Málefnin

 

 

Laugardaginn 4. september stóðu ADHD Samtökin fyrir opnum fundi í Grósku en fundurinn var einn af fjölmörgum viðburðum lýðræðishátíðarinnar Fundur Fólksins. Á honum gafst fulltrúum stjórnmálaflokkanna tækifæri til að kynna hvernig þau vilja koma til móts við fólk og fjölskyldur með ADHD. Fyrir fundinn fengu flokkarnir send til sín spurningarlista , einkum og sér í lagi varðandi fjögur aðkallandi mál þ.e. 1. Hvernig á að eyða biðlistum og 2. tryggja greiningu og meðferð, 3. að meðferðarúrræði séu aðgengileg um land allt og 4. að fræðsla um ADHD og tengdar raskanir séu stórauknar hjá almenningi og þeim sem vinna náið með börnum. Á fundinum fengu síðan fulltrúar flokkarnir tækifæri til að kynna sín svör, formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson og formaður Sálfræðingafélags Íslands, Tryggvi Guðjón Ingason fluttu einnig stutt ávörp en upptöku af fundinum í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Ljóst er að þörfin er til staðar eins og má sjá í svörum heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur á nýafstöðnu löggjafarþingi. En þar kemur fram að 1. júní voru 664 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöðvar og hefur þróunin bara verið uppávið síðustu ár. Skipting biðlistanna eftir landshlutum gefur líka skýra mynd af ástandinu en 70% barnanna eru á höfuðborgarsvæðinu og 30% þeirra á landsbyggðinni. Ennfremur kemur fram í svörum að á biðlistum ADHD-teymis Landspítalans voru 717 fullorðnir einstaklingar í byrjun júní og gefur þetta skýra mynd af því ástandi sem einstaklingar með ADHD standa frami fyrir. Hér má nálgast þingskjalið sem inniheldur fyrirspurnir þingmannsins og svör ráðherra.

Fyrir þá sem vilja fá skýrari mynd af stefnu flokkanna sem eru í framboði til Alþingis þá er hægt að nálgast svör þeirra átta flokka sem sendu inn svör hér.