Ofvirkni, athyglisbrestur og áhrif félagslegs umhverfis á persónuleikann

Grein eftir Harold S. Koplewicz, M.D.
Grein þessi birtist fyrst í blaði bandarísku foreldrasamtakanna CHADD, Attention, 3. tbl.
sumarið 1996.

Þessi grein er ætluð bæði foreldrum og kennurum til umhugsunar nú í lok skólaársins.
Fyrir nokkrum árum átti ég ásamt öðrum læknum aðild að rannsókn á áhrifum lyfja sem
virka á miðtaugakerfið í börnum á forskólaaldri. Ég gleymi aldrei þeim degi þegar Kristófer
litli, þá þriggja ára, kom með móður sinni í greiningarpróf. Ég hafði aldrei fyrr séð nokkurt
barn með athyglisbrest og ofvirkni á jafnháu stigi. Hann lagði skrifstofu mína því sem næst
í rúst strax fyrsta daginn sem ég hitti hann. Hann prílaði í húsgögnunum, útataði allt
skrifborðið og grýtti bókum og skjölum um allt. Að lokum reyndi ég að ná sambandi við
Kristófer með því að halda honum hreinlega í bóndabeygju á meðan ég spurði hann.
Það þurfti ekki að koma á óvart að Kristófer var kominn á svartan lista hjá öllum
barnapíum hverfisins. Ég greindi hann með ofvirkni og athyglisbrest.

Kristófer er tvímælalaust hvatvísasta barnið og með alvarlegasta athyglisbrestinn í
rannsókninni allri. Í tíu mínútna „frjálsum leiktíma“ lék hann sér með 61 mismunandi
leikfang. Réttara er þó að segja að hann hafi ekki leikið sér með neitt af þeim, heldur bara
tekið þau upp, grýtt þeim strax frá sér og svo ætt af stað í það næsta. Móðir Kristófers
barðist við að fá hann til að setjast, hljóp á eftir honum og gerði sem í hennar valdi stóð til
að fá hann til að einbeita sér en allt var unnið fyrir gýg. Við tókum það sem gerðist upp á
myndband og á því sést að allt var á öðrum endanum í herberginu.
Eftir „frjálsa leiktímann“ fór einn samstarfsmanna minna inn í herbergið og sagði
mæðginunum að nú ætti að taka til eftir sig. Þá trylltist Kristófer gjörsamlega, æpti og
fleygði sér í gólfið og neitaði alveg að taka til það 61 leikfang sem hann hafði dreift um allt.
Eftir einnar mínútu öskurskast báðum við móður Kristófers um að fá drenginn til að taka
til.

Röðunarverkefnið fór fullkomlega út um þúfur. Kristófer vildi ekki einu sinni setjast við
borðið og benda á rauðu þríhyrningana og bláu hringina. Móðir hans reyndi að fá hann til að
setjast en hann neitaði því alfarið og æddi um herbergið. Mamma gerði hvað hún gat til að
láta hann setjast, „Kristófer, komdu nú og sestu svo við getum leikið okkur“, kallaði hún
aftur og aftur en það þýddi ekkert. Móðirin fylltist æ meiri örvæntingu en henni var
fyrirmunað að fá drenginn til að setjast og ljúka við verkefnin sín. Eftir tíu mínútur hafði
Kristófer ekki gert nokkurn skapaðan hlut og móðirin var útkeyrð.
Um það bil mánuði síðar komu þau Kristófer til að taka greiningarprófið á ný en nú var
hann farinn að taka lyf sem virka á miðtaugakerfið. Aftur var allt tekið upp á myndband. Í
„frjálsa leiktímanum“ kaus Kristófer að leika sér með Fisher-Price verkfæraöskju. Þau
mæðginin settust á gólfið og léku sér með öskjuna og ekkert annað í þær tíu mínútur sem
þeim voru ætlaðar. Þau spjölluðu rólega saman. Tiltektin tók bara andartak, hún var í raun
bara framhald á leiknum og Kristófer gerði strax það sem hann var beðinn um. Við
enduðum á röðunarverkefninu og þá sat drengurinn kyrr við borðið með móður sinni og
lauk við 32 af verkefnunum 40.

Nokkrum mánuðum síðar gafst færi á að sýna hópi læknastúdenta, sem var að lesa
barnasálfræði, myndbandsupptökurnar tvær af Kristófer og móður hans bæði fyrir og eftir.
Við spurðum læknanemana, sem ekki þekktu til rannsóknarinnar, hvað þeir héldu að hefði
gerst á milli heimsóknanna tveggja. Allir komust nemarnir að sömu niðurstöðu; móðirin var
farin að taka róandi lyf! „Í fyrri upptökunni var hún vonlaus og sífellt að æsa drenginn upp
með því að æpa á hann og nöldra í honum“, sagði einn nemendanna. „Hún hefur róast mjög
við að fá lyfin.“

Og það er rétt. Í seinni upptökunni er móðirin miklu rólegri vegna lyfjatökunnar en
vitaskuld er það ekki hún sem tekur lyf. Lyfið sem gjörbreytti atferli og framkomu
móðurinnar er lyfið sem sonur hennar tekur. Hinn „nýi“ Kristófer hefur nú góða
athyglisgáfu, hann hlær og hefur gaman af að leika sér og spjalla við móður sína. Það er
orðið miklu auðveldara að vera með honum og mamma er því miklu notalegri við hann. Í
stað ópa og nöldurs mömmunnar voru komin blíðuorð og hrós og drengurinn blómstraði
hreinlega. Eftir því sem hún gat betur sýnt að henni þótti vænt um hann, þeim mun
auðveldara varð að fást við drenginn, ekki bara fyrir mömmuna heldur alla sem umgengust
hann. Með tímanum skiptu jafnvel barnapíurnar um skoðun.

Ég lýsi þessari rannsókn ekki til þess eins að hrósa áhrifum lyfja sem virka á miðtaugakerfið
heldur til að hrinda af stað umræðum um hvernig fötlun barns hefur áhrif á afstöðu bæði
umhverfisins og þess sjálfs. Athyglisbrestur og ofvirkni Kristófers litla höfðu áhrif á margt
annað en athyglina og hvatvísina. Hann varð óvingjarnlegur og illa liðinn, jafnvel af þeim
sem stóðu honum næst. Fólk forðaðist hann, æpti á hann og neitaði að gæta hans. Þegar svo
við bættist að hann var stöðugt gagnrýndur og fékk nær aldrei hrós, versnaði staða
Kristófers mjög mikið.

Eitt af því sem könnun okkar leiddi í ljós var að mæður ofvirkra barna með athyglisbrest
hrósuðu ekki börnum sínum nærri jafnoft og mæður annarra barna, jafnvel þótt barnið stæði
sig afar vel. Mæður ofvirkra barna með athyglisbrest einblíndu miklu fremur á neikvæðar
hliðar barnsins en þær jákvæðu en það þarf ekki að koma á óvart þegar það neikvæða
yfirgnæfir það jákvæða eins mikið og raun ber vitni.

Jafnvel þótt það liggi ekki í augum uppi er Kristófer einn hinna heppnu. Hann var bara
þriggja ára þegar hann fékk greiningu og hann fékk meðferð. Hann hafði í fáein ár búið við
neikvæð viðbrögð en þó nær einungis frá sínum nánustu. Hann var ekki byrjaður í skóla og
hafði því ekki fengið á sig stimpil skólafélaga og kennara. Við vonum að honum takist að
forðast það með aðstoð foreldra sinna og lyfja sem virka á miðtaugakerfið.

Persónuleiki mótast

Öll börn fæðast með ákveðin persónueinkenni sem skipta öllu um hvernig þau læra nýja
hluti og hvernig samskipti við aðra munu ganga. Jafnvel nýfædd börn hafa sín
persónueinkenni. Gáfur, kímnigáfa og allir hinir þættirnir sem hafa áhrif á persónuleikann
eru mótaðir þegar við meðgönguna. En þetta er þó ekki sagan öll. Þróun persónuleika
barnsins mótast einnig og stundum í miklum mæli af uppeldisumhverfinu. Þótt barnið sé í
upphafi glaðvært og bjartsýnt, eru neikvæð viðbrögð umhverfisins ekki lengi að skila sér í
breytingum á þessum einkennum. Vanrækt börn og börn sem búa við ofbeldi af einhverju
tagi eiga í miklum erfiðleikum með að viðhalda þeim jákvæðu forsendum sem þau fæddust
með. Á sama hátt getur röskun í miðtaugakerfi skipt sköpum og jafnvel haft varanleg áhrif á
þróun persónuleika barnsins.

Þegar hinn átta ára gamli Mario kom til mín á stofu, spurði ég hvert hann héldi að vandamál
sitt væri.

„Ég er vondur strákur“, svaraði hann.
„Hvað áttu við með því að þú sért vondur strákur?“ spurði ég.
„Ég er alltaf að lenda í klandri“, útskýrði hann.
„Langar þig til að lenda í vandræðum?“ spurði ég.
„Ég veit það ekki, ég lendi bara í vandræðum,“ svaraði Mario eins og við mátti búast af
átta ára barni.

Mario hafði komist að því að hann var misheppnaður. Ef barn býr við að vera umkringt
fólki sem alltaf er óþolinmótt eða ergilegt, hefur það mikil áhrif á persónuleika þess.
Mario er ekki eina barnið með lélegt sjálfsmat sem ég hef kynnst. Daglega hitti ég börn sem
álíta sig vera vond, heimsk og gagnslaus, börn sem eru sannfærð um að kennarinn hafi
gefist upp á sér og að þau valdi foreldrum sínum miklum vonbrigðum.
“Pabbi heldur að ég eyðileggi alltaf allt,“ útskýrði hinn tíu ára gamli Ross, „og það er satt,
ég eyðilegg alltaf allt.“

Það liggur í augum uppi hvers vegna Ross hefur komist að þessari niðurstöðu. Allt hans
stutta líf samanstendur af neikvæðum reynsluþáttum. Hann þekkir ekkert annað líf.

Kvalræði kennarans

Ég tók einnig þátt í annarri rannsókn sem sýnir hve erfitt kennurum getur reynst að kljást
við erfiða nemendur. Að þessu sinni ætluðum við að skoða hvernig kennarar bregðast við
atferli nemenda. Fyrsta verkefnið var að leita uppi þann allra besta kennara sem völ var á,
sanngjarnan og umhyggjusaman, þolinmóðan, skapandi og færan í að draga fram það besta í
börnunum. Að lokum fundum við barnaskólakennara að nafni frú Leonard, reyndan fyrsta
bekkjar kennara sem allir sögðu að væri sú besta sem völ væri á. Frú Leonard samþykkti að
yfirgefa bekkinn sinn í einn dag og þess í stað að kenna öðrum fyrsta bekk.
Við báðum hana um að kenna bekknum eins hún var vön en þó með tveim
undantekningum: hún ætti að líta fram hjá öllu neikvæðu atferli og hrósa öllu því sem
jákvætt væri.

Frú Leonard vissi þó ekki að eitt af börnunum í nýja bekknum var Vincent, sem hafði
athyglisbrest og ofvirkni en sem ekki var farinn að taka nein lyf. Þessu til viðbótar var
eftirlitsmaður inni í bekknum sem átti að fylgjast með atferli en án þess að vita hvers vegna.
Við báðum eftirlitsmanninn um að hafa sérstaka gát á viðbrögðum frú Leonards gagnvart
fjórum börnum í bekknum. Eitt þeirra var Vincent. Eftirlitsmaðurinn átti að skrá atferlið hjá
sér í hvert sinn sem þessi fjögur börn sögðu eða gerðu eitthvað jákvætt eða neikvætt og
síðan að lýsa viðbrögðum kennarans með tilliti til þess hvort hún liti fram hjá, gagnrýndi
eða hrósaði börnunum.

Vincent var gjörómögulegur þennan morgun. Áður en tíminn hófst hafði hann rifið í hárið á
einni bekkjarsystur sinni. Hann brá einnig fæti fyrir einn bekkjarbróður sinn. Þegar frú
Leonard gaf fyrirskipanir hunsaði hann þær allar. Frú Leonard stóð sig eins og hetja við
alveg ómögulegar aðstæður. Allan daginn leit hún fram hjá öllu því sem Vincent aðhafðist,
hann æpti og gólaði, gat ekki setið kyrr og svo framvegis. Aðrir í bekknum sýndu að mestu
ágætis framkomu og frú Leonard hrósaði og þakkaði hverju einasta þeirra þegar þau gerðu
eitthvað jákvætt.

Þegar skóladeginum var að verða lokið, rétti frú Leonard nemanda á fremsta bekk
smáblaðabunka og bað um að láta hann ganga aftur í bekkinn. Í fyrsta sinn þann daginn
gerði Vincent það sem hann var beðinn um en frú Leonard hrósaði honum ekki fyrir hið
jákvæða atferli. Eftirlitsmaðurinn skráði hjá sér atburðinn og viðbrögð kennarans.
Að tíma loknum fórum við yfir það sem gerst hafði um daginn með frú Leonard, óskuðum
henni til hamingju með hve vel hún hefði reynst bekknum og við hrósuðum þolinmæði
hennar og styrk til að líta fram hjá ómögulegri hegðun Vincents litla. Svo spurðum við hana
um það sem gerst hafði undir lok skóladagsins.

Eftirlitsmaðurinn spurði: „Þegar þú baðst börnin um að láta blaðabunkann ganga um
tvöleytið, tókstu þá eftir því að Vincent gerði eins og fyrir hann var lagt?“

„Já, ég tók eftir því,“ svaraði frú Leonard.
„Nú? Við héldum að þú hefði ekki séð það,“ sagði eftirlitsmaðurinn.
„Ég tók vel eftir því.“
„En þú hrósaðir honum ekki fyrir að gera eins og fyrir hann var lagt,“ sagði
eftirlitsmaðurinn. „Hafðirðu gleymt að þú áttir að hrósa börnunum ef þau gerðu eitthvað
jákvætt?“
„Víst mundi ég það,“ sagði frú Leonard, „ en hann hafði verið svo hræðilegur allan daginn
að það kom ekki til mála að segja neitt notalegt við hann!“

Við samstarfsfólkið gætum hafa gert ótal rannsóknir og prófanir á þessu sviði en eitt liggur
þó ljóst fyrir; truflun á miðtaugakerfi hefur mikil áhrif á atferli barns, bæði bein og óbein.
Viðbrögð og álit umhverfisins hefur mikil áhrif á atferli barns. Því lengur sem barn þarf að
bíða eftir meðferð, þeim mun meira tjón er unnið á sjálfsmynd þess og líkur minnka um leið
á því að barninu takist að ná tökum á lífinu. Ef frú Leonard, hinn fullkomni kennari, getur
ekki sagt neitt jákvætt við aumingja Vincent litla getur enginn gert það.

Matthías Kristiansen þýddi.