Bréf frá unglingi með misþroska einkenni

Misþroska börn fullorðnast eins og önnur börn og mikil þörf er á að þau geti komið
skoðunum sínum á framfæri þannig að við hin getum hlustað og lært af þeim og reynslu
þeirra.

Foreldrafélagið stefnir einnig að því að koma á laggirnir hópum fyrir unglinga og ungt
fullorðið fólk með misþroska, þar sem það getur talað um reynslu sína og skipst á
skoðunum. Þessi grein ungrar stúlku hér á næstu síðu er fyrsta sporið á þeirri leið:

Framhaldsskólagangan mín

Ég er 17 ára unglingur og ég ætla að lýsa reynslu minni í námi í framhaldsskóla. Ég er
fædd með námserfiðleika og á við einbeitingarleysi að stríða. Mér gekk ekki vel í efri
bekkjum grunnskóla. Ég féll á samræmdu prófunum í lok 10. bekkjar.

Þegar ég var að ljúka 10. bekk fór ég með foreldrum mínum á fund námsráðgjafa og
umsjónarkennara fornámsins í MK. Ég sótti síðan um og fékk inngöngu í skólann. Ég
var þar veturinn 1993 - 1994. Fornámið er eins árs nám í MK. Í MK eru meðal færustu
kennara látnir kenna fornámið. Þar er mjög vel haldið um námið. Mér gekk mjög vel.
Ég lærði að skipuleggja námið betur. Mér fannst ég læra betri glósutækni og gera þær
snyrtilegri. Í MK er tveir bekkir, 12 -14 manns í hverjum bekk. Þar er líka farið mjög
ítarlega í námið. Eftir árs nám fór ég í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Ég byrjaði þar
haustið 1994 á sjúkraliðabraut. Ég valdi áfangakerfið vegna þess að ef maður fellur í fagi
er hægt að taka það aftur. Mér hefur ekki gengið vel á fyrstu önninni. Það á bara að hafa
jákvætt hugarfar og reyna aftur. Nú þegar ég er á annarri önn og verkfallið bætir ekki úr
skák en þó vonast ég til að ná flestum prófunum þó að sjálfsnám sé eina leiðin.
Munurinn á að fara í bekkjarkerfi og áfangakerfi er sá að í bekkjarkerfinu fannst mér að
farið væri hægar í hlutina. Mér finnst betur haldið utan um námið í MK. Kennararnir
tóku því miklu betur þegar ég nefndi námserfiðleika og einbeitingarleysi í MK. Í FÁ er
kennt miklu hraðar en í MK og þar eru starfsmenntunar-brautir sem ekki eru í
menntaskólum.

Ég mundi segja þeim sem gengur illa í samræmdu prófunum að sækja um eins árs nám í
MK. Ég sé alls ekki eftir því að hafa farið í þetta nám því þetta hefur hjálpað mér mikið
upp á framtíðina.

Höfundur er nemandi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla