Fyrirlestur: Athyglisbrestur með ofvirkni og misnotkun vímuefna

Wendy Richardson er fjölskylduráðgjafi og sérfræðingur á sviði athyglisbresti með
ofvirkni og misnotkunar vímuefna. Á ADDA 2000 ráðstefnunni í Atlanta í maí í fyrra hélt
hún fyrirlestur um athyglisbrest með ofvirkni og misnotkun vímuefna. Efni þessarar
greinar er sótt í fyrirlestur hennar og gögn sem hún dreifði af Norðmönnunum Britu
Drabitzius og Knut Hallvard Bronder.

Fjöldi fólks með athyglisbrest með ofvirkni misnotar áfengi, tóbak, pillur og vímuefni til
að reyna að bæta líðan sína. Oft og tíðum er svokalla sjálfslyfjagjöf að ræða.
Vandinn við þannig misnotkun er sá að efnið virkar róandi í fyrstu. Það leiðir til þess að
einstaklingnum með athyglisbrest með ofvirkni líður betur og óróinn og eirðarleysið
minnkar. Sum þessara efna, t.d. nikótín, koffín og sum vímuefni stuðla að því að
viðkomandi hugsar skýrar og nær betri einbeitingu en áður og tekst þannig að
framkvæma hugmyndir sínar og áform.

Að hella olíu á eldinn

Einstaklingar með athyglisbrest með ofvirkni sem misnota einstaka efni eru ekki verri en
aðrir. Um er að ræða fólk sem leitar í örvæntingu eftir hjálp við að takast á við óróleikann
og því getur sjálfslyfjagjöfin sýnst þægileg lausn. Vandinn er bara sá að sjálfslyfjagjöf
eykur þó aðeins vandann og lífsbaráttuna alla til lengri tíma litið. Það sem kannski virtist
vera möguleg lausn í fyrstu endar oft með stórkostlegum vandamálum og fíkn sem getir
leitt til þess að fólk missir vinnuna og fjölskylduna og mótar þar að auki atferlisvanda
og/eða leiðist út í glæpi og ofbeldi.

Sjálfslyfjagjöf með áfengi og/eða öðrum efnum er eins og að hella olíu á eld.

Hverjir misnota efnin?

Stundum leiðir notkun á áfengi, tóbaki og fleira til fíknar þótt efnið sé notað til
sjálfslyfjagjafar. Margar ástæður eru fyrir því að fólk verður fíklar og sumar þeirra eru
samofnar, til dæmis erfðafræðileg tilhneiging, efna- og taugafræðilegar orsakir, áföll,
streita og önnur tilfinningaleg vandamál. Því er ekki hægt að spá fyrir um hverjir móta
með sér fíkn. Verið getur að maður hafi erfðafræðilega tilhneigingu til misnotkunar á
áfengi, en sé valið að drekka ekki verður maður ekki áfengissjúklingur. Sama á við um
misnotkun á vímuefnum. Því miður hættir fólki með athyglisbrest með ofvirkni fremur til
sjálfslyfjagjafar og misnotkunar vímuefna en öðrum.

„Sjálfslyfjagjöf með áfengi og/eða öðrum efnum er eins og að hella olíu á eld.“
Þegar litið er á einstakling með athyglisbrest með ofvirkni er mikilvægt að leita einkenna
um misnotkun vímuefna en ekki er síður mikilvægt að leita einkenna um athyglisbrest
með ofvirkni hjá þeim sem glímir við fíkn.

„Segðu bara nei!“

Það hljómar einfalt en ef það væri svona einfalt, myndu miklu færri börn, unglingar og
fullorðið fólk misnota vímugjafa daglega. Hjá sumum er þörfin fyrir misnotkun svo sterk
að þeir velja að líta fram hjá hættunni sem fylgir sjálfslyfjagjöf. Fólk með athyglisbrest
með ofvirkni laðast oft að hættuspili og örvandi reynslu. Þetta á líka við um þá sem ekki
hafa fengið meðferð við ofvirkni sinni og þá sem glíma við eirðarleysi, hvatvísi,
athyglisbrest og kraftleysi. Það er erfitt að segja nei ef fólk á í vanda vegna hvatvísi,
einbeitingarleysis, óróleika og eirðarleysis.

Því fyrr sem börn, unglingar og fullorðnir fá meðferð, þeim mun auðveldara er að
aðstoða þá við að draga sem mest úr eða útrýma þörf fyrir sjálfslyfjagjöf. Foreldrar,
ráðgjafar og læknar óttast stundum að meðferð á athyglisbresti með ofvirkni með lyfjum
sem virka á miðtaugakerfið muni valda fíkn. Ekki þurfa allir með athyglisbrest með
ofvirkni á lyfjameðferð að halda en sé þörf fyrir lyf, dregur nákvæmlega útreiknaður
lyfjaskammtur að mestu úr löngun í sjálfslyfjagjöf. Þegar lyfin fara að hjálpa
einstaklingnum til að einbeita sér og hafa stjórn á hvatvísi sinni og orkubeitingu, minnkar
þörfin á sjálfslyfjagjöf. Einn helsti fræðimaður heims á sviði athyglisbrests með ofvirkni,
doktor Joseph Biedermann (sem hélt fyrirlestur á norrænu ráðstefnunni á Hótel
Loftleiðum haustið 1999) hefur sýnt fram á að lyfjagjöfin kemur í veg fyrir misnotkun
vímuefna hjá fólki með athyglisbrest með ofvirkni.

Algengt er að fólk í meðferð sé í endalausum viðræðutímum og endurskoði alla æsku
sína til að kynnast sjálfum/sjálfri sér betur og geta áttað sig á misnotkun sinni og atferli.
Stundum er þetta bráðnauðsynlegt en hvað er til ráða ef viðkomandi fer ekki fram þrátt
fyrir áralanga samtalsmeðferð, helst ekki í vinnu eða sambúð og finnst lífið vera einn stór
nornapottur? Hvað er til ráða ef viðkomandi er líka með athyglisbrest með ofvirkni?
Dugar þá að veita meðferðarsamtöl?

Meðferðarleiðir

Ekki er nóg að veita meðferð við misnotkun vímuefna ef ekki er brugðist við
athyglisbrestinum með ofvirkni. Það er heldur ekki nóg að veita meðferð við
athyglisbresti með ofvirkni en ekki við misnotkun vímuefna. Þarf að greina bæði
vandamálin og veita meðferð við þeim ef viðkomandi á að eiga sér nokkra von um bata.
Það er fyrir öllu að þeir sem veita meðferð við misnotkun vímuefna og þeir sem veita
meðferð við athyglisbresti með ofvirkni bæði ræði og vinni saman. Mikilvægt er að þeir
sem veita fíkniefnaneytendum meðferð skilji að athyglisbrestur með ofvirkni á sér
taugalíffræðilegar orsakir og að góð svörun fæst við víðtækri meðferðaráætlun sem
einnig getur falið í sér lyfjameðferð. Mikilvægt er að meðferðaraðilinn styðji við
sjúklinginn og fræði hann um hve mikilvægt það sé að nota lyf þegar þess gerist þörf.

Í víðtækri meðferðaráætlun getur t.d. falist:

* greining á athyglisbresti með ofvirkni og misnotkun vímuefna,
* þátttaka í meðferðarhópi fyrir fíkla.
* upplýsingar um áhrif athyglisbrests með ofvirkni á lífs
viðkomandi og umhverfis þeirra,
* að byggja upp félagslega færni,
* þátttaka í sjálfshjálparhópum,
* lyfjameðferð eins og ástæða er til,
* stuðningur vegna ákvörðunar viðkomandi um lyfjatöku.

Það er nauðsynlegt fyrir einstakling með athyglisbrest með ofvirkni og fíkn að fá meðferð
í samræmi við ástand viðkomandi. Endurhæfingarferlinu er hægt að skipta niður í fjögur
stig:

Fyrsta stigið er tímabilið áður en meðferð hefst. Á þessu stigi getur verið erfitt að greina á
milli einkenna athyglisbrests með ofvirkni og misnotkunarinnar. Þá er mikilvægt að
einstaklingurinn fái meðferð við fíkninni. Á þessu stigi er ekki rétt að veita meðferð með
lyfjum sem virka á miðtaugakerfið.

Á öðru stigi er einnig erfitt að gera greinarmun á einkennum athyglisbrests með ofvirkni
og fráhvarfseinkennum sem t.d. geta birst sem eirðarleysi, miklar geðsveiflur og hvatvísi.
Mörg einkenni sem líkjast athyglisbresti með ofvirkni geta horfið á meðan á meðferð
stendur. Á þessu stigi er heldur ekki komið að því að nota lyf sem virka á miðtaugakerfið
nema þar sem athyglisbresturinn með ofvirkni kemur í veg fyrir að viðkomandi geti hætt
misnotkun sinni.

Á þriðja stigi fer einstaklingnum að batna og nú er komið að því að leita hjálpar vegna
þeirra vandamála sem ekki hefur fundist lausn á í frummeðferð. Á þessu stigi er
auðveldara að greina hvort athyglisbrestur með ofvirkni sé til staðar og þá getur lyfjagjöf
reynst mjög gagnleg.

Á fjórða stigi er byrjað að áforma langtímameðferð. Þá er hægt að veita ábyrga meðferð
með lyfjum sem virka á miðtaugakerfið. Sjúklingurinn er kominn á það stig að hann
reynir ekki aðeins að losna við fíknina heldur hefur hann líka tækifæri til að glíma við
önnur vandamál, til dæmis athyglisbrest með ofvirkni.

Ef meðferð með lyfjum sem virka á miðtaugakerfið er aðhæfð einstaklingnum nýtist hún
75 til 80 af hundraði fólks með athyglisbrest með ofvirkni. Mikilvægt er að hafa í huga að
þegar lyf eru notuð til meðferðar á athyglisbresti með ofvirkni eru skammtanir einungis
brot af því sem fíkill notar til að komast í vímu. Með lyfjagjöf er hægt að vinna bug á
einbeitingarleysi og eirðarleysi þannig að fólk verður einbeittara og nær stjórn á hvatvísi
sinni og virkni.

Lyf á borð við Wellbutrin, Fontex, Nortriptylini, Effexor og Zoloft, sem ekki virka á
miðtaugakerfið, geta einnig reynst gagnleg við einkennum athyglisbrests með ofvirkni.
Þessi lyf eru oft notuð ásamt örskömmtum af lyfjum sem virka á miðtaugakerfið.
Endurhæfðir áfengissjúklingar og vímuefnanotendur leita sjaldan til læknis til að fá lyf
við athyglisbresti með ofvirkni sem virka á miðtaugakerfið. Margir eru fullir vantrúar á
það að nota lyf og einkum þó lyf sem virka á miðtaugakerfið. Reynslan sýnir að
endurhæfður áfengissjúklingur sem kýs að reyna lyfjameðferð, fellur sjaldan aftur í fyrra
neyslumynstur. Nauðsynlegt er þó að bjóða upp á víðtæka meðferð þar sem veitt er
læknisfræðileg ráðgjöf, atferlisúrbætur, upplýsingar um athyglisbrest með ofvirkni og
boðið er upp á sjálfshjálparhópa og áframhaldandi þátttöku í meðferð við misnotkun
vímugjafa.

Undanfarin ár hefur Wendy Richardson orðið vitni að gjörbreytingu á fólki sem var illa
farið af misnotkun vímuefna og athyglisbresti með ofvirkni sem meðferð hafði ekki
fengist við. Hún hefur unnið með fólk sem gengið hafði inn og út af meðferðarstofnunum
í einn til tvo áratugi en tókst loks að losa sig við fíkn sína þegar meðferð fékkst við
athyglisbresti með ofvirkni. Hún hefur einnig orðið vitni að endurhæfingu fólks með
athyglisbrest með ofvirkni í kjölfar réttar meðferðar við vímuefnamisnotkun þess.

Matthías Kristiansen þýddi