Nemendur með lestrar- og skriftarörðugleika.

Norskir nemendur með lestrar- og skriftarörðugleika geta haft þörf fyrir sérstaka aðstoð
þegar verið er að taka skrifleg eða munnleg lokapróf.

Í grunnskólum í Noregi geta þessir nemendur fengið allt að tvær klukkustundir
aukalega í prófum.

Þeir geta fengið að sitja í sér herbergi. Eftirlitsmaður á alltaf að vera viðstaddur, einnig
þegar fagkennari aðstoðar. Fagkennari les verkefnið upphátt ef nemandinn óskar þess. Sá
tími sem tekur að lesa upp, bætist við próftímann. Það má taka munnlegt lokapróf í stað
þess skriflega. Nú er orðið leyfilegt að nota tölvuritvinnslu með leiðréttingabúnaði í
öllum prófum en þá er gert ráð fyrir að nemandi hafi fengið þjálfun í notkun þessa. Ef
nemandinn notar ritvél, á hann heimtingu á að fá aðstoð við vélina og uppsetningu
verkefnis, auk þess sem aðstoð má veita við verkefni sem ekki hentar að leysa á ritvél,
eins og til dæmis reikningsdæmi. Í framhaldsskólum er hægt að velja um að taka
munnlegt eða skriflegt próf, eftir því hvað nemandinn ræður best við. Í móðurmáli og
erlendum málum skal tekið skriflegt próf sé þess krafist að skrifleg færni sé metin.
Nemandinn getur einnig fengið lengri próftíma (þessa skal getið á einkunnablaði), hann
fær lengri tíma til undirbúnings í munnlegu prófi (tekur prófið síðastur í röðinni), hann
getur fengið sérstofu, hvíldarherbergi, upplestur á próftexta, túlkun einhvers annars en
fagkennara, segulbandstæki, ritvél og ritvinnslu sem ekki veitir aðgang að innslegnum
upplýsingum. Nemendur með lestrar- eða skriftarörðugleika geta einnig fengið að nota
orðabók eða samheitaorðabók við skriflegt próf í móðurmáli.
Það fer ekki á milli mála að ritvinnsla á tölvu er mjög gott hjálpartæki fyrir marga þá
sem eiga í erfiðleikum með að lesa eða skrifa. Fram til ársins 1988 var hægt að fá styrk til
kaupa á þannig tækjum frá Tryggingastofnuninni norsku. En nýjar reglur hafa leitt til þess
að ábyrgðinni er velt yfir á aðra, þ.e. að nú verða skólarnir sjálfir að útvega tækin og
fjárhagsáætlanir skólanna gefa því miður lítið svigrúm til þannig fjárfestinga.
Það hlýtur að vera keppikefli allra að aðstæður hér verði sem bestar fyrir börn okkar.
Ekki henta öllum sömu lausnirnar og því þurfum við í samráði við kennara, skóla,
sálfræðing, þroskaþjálfa, iðjuþjálfa eða annað fagfólk að finna bestu leiðirnar.

Matthías Kristiansen þýddi.