér að maður á erfitt með að fara eftir leiðbeiningum vegna eftirtektarleysis, muna eftir að gera nauðsynlega hluti, mæta á réttum stöðum á réttum tíma og almennt að setja á minnið það sem nauðsyn krefur. Þetta getur komið sér afar illa t.d. þegar maður gleymir að greiða reikninga, mæta á stefnumót, skila videospólum, standa við loforð. Sumir hafa lélegt tímaskyn í ofanálag.

Ef athyglisbrestur er verulegur, getur fólk átt í mestu erfiðleikum mrð að einbeita sér að sjónvarpi, kvikmyndum o.s.frv. Eftir á man viðkomandi illa söguþráðinn og á erfitt með að rifja upp í huganum atburðarás myndarinnar.

Sé maður með athyglisbrest þarf lítið áreiti eða utanaðkomandi truflun til þess að maður missi einbeitingu. Hver hreyfing eða smáhljóð í umhverfinu getur sett mann út af laginu. Mörgum gengur betur að einbeita sér ef þeir hlusta á tónlist við t.d. heimanám. Með því tekst þá að eyða öðru áreiti og bæta þannig einbeitinguna.

Þeim sem þjást af athyglisbresti gengur oft betur að einbeita sér að tölvuskjá. Tölvan gerir viðfangsefnið afmarkaðra en ella. Bæði börnum og fullorðnum með ADHD er hættara en öðrum að eyða óhóflegum tíma við spennandi tölvuleiki. Spennan bætir einbeitinguna. Þegar verst lætur hverfur einstaklingurinn inn í sýndarheim tölvuleikja, einfaldari heim þar sem auðveldara er að leysa verkefni vel af hendi en í raunveruleika hversdagsins.

Eins og fram hefur komið, þá getur athyglisbrestur verið til staðar án þess að honum fylgi ofvirkni og / eða hvatvísi. Reyndar getur mikill athyglisbrestur leitt til eins konar uppgjafar. Manni fallast hendur í þeirri ruglingslegu tilveru sem getur fylgt ADHD og útkoman verður vanvirkni, gjarnan í heimi dagdrauma.

Ofvirkni: Ofvirkni er einkenni sem margir með ADHD losna við að hluta eða að öllu leyti á unglingsárum. Er þá átt við s.k. hreyfiofvirkni, þ.e.a.s. sýnilega ofvirkni. Margir geta með árunum lært að hemja hreyfiofvirkni þá sem svo mjög einkennir oft ADHD hjá börnum. Aðrir halda þó áfram að vera sífellt á iði, ekki síst með hendur og fætur, eða þurfa stöðugt að vera á ferðinni, gera margt í einu. Þeir eru fullir ákafa, byrja á verkefnum af miklum krafti og áhuga sem oft er þó skammvinnur. Margt verður þá hálfklárað. Gjarnan eru mörg járn í eldinum á sama tíma.

Jafnvel þótt hreyfiofvirkni minnki eða jafnvel hverfi með tímanum, kvarta flestir áfram um ofvirkni í hugsun. Sumir upplifa hugsun sína eins og “hraðlest” í höfðinu þar sem lítið er um stoppistöðvar.

Þeir sem þjást af ofvirkni tala gjarnan hratt og mikið. Svefnþörf þeirra er gjarnan minnkuð og svefnörðugleikar geta verið viðvarandi vandi. Mörgum finnst hugurinn fara á fulla ferð þegar þeir ætla að sofna og verða andvaka, sem leiðir til þess að erfitt getur verið að vakna að morgninum.

Ofvirknin leiðir m.a. til þess að erfitt verður að hlusta á aðra. Maður forðast athafnir sem krefjast þess að maður sitji kyrr, t.d. við að hlusta á fyrirlestra eða vera við kirkjulegar athafnir. Ofvirkir einstaklingar eru alltaf að flýta sér, ekki síst í umferðinni. Þeir aka hratt og gjarnan óvarlega og eru líklegri en aðrir til að fá endurteknar hraða- og stöðumælasektir og lenda í slysum í umferðinni.

Hvatvísi: Með hvatvísi er átt við að fólk geri eða segi hluti án þess að hugsa málið til enda. Útkoman verður þá fljótfærni á öllum sviðum, pirringur, óþolinmæði, léleg skapstjórn, truflandi framkoma t.d. með því að grípa fram í fyrir öðrum, liggja á flautunni í umferðinni, taka vanhugsaðar ákvarðanir í fjármálum, segja fyrirvaralaust upp vinnu, gjarnan í reiðikasti. Fólk getur þá virkað eins og það kunni ekki sjálfsagða mannasiði.

Þegar athyglisbrestur og hvatvísi fara saman, liggur manni á að koma hugmyndum sínum á framfæri, vegna þess að annars gleymir maður hvað ætlunin var að segja. Hinn hvatvísi getur verið særandi án þess að ætla sér það. Hann kaupir jafnvel dýra hluti án umhugsunar. Flestir eru endurtekið að skammast sín fyrir hversu orðhvatir þeir eru eða að iðrast sóunar fjármuna sinna og vanhugsaðra fjárfestinga.

Hvatvísi getur lýst sér í sókn í spennu og áhættuhegðun af ýmsu tagi. Sem dæmi má nefna fjárhættuspil, hraðakstur, veggjakrot, hættulegar íþróttir og fífldirfsku af ýmsu tagi.

Hvatvísi er í raun skortur á hömlum. “Bremsukerfið” er ekki í gangi. Menn verða bremsulausir í hegðun. Slík hegðun getur verið hættuleg fyrir einstaklinginn sjálfan og stundum aðra vegna skorts á skapstjórn. Sérstaklega getur hegðunin verið hættuleg ef mjög hvatvísir einstaklingar með ADHD neyta hömlulosandi vímuefna, t.d. áfengis, róandi lyfja eða svefnlyfja. Losnar þá ekki einungis enn frekar um hömlur viðkomandi, heldur skerðist dómgreind einnig og samviskan slævist. Við þær kringumstæður aukast líkur á að skapstjórn skerðist enn frekar og að það leiði jafnvel til hættulegs ofbeldis.

Hvatvísi getur lýst sér þannig að hinn hvatvísi virði ekki eðlileg mörk í mannlegum samskiptum. Hann getur þá virkað ókurteis, uppáþrengjandi, frekur, tillitslaus, truflandi o.s.frv. Sá sem er verulega hvatvís hefur gjarnan tilhneigingu til að svara fólki áður en viðmælandinn hefur lokið við að bera upp spurninguna. Jafnvel er tilhneiging hjá sumum, sem eru hvatvísir, að ljúka við setningar fyrir viðmælendur sína til að “flýta fyrir” og komast þannig sjálfir að með það sem þeim liggur á hjarta.

Eins og ofvirkni, þá getur hvatvísi minnkað eða orðið minna áberandi með árunum. Virðist sem margir, ekki þó allir, læri með tímanum að hemja þetta erfiða einkenni að einhverju eða jafnvel öllu leyti.

Flokkun ADHD

Eins og að ofan getur, var ADHD þekkt og rannsakað fyrirbæri fyrir meir en eitt hundrað árum. Það var þó skilgreint á ýmsan veg og gekk undir ýmsum nöfnum lengi fram eftir síðustu öld. Lengi var deilt um orsakir þessa ástands.

Um 1930 var talað um MBD (Minimal Brain Damage=minniháttar heilaskemmd) út frá þeirri kenningu að um væri að ræða vefræna skemmd. Um 1950 var farið að kalla þetta ástand ofvirkniheilkenni barna (Hyperactive Child Syndrome).

Um miðjan sjöunda áratug birtist MBD á ný en stóð nú fyrir minniháttar starfræna heilatruflun (Minimal Brain Dysfunction). Um 1968 á tímum “’68 kynslóðarinnar” var ástandið nefnt ofvirknisvörun barna ( Hyperkinetic Reaction). Það var á þeim árum sem sú kenning var vinsæl, að flestar geðrænar truflanir væru í raun eðlilegt svar eða viðbragð við sjúku umhverfi eða samfélagi.

Það var loks um 1980 sem farið var að tala um ADHD. Um 1970 hófust rannsóknir á afdrifum barna með ADHD og kom þá æ skýrar í ljós að einkenni ADHD héldu áfram hjá flestum fram á fullorðinsár og ollu oftar en ekki marvíslegum vanda, sem komið verður að síðar. ADHD var tekið inn í bandarísku sjúkdómsgreiningaskrána (DSM) 1980. ADHD var smám saman betur skilgreint og flokkað eftir því hvaða einkenni væru mest áberandi. ADHD birtist á ýmsan ólíkan hátt, m.a. eftir því hvaða einkenni eru mest áberandi en líka eftir persónugerð hvers og eins, greindarfari og uppvaxtarskilyrðum svo fátt eitt sé nefnt.

Hin síðari ár hefur ADHD verið flokkað á eftirfarandi hátt:

ADHD með athyglisbrest sem ráðandi einkenni.
ADHD með ofvirkni / hvatvísi sem ráðandi einkenni.
ADHD í blönduðu formi þar sem öll 3 höfuðeinkennin, þ.e.a.s. athyglisbrestur, ofvirkni og hvatvísi, eru álíka áberandi.
Síðastnefndi flokkurinn er algengastur. Eins og getið var hér að framan þá getur athyglisbrestur án ofvirkni og hvatvísi farið framhjá t.d. foreldrum og kennurum og uppgötvast síður en hin tvö form ADHD

þar sem einkenni eru meira áberandi og kvillinn auðgreindari.

Orsakir ADHD

ADHD hefur verið rannsakað á undanförnum áratugum meira en flestar aðrar geðraskanir, enda er um algengan kvilla að ræða sem getur valdið margvíslegum erfiðleikum, ekki síst í bernsku og á æskuárum en einnig á fullorðinsárum. Fátt bendir til að ADHD orsakist af uppeldi eða öðrum uppvaxtarskilyrðum. Þó er algengt að foreldrar ofvirkra barna spyrji spurninga eins og t.d.: “Hvað fór úrskeiðis?” eða “Hvað gerði ég rangt? Hvar brást ég?”. Rannsóknir undanfarinna áratuga benda eindregið til þess að orsakir ADHD megi rekja til líffræðilegra þátta en ekki uppeldis eða annarra umhverfisþátta. Löngu er vitað að ADHD er ástand sem erfist og að erfðirnar séu mjög ráðandi. Sýnt hefur verið fram á að ADHD erfist á sama hátt og í álíka miklum mæli og t.d. líkamshæð. ADHD er röskun á taugalífeðlisfræðilegum eiginleikum í miðtaugakerfinu og mætti því nefna ástandið taugaröskun til einföldunar. Röskun sú sem veldur einkennum einstaklinga með ADHD er talin vera í svonefndri stjórnstöð heilans.

Stjórnstöð heilans má líkja við t.d. hljómsveitarstjóra, sem stjórnar hinum fjölmörgu hljóðfæraleikurum við flutning sinfóníu. Hann þarf að ákveða fjölmarga þætti til að tónverkið hljómi vel, t.d. hraða, takt og allskyns blæbrigði. Hann ákveður t.d. hvenær fiðlurnar eiga að koma inn, blásturshljóðfæri, slagverk o.s.frv. Ef við hugsum okkur að hljómsveitarstjórinn væri ekki til staðar eða á einhvern hátt ekki í lagi, vankaður eða jafnvel heyrnarlaus, myndi tónverkið líklega hljóma ruglingslega og áreiðanlega illa. Við þurfum að hafa í huga að hljómsveitarstjórinn spilar ekki sjálfur, heldur ákveður hvenær og hvernig hinar ýmsu deildir hljóðfæraleikara leika. Þannig starfar stjórnstöð heilans. Henni mætti einnig líkja við slökkviliðsstjóra, sem stjórnar aðgerðum á brunastað, hverjir eigi að handleika slöngur og stiga, hverjir að bjarga fólki úr brennandi húsi, hvaða hús þurfi að verja o.s.frv. Hann þarf að huga að mörgu, t.d. hvaðan vindurinn blæs. En þótt hann slökkvi ekki eldinn sjálfur, er hætt við að illa færi ef hann væri ekki til staðar.

Það sem talið er valda einkennum þeim sem fylgja ADHD, er vanvirkni í þeirri stjórnstöð heilans sem stjórnar m.a. starfsemi framhluta heilans. Sá hluti heilans hefur m.a. með einbeitingu, athygli og hömlur að gera. Hann fær undir eðlilegum kringumstæðum boð frá stórnstöð hvenær hann þurfi að láta til sín taka. Hinir ýmsu hlutar framheilans þurfa að vinna saman eftir skilaboðum frá stjórnstöðinni, sem samhæfir aðgerðir. Framheilinn gerir okkur kleyft að leysa vandamál, planleggja, skilja hegðun annarra, og halda aftur af hvötum okkar. Vinstri og hægri hluti framheilans senda hvor öðrum skilaboð og vinna saman eftir skilaboðum frá stjórnstöð.

Rannsóknir hafa sýnt að hjá einstaklingum með ADHD er umrædd stjórnstöð ekki eðlilega virk. Ýmiskonar blóðflæðirannsóknir og sneiðmyndatækni (t.d. PET eða ísótópasneiðskann) sýna að stjórnstöðin er þá ekki í gangi nema að litlu leyti. Þetta útskýrir hvers vegna örvandi lyf geta dregið úr einkennum þeirra sem eru með ADHD, með því að örva eða hvetja stjórnstöðina.

Eins og að framan getur, þá sér framheilinn m.a. um einbeitingu og hömlur. Ef skýr skilaboð koma ekki frá stjórnstöð, þá eru þessar stöðvar óvirkar að meira eða minna leyti. Einbeitingin verður óskýr. Við hættum að geta greint aðalatriði frá aukaatriðum, forgangsröðun verður óskýr. Eðlilegri einbeitingu má líkja við að horft sé á sjóndeildarhringinn í gegnum myndavél, þar sem hægt er að skoða hluti sem fyrir augu ber nánar með aðdráttarlinsu. Ef við erum með ADHD má líkja því við að áðurnefnd aðdráttarlinsa sé ryðguð föst og því ónothæf. Þá er ekki lengur auðvelt að einbeita sér að einu í einu eða greina hvað skiptir máli og hvað ekki. Einbeitingarskorturinn gerir m.a. að verkum að maður fer úr einu í annað, lýkur ekki við viðfangsefnið út af öðru sem grípur athygli manns. Það verður erfitt að hefjast handa, byrja á jafnvel einföldustu verkefnum, t.d heimilisverkum. Viðfangsefnin virðast flókin og orkukrefjandi og gjarnan er dregið fram á síðustu stund að gera hlutina eða þeir ekki gerðir. Algengt er að upp safnist hálfkláruð verkefni.

Algeng kvörtun fólks með athyglisbrest er, að erfitt sé að hafa undan að þvo þvott. Flestum finnst það ekki flókið mál að setja í þvottavél og ganga frá þvotti, þótt það sé yfirleitt ekki meðal uppáhaldsverkefna á heimilum. En sé athyglisbrestur á háu stigi, getur þetta verkefni orðið verulega snúið. Það þarf að sortera þvottinn, stilla þvottavélina rétt, m.a. hitastig, setja hæfilegt magn af þvottaefni í vélina o.s.frv. Síðan þarf að muna að taka úr vélinni, þurrka þvottinn, ganga frá honum, brjóta hann saman, strauja sumt og annað ekki. Loks þarf að koma öllu saman á rétta staði í skúffur og skápa. Hjá sumu fólki með athyglisbrest hefur óhreinn þvottur tilhneigingu til að hrúgast upp eða hálffrágenginn þvottur að safnast hér og þar á hinum ýmsu stigum og komist jafnvel aldrei í tilheyrandi skápa. Þessi aðgerð reynir á margan hátt á einbeitingu, athygli, úthald og skammtímaminni sem allt er skert ef stýrikerfið, þ.e.a.s. stjórnstöðin er í ólagi.

Þeim hluta framheilans sem sér um hömlur má líkja við eins konar bremsukerfi. Sé stjórnstöðin ekki í gangi, þá er bremsukerfið óvirkt að einhverju leyti. Þá má líkja einstaklingnum við bremsulausan bíl. Þeir sem eru með ADHD og skortir hömlur verða ofvirkir og hvatvísir að mismiklu leyti. Eins og áður var getið þá dregur oft úr ofvirkni á unglingsárum og stundum hverfur hún alveg. Sama gildir um hvatvísina, sem þó hefur tilhneigingu til að minnka seinna og að halda áfram að vera vandamál.

Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á margvíslegum umhverfisþáttum sem hugsanlegra orsakavalda ADHD. Margar þessara rannsókna hafa endað í blindgötu en sumar gefið vísbendingar sem leitt hafa til frekari rannsókna.

Rannsóknir hafa bent til að hugsanlegt sé að áfengisneysla og reykingar á meðgöngu auki líkur á að afkvæmið fái ADHD. Ekkert hefur þó, enn sem komið er, staðfest að svo sé. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem þjást af ADHD eru mun líklegri en aðrir til að verða stórreykingamenn og þeim er einnig hættara en öðrum að ánetjast áfengi og öðrum vímuefnum

Lengi vel var talið að ADHD orsakaðist af heilaskemmdum. Börn og fullorðnir sem hlotið hafa alvarleg höfuðhögg, geta fengið einkenni, sem svipar að sumu leyti til ADHD. Þeir sem eru með ADHD eru aftur á móti líklegri en aðrir til að fá alvarleg höfuðhögg, ekki síst ef ofvirkni og hvatvísi er til staðar.

Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum ADHD og sykurneyslu hjá börnum. Nýjustu rannsóknir hafa sýnt að ekkert marktækt orsakasamband er á milli sykurneyslu barna og hegðunar þeirra og námsgetu.

Rannsóknir hafa sýnt, að meðal nánustu ættingja barna með ADHD er fjórði hver með ADHD. Tíðni ADHD er annars um einn af hverjum tuttugu. Margvíslegar rannsóknir hafa á seinni árum sýnt mjög afgerandi fram á arfgengi þessa kvilla.

Mjög ítarleg samanburðarrannsókn á börnum með og án ADHD, sem verið er að framkvæma á vegum geðheilsustofnunar Bandaríkjanna ( National Institute of Mental Health), sýnir að börn með ADHD eru að jafnaði með um 4% minni heilavef á öllum heilasvæðum en börn sem ekki eru með ADHD. Þau börn, sem eru með ADHD og hafa fengið lyfjameðferð, voru með eðlilegt magn af s.k. hvítum heilavef, sem samanstendur af einskonar langlínutengingum milli hinna ýmsu hluta heilans. Hliðstæðar rannsóknir fara nú fram á fullorðnum.

Fylgikvillar ADHD

ADHD er flókið ástand eitt og sér. Það sem gerir ástandið þó enn flóknara er, að ýmsir aðrir kvillar fylgja gjarnan þessu ástandi, bæði hjá börnum og fullorðnum, sem geta gert greiningu ástandsins erfiða, ekki síst hjá fullorðnum. Þessir kvillar eru á fagmáli nefndir fylgiraskanir.

Algengar fylgiraskanir hjá börnum með ADHD eru til dæmis s.k. sértækir námsörðugleikar, sem þjá um 20-30%, Tourette heilkenni, mótþróaþrjóskuröskun (30-50%), hegðunarröskun (20-40%), kvíði, þunglyndi og geðhvarfasýki. Flestar fylgiraskanir birtast ekki fyrr en barnið vex nokkuð úr grasi og sumar ekki fyrr en á unglingsárum. Með aldrinum aukast líkur á fylgiröskunum og þeim fjölgar á fullorðinsaldri. Algengt er að fólk sem þjáist af ADHD leiti sér fyrst læknisaðstoðar þegar fylgiraskanir skjóta upp kollinum. Skal nú drepið á helstu fylgiraskanir hjá fullornum einstaklingum sem eru með ADHD:

Kvíðaraskanir þjá um 30% karla með ADHD og 17% kvenna, samkvæmt nýlegum rannsóknum. Er það margföld tíðni samanborið við þá sem ekki eru með ADHD. Líkur á að fá kvíðakvilla einhvern tíma á ævinni eru um þrefalt meiri hjá fullorðnum með ADHD en öðrum.

Margar fylgiraskanir ADHD, m.a. kvíða, má líta á sem rökrétt framhald af þeim erfiðleikum, sem fylgja því að vera með ADHD. Á unglingsárum aukast t.d. kröfur um afköst og einbeitingu í námi. Þá er algengt að róðurinn þyngist með ári hverju hjá ungu fólki með ADHD, þrátt fyrir að mikið sé á sig lagt. Einbeitingarörðugleikar vega æ þyngra og óróleikinn í hugsuninni, og jafnvel í líkamanum, truflar í vaxandi mæli. Smám saman getur kvíðinn tekið völdin og orðið sjúklegur og truflað námsframvindu enn frekar. ADHD er ástand sem í eðli sínu getur verið mikill kvíða- og spennuvaldur í námi, starfi og í mannlegum samskiptum. Kvíðaraskanir eru oft mjög alvarlegir sjúkdómar og geta orðið viðvarandi vandi.

Geðlægð. Fullorðnir sem eru með ADHD eru mun líklegri en aðrir til að fá alvarlegar geðlægðir. Gildir þetta jafnt um karla sem konur. ADHD ýtir þannig mjög undir myndun þunglyndis, sem hjá sumum verður að sjálfstæðum sjúkdómi sem þarfnast meðferðar. Að vera með ADHD er oft mjög orkukrefjandi ástand og getur haft mikið mótlæti í för með sér. Margir með ADHD hafa sætt sífelldri gagnrýni frá umhverfinu frá fyrstu tíð, frá foreldrum, kennurum og stundum jafnöldrum, fyrir hegðunarbresti sína, minnisleysi, lélegan námsárangur, einbeitingarskort o.s.frv. Sumir verða fyrir því að verða lagðir í einelti. Með tímanum getur sjálfsmyndin orðið æði neikvæð. Ungt fólk í námi, sem finnur að það er ekki að standa sig eins og til er ætlast og efni standa til, fer að falla á prófum og dragast aftur úr félögunum, fer að finnast að það hljóti að vera heimskt eða að um leti sé að ræða. Þannig getur sjálfsmyndin brotnað smám saman. Hjá sumum getur ADHD þannig endað í djúpri geðlægð, sem er alvarlegt ástand og oft lífshættulegt og er algengasta orsök sjálfsvíga, ekki síst hjá ungum karlmönnum.

Geðhvarfasýki einkennist m.a. af alvarlegum geðsveiflum, sem geta verið hvort heldur upp á við í s.k. geðhæð (manía), eða niður á við í geðlægð (depression). Um er að ræða alvarlegan, arfgengan sjúkdóm, sem yfirleitt er langvinnur. Oftast er hægt að milda eða fyrirbyggja sveiflurnar með s.k. jafnvægislyfjum.

Af þeim fullorðnum sem þjást af geðhvarfasýki eru um 15% einnig með ADHD. Fyrstu einkenni geðhvarfa birtast gjarnan á unglingsárum. Þegar þessir tveir kvillar fara saman, versna batahorfur mjög. Hjá þeim sem er með ADHD, byrjar sjúkdómurinn fyrr en hjá öðrum. Þetta ástand getur verið mjög erfitt í greiningu, þegar saman tvinnast ofvirkni, hvatvísi og geðhæð.

Vímuefnamisnotkun er mjög algengt vandamál hjá fólki með ADHD. Unglingar með ADHD leita í vímuefni til að róa hugann, slá á kvíðann eða til að geta sofnað. Áfengi fer oft illa í fólk með ADHD, sérstaklega ef til staðar er ofvirkni og hvatvísi. Sumir með ADHD finna lítil eða engin örvandi áhrif af örvandi efnum, verða rólegir og jafnvel syfjaðir. Margir leita í kannabis, sem með tímanum getur orðið mjög alvarlegt vandamál. Kannabis verkar róandi en magnar mjög upp athyglisbrestinn og veldur að lokum áhugaleysi fyrir öllu öðru en efninu sjálfu. Efnið dregur mjög úr námsgetu. Það skerðir bæði greind og dómgreind, veldur félagslegri einangrun, jafnvel inni á heimili viðkomandi.

Einstaklingar með ADHD eru u.þ.b. helmingi ( 100%) líklegri en aðrir til að ánetjast vímuefnum með aldrinum. Þetta á við um þá sem ekki eru á lyfjameðferð við ADHD. Nýlegar rannsóknir sýna, að börn með ADHD, sem eru meðhöndluð frá upphafi með viðeigandi lyfjum, er mun síður hætt við að ánetjast vímuefnum en þeim sem ekki hafa fengið lyfjameðferð. Ungu fólki með ómeðhöndlað ADHD getur þannig verið mikil hætta búin hvað vímuefnamisnotkun varðar.

Konur með ADHD eru, samkvæmt rannsóknum þrefalt líklegri en aðrar konur til að þróa með sér drykkjusýki um ævina. Rannsóknir sýna, að karlmenn, sem eru með ómeðhöndlað ADHD, eru tvöfalt líklegri en aðrir karlmenn til að verða háðir áfengi einhvern tíma á lífsleiðinni. Við þetta bætist, að ADHD truflar fólk í að nýta sér meðferðarúrræði sem standa til boða fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur. Hér er átt við þá sem ekki hafa fengið viðeigandi lyfjameðferð vegna ADHD.

Andfélagsleg persónuleikaröskun. ADHD getur með tímanum haft veruleg áhrif á persónuleikaþróun einstaklinga. Eins og áður er getið, þá truflar ástandið oft námsferil ungs fólks en það getur einnig hamlað þroskaferli fólks á ýmsan annan hátt. Rannsóknir sýna, að 20-40% barna með ADHD þróa með sér alvarlega hegðunarröskun sem með aldrinum getur leitt til andfélagslegrar persónuleikaþróunar. Þeim sem á barns- og unglingsaldri sýna verulega hegðunarröskun (Conduct disorder = CD),er hættast að þessu leyti. Þessi börn fara snemma að ljúga, stela, sýna öðrum yfirgang, slást, stunda veggjakrot og annan vandalisma og komast fljótlega í kast við skólayfirvöld og lögreglu. Þessir einstaklingar virða ekki rétt annarra, sýna öðrum ögrandi viðmót og reiðiviðbrögð af litlu eða engu tilefni. Þeir beita bæði dýr og/eða fólk ofbeldi, skemma eða eyðileggja eigur annarra, brjótast inn á heimili fólks, fremja rán eða þjófnaði. Þeir ganga gjarnan með vopn. Á unglingsaldri eru þessir einstaklingar mjög líklegir til að fara út í vímuefnaneyslu og verða síðar fíklar í slík efni.

Þegar fullorðinsaldri er náð er ástand þetta gjarnan nefnt geðvilla og einkennist m.a. af siðblindu, tilfinningaleysi gagnvart öðrum, algerri sjálfmiðun, samviskuleysi og andlegu og / eða líkamlegu ofbeldi. Þessir einstaklingar verða oft síbrotamenn og lenda í fangelsum. Rannsóknir, sem gerðar voru í sænskum fangelsum á síðasta áratug, sýndu að um helmingur karla í fangelsum voru með ADHD.

Svefntruflanir fylgja oft ADHD frá barnsaldri og hafa tilhneigingu til að aukast og valda vaxandi vandamálum með aldrinum. Ýmist er um að ræða erfiðleika við að sofna eða við að vakna. Þetta getur t.d. leitt til lélegra mætinga í skóla eða vinnu. Foreldrar og forráðamenn geta átt í erfiðleikum með að vakna til að koma börnum sínum í skóla og af þeim sökum lent í vandræðum gagnvart skólayfirvöldum og jafnvel barnaverndaryfirvöldum, þegar hvað verst lætur.

Árátta og þráhyggja geta fylgt í kjölfar ADHD jafnvel allt frá upphafi. Líklegt má telja að þessi hegðun stafi af því óöryggi sem oft fylgir ADHD. Fólk óttast að gleyma einhverju til dæmis þegar farið er út úr húsi. Nefna má sem dæmi ótta við að skilja eldavél eftir í gangi, glugga opna eða vatnskrana. Sumir með ADHD temja sér með tímanum yfirdrifna reglu á sumum sviðum, vitandi að annars væri hætt við að allt fari úr böndunum. Í einstöku tilfellum getur áráttan orðið mjög sjúkleg og valdið viðkomandi miklu þjáningum.

Greining ADHD hjá fullorðnum

Þeir sem taka að sér að greina fullorðna eru geðlæknar og sálfræðingar, gjarnan í samvinnu. Aðeins læknar mega veita lyfjameðferð. Engin greiningartæki eða sálfræðipróf eru til sem greint geta með vissu hvort ADHD er til staðar. Til eru margvísleg próf, sem gefið geta vísbendingar um að ADHD sé til staðar en greiningin byggir fyrst og fremst á sögu einstaklingsins, hegðun og líðan allt frá barnæsku og fram á þennan dag. Fjölskyldusaga og ættarsaga skiptir oft miklu máli og nauðsynlegt getur verið að tala við foreldra til að fá sem gleggsta mynd af einstaklingnum frá upphafi, t.d. hvað varðar skólagöngu, hegðun og frammistöðu í námi og starfi. Gott getur verið að fá upplýsingar frá maka til að fá gleggri mynd af hegðunarmynstri og líðan.

Sálfræðingar leggja fyrir fólk margvísleg sálfræðipróf sem eru einskonar mælistikur á t.d. greind, andlega líðan s.s. þunglyndi, kvíða og annað sem bent getur til fylgiraskana. Persónuleikapróf geta sýnt fram á s.k. persónuleikaraskanir og andlega vanlíðan og svo mætti lengi telja. Geðlæknar eiga að geta greint ADHD hjá fullorðnum án aðstoðar sálfræðings. Hér á landi eru þó, enn sem komið er, aðeins fáir sem hafa sérhæft sig í greiningu á ADHD hjá fullorðnum.

Auk ofangreindra atriða greinir geðlæknir ástand einstaklingsins með s.k. geðskoðun, sem er ólík líkamlegri læknisskoðun að því leyti, að geðlæknirinn er að skoða heilastarfsemi viðkomandi út frá því sem hann sér, heyrir eða skynjar á annan hátt í viðtalinu. Geðlæknirinn leitar m.a. eftir áðurnefndum höfuðeinkennum, athyglisbresti, ofvirkni og hvatvísi, hvort þau séu til staðar og þá í hvaða hlutföllum. Geðlæknirinn þarf að átta sig á hvort fylgiraskanir séu til staðar og hversu alvarlegar þær eru. Oftast eru fylgiraskanir til staðar og stundum fleiri en ein. Fylgiraskanir geta gert greiningu ADHD erfiða. Ástandið getur þá verið flókið. Stundum getur verið nær útilokað að greina ADHD vegna fylgiraskana, t.d. ef um vímuefnaneyslu er að ræða.

Samkvæmt bandarísku geðsjúkdómaskránni (DSM-IV) verða margvísleg einkenni að vera til staðar til að hægt sé að greina ADHD hjá fullorðnum með nokkurri vissu. Flestir geðlæknar sem greina ADHD styðjast við DSM-IV.

Geðlæknirinn þarf að útiloka að einkenni stafi af öðrum sjúkdómum. Einkenni sem um margt minna á ADHD geta fylgt ýmsum öðrum kvillum. Þunglyndi getur t.d. fylgt einbeitingarskortur og minnisleysi, sem minnt getur á athyglisbrest. Sumir kvíðakvillar geta valdið líkamlegri spennu, óróa og einbeitingarleysi sem minnt getur á athyglisbrest með ofvirkni. Sá sem er í s.k. geðhæð fer oftast úr einu í annað, er með mikið hugarflug og talar hratt. Mikilvægt er rugla þessu ástandi ekki saman við ADHD. Geðlæknum getur þó verið ærinn vandi á höndum, þar eð allir ofantaldir kvillar geta einnig verið fylgiraskanir ADHD og útiloka því alls ekki að ADHD sé einnig til staðar og sé jafnvel orsakavaldur þessara kvilla.

Aðrir kvillar sem geta minnt á ADHD eru t.d. svefnraskanir af ýmsum toga, t.d. kæfisvefn og s.k. drómasýki. Vímuefnaneysla af öllu tagi framkallar einkenni sem geta minnt mjög á ADHD. Reglubundin kannabisneysla veldur m.a. einbeitingarleysi, framtaksleysi og áhugaleysi, sem um margt minnir á athyglisbrest með vanvirkni sem áður var minnst á. Sama má segja um drykkjusýki. Misnotkun örvandi efna og ýmissa steralyfja getur fylgt hvatvísi, skapofsi og annað sem líkist ADHD með ofvirkni og hvatvísi.

Líkamlegum sjúkdómum geta fylgt einkenni sem líkjast að sumu leyti ADHD. Má þar nefna innkirtlasjúkdóma s.s. truflun á starfsemi skjaldkirtils, vefrænan heilaskaða í kjölfar höfuðáverka o.fl.

Greining á ADHD hjá fullorðnum getur þannig verið erfið en stundum eru þó einkennin svo dæmigerð, svo og sjúkrasagan, að greiningin liggur í augum uppi.

Afar mikilvægt er að vandað sé til greiningar eins og kostur er. Sá sem er með ADHD á fullorðinsárum hefur þurft að dragast með neikvætt sjálfsmat og stöðuga sjálfsgagnrýni og oft einnig gagnrýni frá öðrum. Námsferill er gjarnan ein langdregin hörmungasaga og starfsferill oft slitróttur og tilviljanakenndur. Sama má oft segja um sambúðarferil. Fólk með ADHD lendir oft á rangri hillu í lífinu ekki síst í starfi. Fólk lendir oft í námi eða srarfi sem er í engu samræmi við raungetu eða greind. Greindarpróf sýna oft að fólk með ADHD getur verið með afburðagreind en aldrei notið þess í námi eða starfi vegna ADHD. Margir missa geðheilsu sína vegna ADHD með árunum. Því verður aldrei lögð of mikil áhersla á mikilvægi þess að greining sé framkvæmd á vandaðan hátt þannig að meðferð verði markviss og árangursrík. Hafa verður í huga að ADHD getur verið mikill sjúkdómavaldur og mikil forvörn getur getur falist í greiningu ADHD og meðferð.

Meðferð á ADHD hjá fullorðnum

Mörgum einstaklingum með ADHD léttir mjög við það eitt að fá rétta sjúkdómsgreiningu. Margir eiga að baki mikla þrautagöngu í leit að skýringum og meðferð á vanlíðan sinni. Alvanalegt er að fylgiraskanir eins og þunglyndi og kvíði hafi verið ítrekað meðhöndlaðar með þunglyndis- og kvíðalyfjum, oftar en ekki með takmörkuðum árangri. Það eitt að fá greiningu á ástandinu getur þannig bætt andlega líðan þess sem þjáðst hefur af ADHD. Næsta skref til að bæta líðan er að fá útskýringar og fræðslu um ADHD, og er það eitt af verkefnum geðlæknis og sálfræðings. Nú orðið má afla greinargóðra upplýsingar á Internetinu og hjá ADHD samtökunum.

Meðferð ADHD hjá fullorðnum er á margan hátt ólík því sem tíðkast þegar börn eiga í hlut. Nauðsynlegt er að meta fylgiraskanir, hvort þær eru til staðar, hversu alvarlegar þær eru, hvort hægt sé að meðhöndla þær og þá hvernig það verði best gert, t.d. með lyfjameðferð, sálrænni meðferð eða öðrum aðferðum. Stundum er nauðsynlegt að meðhöndla fylgiraskanir áður en meðferð á grunnvandanum, þ.e.a.s. ADHD, er hafin. Í öðrum tilfellum má meðhöndla fylgiraskanir samhliða ADHD.

Meðferðin skiptist í megindráttum í þrjá aðalþætti, lyfjameðferð, fræðslu og stuðningsmeðferð.

Lyfjameðferð:

Eins og þegar börn eiga í hlut, þá er grunnmeðferð við ADHD lyfjameðferð. Algengustu lyf sem notuð eru, eru í flokki örvandi lyfja. Hér á landi eru aðallega notuð ýmis form af lyfinu metylfenídat, sem hér eru markaðssett undir nöfnunum Ritalin, Equasym, Ritalin Uno og Concerta. Amfetamín er mikið notað í Bandaríkjunum við ADHD, bæði hjá börnum og fullorðnum en eingöngu í undantekningartilfellum hérlendis. Öll þessi lyf hafa örvandi áhrif á tvö boðefni í heilanum, dópamín og noradrenalín, en bæði þessi efni, eða réttara sagt skortur á þeim, eru talin koma við sögu þegar ADHD er til staðar.

Ritalin og Equasym eru í töfluformi og eru skammverkandi, verka í u.þ.b. 4 klukkustundir. Því þarf yfirleitt að taka þau þrisvar á dag eða jafnvel oftar og er það helsti ókostur þessa lyfjaforms, þar eð mörgum sem þjást af ADHD, reynist erfitt að muna eftir að taka lyfin. Þess vegna hafa verið þróuð langverkandi form af metylfenídati.

Ritalin Uno, sem er tekið einu sinni á dag, að morgninum, og verkar oftast í 8-10 klukkustundir. Verkunartími metylfenidats er nokkuð breytilegur hjá fólki. Í stöku tilfellum er lyfið tekið tvisvar á dag. Ritalin Uno er í hylkjum, 20mg, 30mg og 40mg að styrkleika.

Concerta er annað langverkandi form metylfenídats og er yfirleitt tekið einu sinni á dag, að morgninum. Það er í formi hylkja og er markaðsett hérlendis í styrkleikunum 18mg, 36mg og 54mg. Verkunartími er yfirleitt um 10-12 klukkustundir.

Mjög einstaklingsbundið er hversu háa skammta þarf að gefa af ofangreindum lyfjum. Skammtastærð er t.d. ekki endilega í hlutfalli við líkamsþyngd eins og gildir um mörg önnur lyf. Lyfjaskammtar fyrir börn og fullorðna eru yfirleitt álíka háir. Sumir fullorðnir þurfa mjög lága skammta af þessum lyfjum til að hafa fullt gagn af þeim. Aðrir finna ekki neina teljandi verkun fyrr en komið er upp í hærri skammta. Ekki er óalgengt að dagskammtur ofangreindra lyfja fari um eða jafnvel yfir 1mg á hvert kg líkamsþyngdar á dag. Algeng ástæða þess að lyfin verka ekki sem skyldi, er að dagskammtur er of lágur. Rannsóknir sýna að bæði amfetamín og metylfenídat verka á um 70% fullorðinna einstaklinga sem þjást af ADHD.

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að notuð séu langverkandi form metylfenídats. Þótt virkt innihaldsefni forðalyfjanna sé hið sama, geta sumir fundið mikinn mun á verkun þessara lyfja. Er þá gjarnan skipt yfir í annað form lyfsins. Algengt er að verkun ofangreindra lyfja dofni á fyrstu dögum meðferðar. Ef það gerist, bendir það til að auka þurfi skammt lyfsins. Það skal þó aldrei gert nema að læknisráði. Þegar réttum lyfjaskammti er náð þarf yfirleitt ekki að breyta honum með tímanum.

Örvandi lyf þolast yfirleitt vel af þeim sem þjást af ADHD, séu þau gefin í réttum skammti. Milliverkanir við önnur lyf eru litlar nema hvað snertir s.k. MAO hemjandi lyf. Aukaverkanir ofangreindra lyfja eru langoftast vægar og hverfa yfirleitt á fyrstu dögum lyfjatökunnar. Frá þessu eru þó undantekningar og því mjög áríðandi að lesa fylgiseðla þessara lyfja og hætta strax töku þeirra og hafa samband við lækni ef óvæntra óþæginda verður vart.

Stundum er sagt að örvandi lyf geti magnað upp allt í líðan þess sem þjáist af ADHD. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga þegar til staðar eru fylgiraskanir s.s. þunglyndi eða kvíði. Þótt algengt sé að sumar fylgiraskanir dofni eða jafnvel hverfi eftir að taka lyfjanna er hafin, þá þarf alltaf að gera ráð fyrir hinu gagnstæða, að slík einkenni geti magnast við töku lyfjanna. Það gerist stundum og getur verið hættulegt, sérstaklega ef um þunglyndi er að ræða.

Örvandi lyf eru almennt ekki misnotuð af þeim sem þurfa á þeim að halda, þ.e.a.s. fólki með ADHD, enda upplifa þeir sjaldan vímuáhrif af lyfinu. Taki einstaklingar með ADHD inn of háa skammta slíkra lyfja, fá þeir yfirleitt aðeins óþægindi, t.d. höfuðverk eða spennueinkenni. Lyfið er ekki eitrað og fráhvarfseinkenni eru lítil sem engin ef hætt er á lyfinu og það hefur verið tekið á réttan hátt.

Alltaf er eitthvað um að metylfenidat sé misnotað og að það gangi kaupum og sölum á götunni. Aðallega er þá sóst eftir Ritalin í töfluformi, sem þá er gjarnan leyst upp og sprautað í æð. Ritalin er þó ekki mjög eftirsótt en notað í hallæri ef annað er ekki í boði. Sé lyfinu sprautað í æð með áðurnefndum hætti, er það sérlega hættulegt og hættulegra en margt annað sem vímuefnaneytendur sprauta sig með. Það leysist illa upp og kristallar berast vítt og breitt um blóðrásina en setjast gjarnan í lungu sem eyðileggjast með tímanum. Hættulegast er þó að bakteríur berast auðveldlega með þessum kristöllum og geta valdið alvarlegum sýkingum hvar sem er í líkamanum, t.d. í heila og hjarta. Þessar staðreyndir eru almennt ekki á vitorði vímuefnaneytenda hér á landi enn sem komið er. Er það ein af ástæðum þess að Ritalin í töfluformi er nú mun minna notað en áður.

Strattera er lyf sem notað er í vaxandi mæli á síðustu árum. Innihaldsefni þess er atómoxetín og það verkar á annan hátt en áðurnefnd lyf. Það hefur verið þaulrannsakað á undanförnum árum. Ólíkt áðurnefndum lyfjum tekur u.þ.b. 3-4 vikur fyrir Strattera að verka. Fyrir kemur að fólk fær aukaverkanir af lyfinu meðan það er að hlaðast upp í líkamanum og gefst upp á að taka það áður en það fer að verka. Lyfið getur valdið hækkun á blóðþrýstingi og er nauðsynlegt að fólk sé upplýst um það og að fylgst sé með blóðþrýstingi á fyrstu vikum lyfjatökunnar, ekki síst ef vart verður höfuðverkjar eða aukins hjartsláttar. Ýmis önnur óþægindi geta í stöku tilfellum fylgt töku lyfsins.

Ef lyfið þolist vel, þá verkar það yfirleitt vel á öll einkenni ADHD, ekki síst ofvirkni og hvatvísi. Lyfið hefur áhrif á boðefnið noradrenalín í heilanum. Það er gjarnan notað ef áðurnefnd lyf gera ekki gagn eða þolast ekki og ef í hlut eiga einstaklingar sem eru með sögu um alvarlegan vímuefnavanda sem fylgiröskun með ADHD.

Strattera er í hylkjum og fæst í fjölda styrkleika allt frá 18mg upp í 60mg. Oftast er hyggilegt að hefja meðferð á lágum skammti og auka hann síðan eftir þörfum til að auka líkur á að lyfið þolist vel. Strattera hefur m.a. þann kost að það er ekki hægt að misnota, er ekki vímugefandi né ávanabindandi.

Matgvísleg önnur lyf eru notuð við ADHD og fylgiröskunum þess, sem yrði of langt mál að fara nánar út í hér.

Öll ofangreind lyf eru niðurgreidd af Tryggingastofnun ríkisins, en aðeins að því tilskildu að fólk hafi fengið frá T.R. s.k. lyfjaskírteini. Aðeins geðlæknar geta sótt um slík skírteini.

Fræðsla: Eins og áður var drepið á, þá er fræðsla um ADHD mjög nauðsynlegur þáttur í að hjálpa fullorðnum einstaklingum sem þjást af þessum kvilla til að skilja þetta ástand frá öllum hliðum. Slík fræðsla er vel þegin og getur hjálpað viðkomandi að endurmeta líf sitt frá upphafi, núverandi stöðu sína, framtíðarmöguleika o.s.frv. Fyrsta fræðsla kemur frá þeim sem greina og meðhöndla ástandið, þ.e.a.s. læknum og sálfræðingum. Fólk í þessum stéttum hefur á allra síðustu árum orðið meðvitaðra um ADHD, og veit að sá kvilli er ekki bundinn við bernskuárin, heldur fylgir flestum í gegnum lífið og verður æ flóknari og erfiðari fyrir marga að burðast með.

Greining og meðferð við ADHD eru afar þakklát verk, sé rétt að þeim staðið. Læknar þyrftu að hafa til að bera grunnþekkingu á einkennum ADHD og meta eða endurmeta sjúklinga sína með þá greiningu í huga, sérstaklega þegar hvorki gengur né rekur að bæta andlega líðan þeirra.

Stuðningsmeðferð: Eins og ítrekað hefur komið fram hér að ofan, þá eiga margir einstaklingar með ADHD, sem greinist fyrst á fullorðinsárum um sárt að binda. Sumir eiga að baki miklar hörmungarsögur um brostnar vonir, einelti, brottrekstur úr skólum, kynferðislega misnotkun, hælisvist þar sem harðneskju og jafnvel ofbeldi var beitt. Aðrir hafa árum saman leitað sér aðstoðar vítt og breitt í heilbrigðiskerfinu en ekki fengið bót meina sinna. Stuðningsmeðferð í formi viðtala hjá læknum, sálfræðingum eða öðru fagfólki er oft bráðnauðsynlegur þáttur meðferðarinnar. Í öðrum tilfellum dugar lyfjagjöf og fræðsla.

Horfur þeirra sem eru með ADHD

Þau lyf, sem notuð eru við ADHD eru mjög virk. Örvandi lyf gagnast um átta af hverjum tíu fullorðnum með ADHD. Með tilkomu Strattera hafa horfur þessa fólks enn batnað. ADHD er hægt að meðhöndla hjá fullorðnum á öllum aldri oft með ágætum árangri.

Fullorðnir, eins og börn, geta verið með ADHD á misháu stigi. Sumir þurfa enga meðferð. Sumt fólk með ADHD á vægari stigum er gjarnan duglegt, hugmyndaríkt, skemmtilegt og vinsælt og hjá því er ADHD ekki vandamál nema síður sé. Aðrir, sem eru með ADHD á hærra stigi þurfa meðferð og oftast eru batahorfur ágætar. Margir læra með tímanum að lifa góðu lífi með ADHD og læra að hemja sum einkenni sín að miklu leyti eða bæta þau upp með ýmsum aðferðum.

Þeir einstaklingar með ADHD sem hafa mætt góðum skilningi og atlæti í æsku og hafa fengið gott uppeldi og stuðning, vegnar yfirleitt betur en öðrum þeim með ADHD sem hafa farið á mis við slíkt í uppvextinum. ADHD orsakast vissulega ekki af lélegu uppeldi, en þeir sem verða á einhvern hátt illa úti í bernsku og æsku, eiga almennt erfiðara uppdráttar síðar meir. Þeir sem eru greindir með ADHD í bernsku en fá þrátt fyrir það ekki viðeigandi lyfjameðferð, er, eins og áður er getið líklegri til að falla í þær fjölmörgu og hættulegu gryfjur sem bíða þeirra á lífsleiðinni.

Batahorfur ráðast oftast af því hversu illa og lengi fólk hefur þjáðst af fylgiröskunum ADHD og hversu vel eða illa gengur að ráða bót á þeim. Flesta fylgikvilla er hægt að meðhöndla eða þeir hverfa með tímanum af sjálfu sér þegar fólk fær góða meðferð við grunnkvillanum ADHD. Alvarlegar persónuleikaraskanir er erfiðara að ráða bót á. Sér í lagi eru horfur þeirra, sem frá unga aldri hafa sýnt merki um siðblindu, verða í vaxandi mæli andfélagslegir í hegðun og ánetjast vímuefnum, afleitar.

Fullorðnir með ADHD, sem þurfa á lyfjameðferð að halda, þurfa yfirleitt að vera lengi á slíkri meðferð og sumir til frambúðar. Aðrir geta með tímanum dregið úr lyfjatökunni án þess að allt sæki í fyrra horf. Þá er eins og fólki dugi að ná fótfestu í lífinu og öðlast eðlilegt sjálfsmat og sjálfstraust.

Lokaorð

Við ritun þessarar greinar var stuðst við margvísleg gögn s.s. fræðibækur og vísindalegar rannsóknir sem höfundur hefur aflað sér á liðnum árum. Auk þess styðst höfundur við reynslu sína af meðferð fullorðinna með ADHD, sem hann hefur stundað í rúman áratug. Eins og í svo mörgum greinum læknisfræðinnar, þá eru það að lokum sjúklingarnir sem maður lærir mest af.

Að lokum vil ég benda á hið einstaklega ötula starf ADHD samtakanna á Íslandi. Þar er unnið að fræðslu, greiningu og margvíslegum stuðningi fyrir jafnt börn og fullorðna með ADHD og aðstandendur þeirra.

Grétar Sigurbergsson geðlæknir

------------------------------------------------------------

Úr ritinu Understanding, Supporting and Improving Outcomes for Individuals with ADHD

Flestir þeir sem greinast með ADHD (athyglisbrest með/án ofvirkni) glíma alla ævi við ýmis einkenni vandans og í mismunandi miklum mæli. Mikill hluti fullorðinna sem greinst hefur með ADHD glímdi árum saman við röskun sem ekki var vitað að væri til. Þessi hópur hefur því orðið að búa við ýmsar rangar greiningar og hefur oft fengið á sig rangan og óréttlátan stimpil vegna misskilnings.

Stundum áttar fullorðið fólk sig á að það er með einkennin sjálft og leitar greiningar eftir að barn þess hefur greinst með ADHD. Algengt er þó að fullorðnir haldi bara áfram að glíma við þau einkenni sem hamla þeim í leik og starfi án þess að leita sér hjálpar í frumgreiningu, greiningu og viðeigandi meðferð.

Vitað er að ADHD geta fylgt ýmsir örðugleikar sem rekja má til slakrar sjálfsstjórnar og hæfileikans til að stjórna atferli sínu. Hér verða talin upp nokkur þeirra atriða sem margir fullorðnir með ADHD glíma við:

Gagnrýni og neikvæð endurgjöf
Neikvæðar tilfinningar (sektarkennd, skömm, léleg sjálfsvirðing, reiði, örvænting)
Erfiðleikar með skipulag og tímastjórnun
Félagslegir örðugleikar og samskiptavandi
Fjárhagsleg vandræði
Tíð vinnuskipti
Erfitt að vinna sig upp í starfi
Vandræði á vinnustað
Óánægja í starfi (rangt starf valið)
Nær ekki þeim árangri í starfi sem við má búast
Þunglyndi, angist og aðrar persónuleikaraskanir og námsörðugleikar eru algengari en hjá samanburðarhópi
Notkun og misnotkun vímugjafa algengari en hjá samanburðarhópi
Sambúðarvandamál
Ala þarf upp eitt eða fleiri börn með ADHD og jafnvel fylgiraskanir líka þótt fólk hafi í raun nóg með sjálft sig
Fullorðnir verða einnig ekki síður en börn og unglingar að ganga í gegnum víðtækt greiningarmat áður en hægt að ákveða viðeigandi meðferð og hefja hana. Greining fullorðinna þarf til dæmis að fela í sér eftirfarandi atriði:

Mat klínískra sérfræðinga á sviði ADHD og fylgiraskana
Klínískt yfirlit yfir núverandi einkenni og virkni
Víðtæk klínísk forsaga (þroskaferli, heilbrigði, atvinna, menntun og saga um geðræn vandamál)
Upplýsingar um viðbrögð við alls konar aðstæður, bæði frá þeim sem verið er að greina og öðrum sem þekkja viðkomandi vel, sé þess nokkur kostur (maki, foreldri)
Aðrar hlutlægar upplýsingar (t.d. sjúkraskrár, eldri greiningar/skýrslur)
Skorið úr um hvort einkennin séu þrálát og viðvarandi
Skorið úr um hvort um sé að ræða aðrar geðrænar greiningar sem betur eiga við en ADHD
Skorið úr um hvort um fylgiraskanir geti verið að ræða
Um þessar mundir er talið að eftirfarandi samþættar meðferðarleiðir séu líklegastar til þess að skila bestum árangri við meðferð fullorðinna með ADHD og nýtast þeim best til að takast á við einkenni röskunar sinnar. Einstaklingsbundin meðferð sem hentar þörfum einstaklings með ADHD þarf því meðal annars að byggjast á:

Viðtölum við lækni, geðlækni og/eða sálfræðing
Ráðgjöf/meðferð (ætlaðri einstaklingi, hjónum og/eða fjölskyldu)
Fræðslu um ADHD (fyrir þann fullorðna og maka) til þess að auka skilning á röskuninni, áhrifum hennar á allt atferli og daglegt líf og hvernig best sé að takast á við einkennin
Sértækri þjálfun í reiðistjórnun, leiðum til að takast á við vandamál og félagsfærni
Aðstoð við að setja sér raunhæf markmið sem möguleiki er á að ná
ADHD coaching, sjá einnig hér að neðan
Stuðningi við að leita meðferðar við mögulegum fylgiröskunum
Lyfjameðferð (líkt og hjá börnum og unglingum, örvandi lyfjum og öðrum lyfjum vegna fylgiraskana, ef við á)
Náms- og starfsráðgjöf með það að markmiði að gera sér grein fyrir sterkum hliðum einstaklingsins, námsaðferðum og hvað viðkomandi kýs sér helst með tilliti til starfskrafna og -umhverfis.
Stuðningshópum (ADHD samtökin)
Að byggja upp og styðja við færni í skipulagningu, tímastjórnun, setningu markmiða og námsaðferðum
Aðlögun á vinnustað
Fullorðið fólk með ADHD getur haft mikið gagn af ýmsum þeim aðferðum, stuðningi við og aðlögun að minnisþjálfun, skipulagningu, lesskilningi og ritun sem ætlaðar eru börnum og unglingum með ADHD.

ADHD coaching er meðferðarleið sem nýtur mikillar hylli hjá fullorðnu fólki með ADHD. Hún byggist á langvarandi sambandi skjólstæðings og handleiðara þar sem sá fyrrnefndi fær stuðning og aðstoð við að:

Skilgreina markmið
Leita leiða til að ná sem mestu út úr sterkum hliðum og hæfileikum skjólstæðingsins
Móta aðgerðaáætlun um að ná markmiðum
Móta skipulag og aðferðir til að ná sem bestum árangri í starfi og stefna að því að ná markmiðum
Stuðla að því að skjólstæðingurinn sé einbeittur, geti tekist á við hindranir og komist yfir þær
Deila langtímaáætlunum niður í stutta áfanga sem skjólstæðingurinn hefur sýn yfir
Efla hæfni í tímastjórnun, skipulagningu og á öðrum sviðum þar sem veikleikarnir skaða afköst og frammistöðu.
Á íslensku vefsíðunni er að finna ýmsar upplýsingar um ADHD coaching fyrir fullorðinna, eða senda fyrirspurn til Sigríðar Jónsdóttur ADHD coach á netfangið sirrycoach@internet.is

Fullorðið fólk með ADHD verður að taka ákvörðun um hvort það sé í þágu þess sjálfs að leita aðlögunar í starfi sínu með þeim afleiðingum að vinnuveitandinn fær upplýsingar um ADHD greiningu viðkomandi starfsmanns.

Grípa má til ýmissa aðlögunaraðgerða á vinnustað, t.d. með því að:

Endurskipuleggja starfið, það er hvenær og/eða hvar starfið er unnið
Hafa ekkert í umhverfinu sem getur truflað við starfið
Leyfa starfsmanni að inna hluta starfs síns af höndum heima
Skipa hægt og greinilega fyrir
Gefa starfsmanninum bæði skriflegar og munnlegar leiðbeiningar
Veita sérstakan stuðning við skrifstofustörf
ADHD hjá fullorðnum er enn að miklu leyti ókannað svið og athyglinni hefur ekki í alvöru verið beint að þessum hópi nema um nokkurra ára skeið. Víða eru þó fræðimenn að kynna sér þennan hóp og koma þær rannsóknir vonandi öllum til góða áður en langt um líður. Áhugasömum er bent á að leita til ADHD samtakanna í leit að frekari upplýsingum.

Matthías Kristiansen þýddi