Framhaldsskólinn og nemendur með ADHD

Í þessari grein er fjallað um niðurstöður rannsóknar sem gerð var í tengslum við
meistaranám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Í rannsókninni var leitast við að varpa ljósi á það hvernig stuðning nemendur með
ADHD þurfa í framhaldsskóla til að ná árangri í námi. Markmið rannsóknarinnar var að
kanna árangur tilraunaverkefnis sem sett var á laggirnar í Menntaskólanum á
Egilsstöðum fyrir nemendur með ADHD. Sá stuðningur sem nemendur fengu í
tilraunaverkefninu fólst m.a. í auknum námslegum stuðningi og ráðgjöf og samvinnu við
foreldra þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á mikilvægi þess að nemendum
með ADHD í framhaldsskólum standi til boða sérhæfður stuðningur.

Brottfall úr námi

Mörg jákvæð og neikvæð einkenni geta fylgt því að vera með ADHD.
Neikvæðu einkenni ADHD geta verið mjög truflandi í námi í framhaldsskóla.
Námsörðugleikar geta einnig verið til staðar hjá þeim sem eru með ADHD, s.s.
erfiðleikar í lestri, stafsetningu, málfræði, tungumálanámi og stærðfræði. Langflestir
þeirra sem gefast upp og hætta í framhaldsskóla áður en þeir ljúka skilgreindu
framhaldsskólanámi eiga við einhvers konar námsörðugleika að stríða.
Niðurstöður erlendra rannsókna hafa sýnt fram á mikið brottfall úr hópi nemenda með
ADHD. Hvernig íslenskum nemendum með ADHD í framhaldsskólum hefur gengið í
námi hefur ekki verið rannsakað sérstaklega en það er ekkert sem bendir til þess að
staðan sé betri hér á landi og brottfall minna.

Það að hætta námi án þess að ljúka skilgreindu framhaldsskólaprófi getur haft varanlegar
afleiðingar í för með sér því sífellt aukast kröfur vinnumarkaðar um menntun
starfsmanna. Sýnt hefur verið fram á fylgni á milli menntunar og góðrar efnahags- og
félagslegrar stöðu á fullorðinsárum. Þeir sem ekki afla sér menntunar geta þar af leiðandi
átt það á hættu að búa við lakari efnahags- og félagslega stöðu á fullorðinsárum en þeir
sem afla sér menntunar.

Tilraunaverkefni í Menntaskólanum á Egilsstöðum

Slakt námsgengi og mikið brottfall úr hópi nemenda með ADHD var ástæða þess að farið
var af stað með sérstakt tilraunaverkefni í ME sem var sniðið að þörfum nemenda með
ADHD. Reynsla okkar í ME hafði jafnframt sýnt að stuðningur við nemendur með
ADHD virtist einungis hafa skilað góðum árangri í þeim tilvikum þar sem nemendur tóku
sjálfir virkan þátt í náminu með því að viðurkenna vanda sinn og bregðast við honum.

 Tilraunaverkefnið fólst í því að veita þremur nemendum með ADHD aukinn
námslegan og persónulegan stuðning og áhersla lögð á samstarf við foreldra
þeirra og kennara.
 Sá námslegi stuðningur sem nemendur fengu fólst m.a. í sérkennslutímum í þeim
greinum sem þeir áttu í erfiðleikum með. Nemendur hittu námsráðgjafa vikulega
þar sem farið var yfir stöðuna í náminu.
 Einnig fengu nemendur fræðslu um truflandi áhrif einkenna ADHD og ráðgjöf um
hvernig þeir gætu nýtt styrkleika sína til að vinna gegn þeim. Markmið með þeirri
fræðslu og ráðgjöf var að auka skilning þeirra á einkennum ADHD og kenna þeim
aðferðir við að takast á við þau einkenni.
 Nemendur fengu ennfremur kennslu í námstækni.
 Nákvæmar upplýsingar um heimanám voru sendar foreldrum vikulega og í
hverjum mánuði var haldinn fundur með foreldrum. Námsráðgjafi fylgdist
daglega með ástundun þeirra í náminu með því að fá upplýsingar frá kennurum
þeirra. Með því móti var hægt að aðstoða nemendur við að standa skil á
verkefnum á réttum tíma og undirbúningi fyrir próf.

Niðurstöður rannsóknar í ME

Hvað sögðu nemendurnir sjálfir?

Sá stuðningur sem nemendur fengu í tilraunaverkefninu kom að góðum notum en var
engan veginn nægilega mikill til þess að þeir næðu ásættanlegum árangri í náminu.
Nemendur töldu að þeir erfiðleikar sem þeir upplifðu í grunnskóla hefðu haft þau áhrif að
þá skorti sjálfstraust og trú á eigin getu í námi. Í grunnskóla höfðu þeir allir átt í
erfiðleikum í námi og jafnframt höfðu þeir átt í erfiðleikum í samskiptum við aðra
nemendur og kennara. Einnig höfðu þeir allir upplifað andlega vanlíðan sem hafði komið
fram í depurð og þunglyndi. Að þeirra mati hefðu þeir þurft að hafa meira sjálfstraust og
ná betri tökum á truflandi einkennum ADHD til að ná betri árangri í náminu í
framhaldsskólanum. Þeim fannst námið í framhaldsskólanum erfitt og þeir töldu sig vanta
meiri námslegan undirbúning.

Eftirfarandi kom fram hjá nemendum:
...í skólanum sem ég var í fyrst þá var enginn meðvitaður um hvað
athyglisbrestur væri og þá var bara sagt að ég ætti að lesa meira ...
en í hinum skólanum var einn kennari búinn að læra þetta og þá
fékk ég betri þjónustu...
...sko allir tímarnir eru ekkert alveg uppáhaldið mitt ... en ég meina
ég fer í tíma og ég læri í tímum og það er stundum ... ég fer að gera
eitthvað annað án þess að vita það eða fatta það ... fer að teikna og
síðan lít ég á töfluna þá veit ég ekki neitt hvað er að gerast ... ég
get bara ekki einbeitt mér fullkomlega ... einbeitingin er mesti
svona vandinn í rauninni...
... ég er svo gleyminn og maður er rekinn út úr sumum tímum ef
maður er ekki búinn að gera verkefnin sem maður á að skila ... mér
finnst það ekki réttlátt ... því ég get gleymt að gera verkefni ef ég
gleymi að kíkja á þetta og eitthvað svoleiðis ... og ég fatta hlutina
sko bara nokkrum sekúndum áður en ég labba inn í stofuna að ég
átti að skila einhverju verkefni ... eða ég man að það var sett
eitthvað fyrir og ég man ekki hvað það var...
...ég veit að ég get alveg verið í skóla ... það er bara erfitt ... ég
verð fljótt þreyttur og þá hætti ég að læra og ætla að gera það
seinna ... en svo bara geri ég það aldrei ... ég þarf bara að ná að
skipuleggja mig ... það er bara eitthvað sem er erfitt fyrir mig...

Hvað sögðu foreldrarnir?

Fram kom hjá foreldrum þeirra að uppeldi barnanna hafði verið erfitt nánast frá fæðingu
þeirra og erfiðleikar verið tíðir í daglegu lífi. Einnig höfðu erfiðleikar verið algengir í
samskiptum bæði á heimili og utan þess. Erfiðleikar í grunnskólagöngu barnanna höfðu
valdið miklu álagi á fjölskyldulífið og allir höfðu foreldrarnir fengið skilaboð frá
grunnskóla um slaka hæfni í uppeldishlutverki sínu.
Foreldrar töldu nær útilokað að veita þeim stuðning við heimanám þar sem ýmis önnur
verkefni voru til staðar heima sem þurfti að sinna, s.s. samskiptaerfiðleikar við systkini,
reglur um útivistartíma, tölvunotkun, o.fl. Því virðist vera afar mikilvægt að nemendur
með ADHD fái tækifæri til að ljúka við heimanám í skólanum eða fái stuðning aðila utan
skólans til að sjá um það.

Hvað sögðu kennarar þeirra?

Fram kom hjá flestum kennurum að þeir töldu sig vanta sérþekkingu á ADHD. Þeim
fannst erfiðleikar nemenda einkum felast í:
• Einbeitingarerfiðleikum í tímum og þau séu lengi að koma sér að verki og þau
truflist auðveldlega.
• Lítlu sjálfstrausti.
• Vöntun á skipulagshæfni og úthaldi.
• Lélegum námslegum undirbúningi undir nám í framhaldsskóla.
Kennarar töldu sig ekki hafa svigrúm né tíma til að sinna þeim í stórum hópum í
kennslustofunni þar sem nemendur eru oftast 20 til 30 í hverjum bekk. Þeir töldu því
mikilvægt að nemendur hefðu sérstakan stuðningsaðila sem þau gætu hitt daglega til að
fá aðstoð við að halda utan um námið, aðstoðað við heimanám og að skipuleggja vinnu
við verkefni og prófundirbúning.

Hvaða ályktanir er hægt að draga af niðurstöðum rannsóknarinnar?

 Af niðurstöðum rannsóknarinnar má ætla að stórauka þurfi stuðning við nemendur
með ADHD í grunn- og framhaldsskólum. Nemendur með ADHD þurfa skilning
og stuðning innan grunnskólans til að geta náð árangri í námi. Á þann hátt eflist
sjálfstraust þeirra og trú á eigin getu og þeir verða betur undirbúnir undir nám í
framhaldsskóla.
 Niðurstöður rannsóknarinnar benda ennfremur til þess að nemendur með ADHD
þurfi að geta hitt stuðningsaðila daglega til að fara yfir stöðuna í náminu og til að
fá aðstoð við að vinna á þeim þáttum sem eru að valda þeim truflunum. Einnig
þurfa nemendur að fá markvissa aðstoð við að þjálfa einbeitingu, minni,
tímastjórnun, skipulagshæfni og leiðbeiningar og þjálfun í hagnýtri námstækni.
 Jafnframt má draga þær ályktanir af niðurstöðunum að efla þurfi fræðslu um
ADHD í kennaranámi. Mjög mikilvægt er fyrir kennara að þekkja einkennin sem
geta fylgt ADHD því þau geta haft mikil truflandi áhrif á nám og hegðun. Þegar
komið er í framhaldsskóla verða truflandi áhrif einkennanna ADHD oft meiri og
áhrifaríkari. Ástæðan er sú að skipulag í framhaldskólum er öðruvísi en í
grunnskólum og ábyrgð nemendanna sjálfra á eigin námi er orðin meiri.

Val á framhaldsskóla

Mikilvægt er fyrir nemendur með ADHD að velja sér skóla til að stunda nám við sem
hefur áhuga á að koma til móts við þá. Margir framhaldsskólar hafa byggt upp fjölbreytt
stuðningsúrræði til að koma til móts við nemendur með ADHD og aðra námsörðugleika.
Þeir framhaldsskólar sem bjóða upp á nám á almennri braut hafa til að mynda allir þróað
ýmis stuðningsúrræði fyrir nemendur með námsörðugleika. Mikilvægt er að ganga úr
skugga um hvaða þjónusta er í boði í viðkomandi skóla áður en námið hefst.

Er til dæmis boðið upp á námskeið í námstækni, lestrartækni, lestraraðferðum,
tímaskipulagi, prófundirbúningi og sjálfstyrkingu?
Er boðið upp á sérstakan námslegan stuðning fyrir nemendur með námsörðugleika?
Er boðið upp á einstaklings- eða hópráðgjöf fyrir nemendur með ADHD?
Er boðið upp á sérstök úrræði í prófum fyrir nemendur með ADHD?
Er einhver aðili í skólanum sem hefur sérhæft sig í ADHD?
Ef ekki er hægt að fá nægan stuðning í skólanum er mikilvægt að kanna hvort hægt er að
fá aðila utan skólans til að veita slíkan stuðning. Einnig er mikilvægt að láta reyna á
önnur úrræði til hjálpar. Mörgum nemendum með ADHD hefur t.d. reynst vel að fara í
greiningu og þjálfun samkvæmt Davis kerfinu (lesblind.is). Einnig hafa lyf hjálpað
mörgum. Aðstoð ”coach” eða þjálfa hefur einnig reynst mörgum vel. Reynslan sýnir að
nemendur með ADHD geta náð góðum árangri í námi með mikilli og þrotlausri vinnu og
góðu samstarfi á milli skóla og heimila. Það er til mikils að vinna ef einstaklingar með
ADHD fá tækifæri til að nýta hæfileika sína til menntunar og auka þannig lífsgæði sín og
vellíðan. Hlutverk foreldra er ærið þrátt fyrir að börnin þeirra séu byrjuð í
framhaldsskóla. Mikilvægt er að foreldrar láti í sér heyra og þeir séu í góðu sambandi við
starfsmenn skóla og leggi fram óskir um þjónustu fyrir börnin sín. Með auknum þroska
og sjálfsþekkingu læra þau smám saman að verða sínir eigin talsmenn, en þar til þau
verða fær um það verða foreldrar að styðja þau og tala máli þeirra og óska eftir
viðeigandi stuðningi fyrir þau.

Í Aðalnámskrá framhaldsskóla (2004) kemur fram að menntun sé ein meginstoð lýðræðis,
almennrar velferðar og menningar og að hver maður á rétt til menntunar eins og staðfest
er í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem
Íslendingar eru aðilar að.

Í Aðalnámskrá kemur jafnframt fram að framhaldsskólanum ber að sinna öllum
nemendum hvernig svo sem undirbúningi þeirra er háttað úr grunnskóla, stuðla að alhliða
þroska þeirra, búa þá undir störf í þjóðfélaginu og frekara nám (Aðalnámskrá
framhaldsskóla, 2004).

Sigrún Harðardóttir hefur starfað undanfarin ár sem námsráðgjafi, kennari og
skólafélagsráðgjafi við Menntaskólann á Egilsstöðum.