Svör flokkanna

Hér að neðan er að finna svör þeirra stjórnmálaflokkanna sem svöruðu spurningum ADHD samtakanna en spurningarnar eru eftirfarandi: 1. Hvernig viljið þið eyða biðlistum eftir greiningar og meðferð? 2. Tryggja greiðan aðgang að meðferðarúrræðum um land allt. 3. Tryggja ókeypis greiningar og almenna greiðsluþátttöku vegna meðferðarúrræða sálfræðinga og geðlækna og að lokum 4. Hvernig á að auka fræðslu um ADHD og aðrar raskanir og fötlun í skyldunámi kennara? Svörum flokkanna var raðað upp af handahófi.

 

 Svar Framsóknarflokksins

1. Eyða biðlistum eftir greiningum og meðferð
Framsókn vill fjárfesta í fólki sem hefur lent í alvarlegum áföllum á sinni lífsleið. Áföll geta verið mismunandi og eru því jafn ólík og þau eru mörg. Þessa einstaklinga á að aðstoða við að byggja sig upp að nýju og ná fyrri styrk. Það skiptir sköpum fyrir þá að fá viðeigandi aðstoð og skilning, en einnig liggja í því mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Þetta gerum við með því að taka heildstætt utan um viðfangsefnið, tengja saman ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra viðkomandi aðila og móta  heildstæða umgjörð um það hvernig tekið er utan um hvern og einn sem þarf á þjónustu að halda. Þetta er okkar almenna stefna í velferðarmálum sem snertir vitanlega einnig þá sem eru að takast á við ADHD.

2. Tryggja greiðann aðgang að meðferðarúrræðum um allt land.
Framsókn vill viðhalda og þróa áfram opinbera þjónustu á smærri stöðum og í dreifðum byggðum, til að mynda heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga. Lakari þjónusta og skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu eykur ójöfnuð til búsetu. Framsókn vill nýta tæknilausnir eins og kostur er til að efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þar sem þjónusta hefur minnkað hjá íbúum utan þéttbýlustu svæðanna.  Við gerum okkur grein fyrir því að þjónustan verður aldrei eins allsstaðar.  Við erum fámenn þjóð í stóru landi, en við viljum gera það sem við getum til að jafna aðgengi því við leggjum mikla áherslu á jafnræði landsmanna.

3. Tryggja ókeypis greiningar og almenna greiðsluþátttöku vegna meðferðarúrræða sálfræðinga og geðlækna
Okkar stefna er að koma lögum um greiðsluþátttöku vegna sálfræðiþjónustu til framkvæmda. Til þess þarf heilbrigðisráðherra að gefa út reglugerð um nánara fyrirkomulag niðurgreiðslu sálfræðiþjónustunnar, en af því hefur ekki orðið.  Að því loknu, þurfa Sjúkratryggingar Íslands að semja við þá sálfræðinga sem veita eiga þjónustuna um greiðslur fyrir hana.   Ráðherra heilbrigðismála í næstu ríkisstjórn þarf því að byrja á því að setja reglugerð til að koma málinu áfram.

4. Stórauka fræðslu um ADHD, aðrar raskanir og fötlun í skyldumámi kennara
Framsókn vill áfram leggja áherslu á skólaþróun með þátttöku skólanna sjálfra, enn frekari eflingu kennarastéttarinnar og mikilvægi þess að halda menntuðum kennurum í starfi.

Framsókn vill bæta þjónustu hins opinbera við skólana, uppfæra námsgagnakost og virkja fleiri aðila í námsgagnagerð. Framsókn vill leggja ríka áherslu á snemmtæka íhlutun og samþættingu ólíkra stuðningskerfa svo skólakerfið bregðist skjótt við ef barn glímir við erfiðleika.

Það snertir sannarlega ADHD eins og þið bendið á en stefna okkar miðar að því að takast á við vandann með almennum hætti því það eru fjölmargir fleiri þættir sem skólakerfið verður að geta tekist á við.

 Svar Samfylkingarinnar

Allir, á hvaða aldri sem er, eiga rétt á að fá sem bestar og réttastar upplýsingar um heilsufar sitt. Að öðrum kosti hefur fólk ekki forsendur til að haga lífi sínu á sem heilbrigðastan hátt. Þann 1. júní í ár voru 664 börn á biðlista hjá Þroska- og hegðunarstöð, 360 höfðu bæst á biðlistann í ár en hin 304 höfðu verið á biðlista í fyrra. Augljóslega má ekki við þetta ástand una og er ekki síst sláandi þar sem Þroska- og hegðunarstöð heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þjónustan fellur því undir almennar lagalegar skilgreiningar um þjónustu heilsugæslunnar.

Einstaklingur með ADHD sem fær greiningu snemma og fær meðferð strax hefur miklu betri möguleika á að standa sig í lífinu og börn sem fá rétta meðferð með lyfjum eru í minni hættu að ánetjast vímuefnum en þau sem ganga með ógreint og ómeðhöndlað ADHD. Þetta staðfesta rannsóknir. Með greiningu fá aðstandendur að vita hvað hægt sé að gera til að mæta vanda barnsins. Það er skortur á geðlæknum hér á landi. Stjórnvöld þurfa að leggjast á árarnar og finna leiðir til að fjölga geðlæknum, hvetja til menntunar og gera það aðlaðandi fyrir íslenska geðlækna sem starfa erlendis að koma heim.

Sálfræðingum þarf líka að fjölga og koma þjónustu þeirra undir Sjúkratryggingar Íslands og þjónusta þeirra þarf að vera gjaldfrjáls fyrir börn. Samfylkingin vill einnig að ríki og sveitarfélögin fari í skipulagt samstarf um forgreiningu þannig að hægt sé að vinna með börn á viðeigandi hátt þrátt fyrir að formleg greining liggi ekki fyrir. Um 30% þeirra barna sem eru á biðlista eru af landsbyggðinni. Við viljum fjölga markvisst möguleikum í fjarlækiningum og samtölum í gegnum fjarfundabúnað fyrir landsbyggðina. Slík notkun á tækni hefur sýnst sig að virkar ágætlega.

Svo ná megi biðlistunum niður og jafna aðgengi fólks að úrræðum, að þar ráði ekki efnahagur för, ætti að gera þjónustusamninga við einkaaðila sem taka að sér greiningar. Kostnaður í dag er um 130 þúsund krónur ef leitað er til einkaaðila í þessum efnum. Ef sálfræðiþjónusta fer undir sjúkratryggingar verður þetta hins vegar ekki vandamál. Þrátt fyrir að ADHD sé viðurkennd röskun þá eru enn miklir fordómar vegna þekkingarleysis eða afneitunar á vandanum. Þekking kennara er almennt of lítil. Oft eru það foreldrar sem fræða kennara um vanda barnsins og hvað virki best. Ef hugmyndin um skóla án aðgreiningar á að virka verður að bæta menntun kennara í þessum efnum. Það mætti til dæmis gera með því að auka áherslu á  fötlunarfræði í kennaranámi.

Auka þarf einnig opinberan stuðning við grasrótina – við ADHD samtökin - svo hægt sé að halda úti starfi þeirra um allt land. Snemmtæk íhlutun skiptir lykil máli og að börn fá viðeigandi stuðning. Gera ætti ADHD samtökum kleift að fara hringferð um landið með kennslu og fræðslu fyrir alla kennara og starfsfólk skóla. Það er ekki nóg bara að kennarar þekki til – stuðningsfulltrúar og aðrir starfsmenn skóla þurfa á þekkingu að halda. Sumir vilja meina að greining og úrræði í kjölfarið fyrir einstaklinga með ADHD sé of dýrt fyrir ríkið að leggja fram. Fróðlegt væri að sjá útreikning á því hvað það kosti samfélagið til lengri tíma að börn komist ekki að hjá fagfólki, þjáist vegna þess og fí ekki viðeigandi úrræði. Á biðlista eftir greiningu hjá ADHD-teymi Landspítala voru 717 einstaklingar 18. ára eða eldri þann 1. júní sl. og á biðlista eftir meðferð hjá lækni 66 einstaklingar. Mikilvægt er að þeir sem sinna eldra fólki þekki ADHD og geri ráð fyrir að þeir sem eldri eru geti átt við þessa röskun að stríða eins og þeir yngri. Kvíðaeinkenni og þunglyndi geta birst á svipaðan hátt og hjá þeim yngri. Það er þörf á frekari rannsóknum á þessu sviði til að segja meðal annars til um hvaða meðferðaleiðir gagnast eldra fólki best.

 Svar Miðflokksins

Miðflokkurinn deilir áhyggjum af stöðu þeirra sem eru með athyglisbrest og ofvirkni. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta tvennt þarf ekki endilega að fara saman.

Það er rétt að taka það fram að á listum flokksins eru einstaklingar sem hafa fengið slíka greiningu og eflaust einhverjir sem hafa ekki verið greindir.

Biðlistar eftir greiningum eru of langir eins og víðar í kerfinu en það er skoðun Miðflokksins að bið eftir sjálfsagðri þjónustu sé hugsanlega mannréttindabrot. Því miður er allt of lítið gert af því að reikna út kostnað sem af biðlistum hlýst en ofan á beinan kostnað fellur til afleiddur kostnaður vegna félagslegra vandamála sem ekki er alltaf tekinn inn í heildarjöfnuna.

Það er vandamál að skólarnir virðast ekki fá næg framlög til að sinna greiningum innan skólakerfisins. Það ber þó að taka fram að þetta er misjafnt milli sveitarfélaga.

Almennt er það skoðun flokksins að meðferðir sálfræðinga og geðlækna eigi að standa börnum til tilboða. Alltaf þarf þó að gæta þess að ofgreiningar eigi sér ekki stað. Á Íslandi eru ekki margir sérmenntaðir atferlisfræðingar sem er ein grein sálfræðinnar en aðferðir þeirra eru viðurkenndar sem hluti af lausn á vanda þeirra sem glíma við ADHD. Lyfjagjöf er umdeild en flokkurinn hefur áhyggjur af að henni sé beitt í of miklum mæli.

Í fyrra haust hélt flokkurinn ráðstefnu þar sem gestalesari var meðal annars Hermundur Sigmundsson og voru þessi mál mikið rædd. Fundurinn var fjölsóttur og komu ýmis sjónarmið fram. Það var mörgum sérstakt áhyggjuefni sú þróun sem á sér stað innan skólanna að hafa skólarýmin opin en slíkt fyrirkomulag getur reynt meira á þá sem eru með ADHD og lesblindu.

Námsskrá kennara hefur breyst talsvert undanfarin ár og er flokkurinn tilbúinn til þess að styðja við endurskoðun á námsskránni. Þess ber að geta að ýmsu hefur verið bætt inn í verkefni kennara sem með rökum mætti segja að ætti að vera á hendi foreldra.

Fræðsla er alltaf af hinu góða það má hins vegar velta því upp hvort alla kennara eigi að skylda til að mennta sig í ADHD og öðrum röskunum. Það er hins vegar krafa um að skólinn sinni þeim nemendum betur en nú er gert.

 Svar Sósíalistaflokksins

1. Hvernig viljum við eyða biðlistum eftir greiningum og meðferð?
Auka fjármagn til heilbrigðiskerfisins í heild sinni, sérstaklega til ADHD teymis hjá Landspítala og  þroska- og hegðunarstöðvar sem annast greiningu barna. Sósíalistar vilja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónusta rekna af skattfé borgaranna. Sjálf er ég greind með ADHD,  greiddi sjálf vegna langra biðlista. Var svo upptekin af því að komast í gegnum námið og fá þá hjálp sem ég þurfti og það kostaði sitt. Það þarf að setja fjármagn í heilbrigðiskerfið, því það á ekki að fara eftir fjárhagsstöðu hvort þú fáir aðstoð og greiningu eða ekki.

Efling heilsugæslunnar: Snýr t.d. að greiningu barna sem fer fram á þroska- og hegðunarstöð. Þetta snýr líka að gjaldtöku á heilsugæslunni. Áform um að fella niður komugjöld eiga bara við um dagvinnutíma og eiga sér stað í áföngum, það kostar enn 500 krónur að mæta á dagvinnutíma og þetta er oft fyrsta stopp margra við sinn lækni. Stór biti fyrir þau sem eiga ekki pening og einu sinni kostaði ekki að fara á heilsugæslu. T.d. eldra blað á timarit.is: Vera 1991, heilsíðuauglýsing, byrjunarorðin voru: „Sem skattgreiðandi á Íslandi átt þú frjálsan aðgang að einu besta heilbrigðiskerfi heims. [...]“ 

Skattamál: Þegar við tölum um að heilbrigðisþjónusta eigi að vera rekin af skattfé og skattinnheimtu, þá tölum við sósíalistar um að færa hlutina í fyrra horf og að auðstéttin griði eðlilegan skerf til samneyslunnar. Á síðustu áratugum hefur skattbyrðin verið færð frá efstu tekjuhópum og yfir á lægri- og millitekjuhópa. Gjaldtaka á ekki að fara fram fyrir grunnþjónustu sem heilbrigðisþjónusta er, á meðan við erum ekki að endurreisa skattkerfið okkar, þannig að aflögufærir greiði til samfélagsins. Viljum byggja upp opinbera þjónustu í stað þess að það sé markaðsvætt og fé ráði því hvort fólk fái þjónsutu, þá getur bara efnað fólk fengið greiningu fljótt.

2. Hvernig á að tryggja greiðan aðgang að meðferðarúrræðum um allt land?
Á sama tíma og við þurfum að innleiða gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af fjölbreyttum þörfum fólks, höfum við líka sett fram hugmyndir um sósíalíska byggðastefnu sem er mikilvæg í þessu samhengi. Það þarf að snúa hugmyndafræði nýfrjálshyggjuáranna við, þar sem áhersla á samþjöppun og skilvirkni hefur haft slæm áhrif á byggðir, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu. Fólk á að geta sótt sér þjónustu í nærumhverfi óháð því hvar það býr á landinu. Skoða að nýta tækniframfarir þar sem við á en við þurfum að aðlaga heilbrigðisþjónustu að þörfum fólksins í stað þess að ætlast til þess að það aðlagi sig að kerfinu og ferðist langar vegalengdir til að fá þjónustu. Við þurfum að byggja upp þjónustu í byggðum landsins í stað þess að kerfið einkennist af miðstýrðri einingu.

3. Tryggja ókeypis greiningar og almenna greiðsluþátttöku vegna meðferðarúrræða sálfræðinga og geðlækna
Gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi sem er fjármagnað af skattfé. Erum með í stefnu okkar og tilboðum til kjósenda útfærðar tillögur um skattlagningu á auðugasta fólkið.

Eins og t.d. með heilsugæslu, áður fyrr kostaði ekki að fara á hana. Það á ekki að vera gjaldtaka í heilbrigðisþjónustu og þegar við skoðum aðra þætti eins og sálfræðiþjónustu þá á hún líka að vera gjaldfrjáls. Þegar lágtekjufólk ber skattbyrðina og við erum ekki að skattleggja auðugusta fólkið, þá fellur kostnaðurinn fyrir heilbrigðisþjónustu á þau sem geta síst borið kostnaðinn og þar að auki er það sýn okkar sósíalista að þetta teljist til grunnþjónustu.

Aðrir þættir úr stefnu okkar sem eiga hér við: Að lyfjakostnaður verði að fullu niðurgreiddur og lyfjaverslun almennings sett á fót, með sterku gæðaeftirliti og bestu lyfjum sem völ er á. Nánari útskýring: Lyfjaverslun í almannaþágu mun hafa það að markmiði að kaupa lyf á sem hagstæðustu kjörum t.d. með lyfjainnkaupum í samvinnu við nágrannalöndin og bjóða upp á bestu lyf sem völ er á í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. (Það á ekki að bitna á fólki ef það getur ekki greitt fyrir lyfin sín.)

4. Stórauka fræðslu um ADHD, aðrar raskanir og fötlun í skyldumámi kennara
Allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum. Þá þarf nátttúrulega að vera vitneskju um líðan nemenda og það gerist ekki nema með samtali og fræðslu sem byggir á röddum þeirra sem þekkja best hvað þarf að bæta. Það þarf að huga að því að kennarar hafi tíma til fræðslu og símenntunar.  Menntun kennara er afar mikilvæg enda sinna þeir einu ábyrgðarmesta starfi samfélagsins. Því ber að styðja við nám þeirra með öflugum hætti. Símenntun þarf að vera eðlilegur hluti af starfinu og þurfa kennarar tíma til að sinna henni. Fjölga þarf námsleyfum og veita þau fyrr á starfsferlinum en nú er gert. 

Líka mikilvægt að nefna að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Þó að þar sé ekki beint fjallað um skyldunám kennara er þar fjallað um nauðsynlega þætti sem varða réttindamiða nálgun í samfélaginu, þ.m.t. skóla.

Aðrir þættir sem eru mikilvægir: Að skólinn stuðli að vellíðan nemenda og starfsfólks með því að draga úr samkeppni innan skólaumhverfisins og tryggja smærri hópa í námi.

 Svar Vinstri Grænna

Í velferðarstefnu VG kemur fram að batahugmyndafræðin skuli höfð að leiðarljósi í allri geðheilbrigðisþjónustu og að samfélagsgeðþjónustu þurfi að stórefla. Lögð er áhersla á að heilbrigðisþjónusta sé gjaldfrjáls. Þar að auki skuli efla ráðgjöf félagsráðgjafa og sálfræðinga í skólum til að styðja við geðheilsu barna og ungmenna. Snemmtæk íhlutun komi í veg fyrir alvarlegri vanda síðar á lífsleiðinni. Þá segir í kosningaáherslum VG að halda þurfi áfram að byggja upp geðheilbrigðisþjónustu um land allt. Það þurfi jafnframt að byggja upp raunverulegar forvarnir í geðheilbrigðismálum og bregðast við kvíða ungs fólks með bættum úrræðum og samráði við unga fólkið. VG telur að stefna hreyfingarinnar og kosningaáherslur rími vel við áherslur ADHD samtakanna.

Á þessu kjörtímabili hafa verið stigin ýmis skref í rétta átt í þessum efnum. Komugjöld á heilsugæslu hafa verið lækkuð eða felld niður, sálfræðingum á heilsugæslum hefur verið fjölgað og nýlega ráðstafaði heilbrigðisráðherra meira en 100 milljónum króna í tiltekin þverfagleg átaksverkefni til að efla geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungt fólk. Meðal verkefnanna eru gagnreynd námskeið í félagsfærni hjá BUGL, fjölgun greiningarviðtala hjá BUGL fyrir börn með mögulega röskun á einhverfurófi samfara öðrum geðrænum vanda til að stytta bið eftir greiningu, auk markvissra aðgerða til að stytta bið eftir þjónustu þunglyndis- og kvíðateymis geðþjónustu Landspítala, þjónustu átröskunarteymisins og þjónustu áfallateymisins.

Verkefni næsta kjörtímabils er að halda áfram að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga og efla geðheilbrigðisþjónustu um land allt. Hugsa þarf til lengri tíma og tryggja að nógu margir sæki sér menntun á þessu sviði svo að nægilega margt starfsfólk sé til staðar til að sinna þessari nauðsynlegu þjónustu. Huga þarf í því samhengi að kjörum starfsfólksins í greininni og mögulega að öðrum hvötum fyrir námsmenn á þessu sviði. Þetta ásamt aukinni fjármögnun teljum við að muni stytta biðtíma eftir greiningu og meðferð. Mikilvægt er að halda áfram að efla heilsugæsluna um allt land og að hún geti í auknum mæli sinnt þessum málaflokki. Þá tekur VG undir að það sé lykilatriði að fræðsla fyrir kennara um geðheilsu, raskanir og fötlun sé aukin, bæði til að efla kennara og bæta umhverfi nemenda. Síðast en ekki síst skiptir öllu máli að stytta biðlista eftir greiningum og meðferð eftir ADHD-greiningum. Sú vinna er hafin í heilbrigðisráðuneytinu og mikilvægt er að hún haldi áfram á næsta kjörtímabili.

 Svar Viðreisnar

Viðreisn leggur áherslu að þjónustuvæða heilbrigðis- og velferðarkerfið. Núverandi biðlistamenning gengur ekki lengur. Snemmtæk íhlutun á að vera í algjörum forgangi. Innan heilbrigðiskerfisins en ekki síst innan skólakerfisins. Sérstaklega þegar það kemur að því að grípa börn snemma og tryggja viðeigandi stuðning hið fyrsta. Börn eiga ekki að vera á biðlistum. Samþætting og einstaklingsmiðuð nálgun á milli kerfa er lykilatriði. Skólakerfið þarf að vera í stakk búið að vera sveigjanlegt og mæta nemendum þar sem þeir eru staddir. Í stað þess að troða öllum börnum í box, þá þarf að útvíkka boxið.  Viðreisn vill að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd. Og tryggja greiðsluþátttöku ríkisins þegar það kemur að því að veita viðeigandi stuðning. ADHD er taugaþroskaröskun og það á að veita þá viðeigandi hjálp sem þarf og gagnvart þeim fylgifiskum sem því getur fylgt. Kerfin eiga að vera fyrir fólk – ekki öfugt. Viðreisn leggur áherslu á að fólk eigi gott líf og þau kerfi sem eiga að halda utan um það verði einfaldari og sveigjanlegri. Það þarf líka að huga sérstaklega að aðgengi að þjónustu á landsbyggðunum. 

 Svar Pírata

„Við Píratar lítum á geðheilbrigði sem eina af grunnstoðum samfélagsins. Geðheilbrigði varðar ekki einungis heilsu og velferð einstaklingsins heldur er geðheilbrigði ákveðinn mælikvarði á heilbrigði samfélagsins sem við búum í. Geðheilbrigði snertir í raun öll svið samfélagsins, allt frá því hvernig búið er að velferð barna á heimilum og í skólakerfinu yfir í hvernig hugað er að jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs hjá fullorðnum. Hugum sérstaklega að geðheilbrigðismálum vegna Covid.“

Svona hljóma upphafsorð kaflans um geðheilbrigðismál í kosningastefnu Pírata fyrir komandi kosningar. Í ljósi þess hvað geðheilbrigði snertir mörg svið samfélagsins teljum við einfaldlega að stjórnvöld þurfi að taka mið af því við ákvarðanatöku sína. Eða eins og það er orðað í stefnunni:

„Horfa þarf heildrænt á stefnu og aðgerðir stjórnvalda með tilliti til áhrifa á geðheilsu almennings.“ Það ætlum við t.d. að gera með því að taka mið af „velsældarmælikvörðum“ við hagstjórn landsins.

Fjármögnuð þjónusta og áhersla á forvarnir
Í mjög stuttu máli teljum við Píratar að í stefnunni okkar sé snert á öllum þeim fjórum þáttum sem ADHD-samtökin spyrja um. Þar segir til að mynda að geðheilbrigðiskerfið sé vanfjármagnað og það verði að gefa í – ekki síst í kjölfar faraldursins.

Við viljum tryggja að fjármagnið nýtist vel með því að sjá til þess að í geðheilbrigðisþjónustu sé lögð áhersla á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun. Í því felst að niðurgreiða sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir. Sjúkratryggingar Íslands áætluðu að það myndi kosta ríkissjóð um 875 til 1750 milljónir árlega. Tveir milljarðar til að byrja með gæti því verið eðlilegt viðmið.

Það segir þó ekki alla söguna. Áætlanir benda nefnilega til að niðurgreiðslan myndi spara ríkissjóði háar fjárhæðir til lengri tíma litið og koma í veg fyrir þjáningu fólks með geðheilbrigðisvanda. Niðurgreiðslan gæti þannig lækkað lyfjakostnað, dregið úr áhrifum andlegra veikinda á atvinnutækifæri fólks, framlegð þess í starfi verði meiri, fjöldi veikindadaga færri o.s.frv.

Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er lykilatriði þegar kemur að því að greina sálræna kvilla á fyrstu stigum. Þannig getum við bæði hlíft einstaklingum við kvölum og ríkissjóði við miklum kostnaði til framtíðar. Það er ekki síst þess vegna sem mikil áhersla er lögð á forvarnir, fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæka íhlutun í geðheilbrigðisstefnu Pírata – og jú, að niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Geðheilbrigði og skóli
Við Píratar segjum mjög skýrt í stefnu okkar um geðheilbrigðismál að við viljum tryggja aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þá viljum við sérstaklega huga að hópum sem falla á milli kerfa eða vantar sérhæfða þjónustu; svo sem fólk með tvígreiningu, einhverfu og fólk sem glímir við átröskun.

Tvívegis í kosningastefnunni okkar undirstrikum við mikilvægi þess að nemendur á öllum skólastigum hafi aðgang að sálfræðiþjónustu. Jafnframt tökum við fram í stefnunni okkar að réttast væri að útfæra hæfniviðmið í aðalnámskrá um þekkingu á geðheilbrigði og einkennum algengra geðkvilla.

Að sama skapi teljum við að bráðaþjónusta við fólk sem á við geðrænar áskoranir að stríða sé mjög sérhæft úrlausnarefni og því eðlilegt að hún sé aðskilin annarri bráðaþjónustu og aðgengileg allan sólarhringinn allt árið um kring. Heilbrigðismenntaðir viðbragðsaðilar eigi að bregðast við neyðarútköllum þar sem ætla má að geðræn veikindi séu til staðar.

Þetta og margt fleira í kosningastefnu Pírata, sem má nálgast í heild hér. Kafli 12 fjallar um geðheilbrigðismál.

 Svar Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að notandinn sé settur í fyrsta sætið og að notandinn geti valið sér þá þjónustu sem henti honum best. Við viljum tryggja það að fólk sem er með hugmyndir að úrræðum og lausnum fái frelsi, tækifæri og traust til að framkvæma þau. Sjálfstæðisflokkurinn vill að fjármagn fylgi notanda og þannig tryggja valfrelsi fjölskyldna varðandi hlaðborð úrræða. Þannig geti fjármagn frá ríkinu farið beint í úrræðin frekar en greiningarferli og stjórnsýslu og hægt yrði að fækka milliliðum. Hægt væri að nota núgildandi lög um sjúkratryggingar til þess að útfæra þessa hugmynd. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur einstaklinga til þjónustu tryggður. Með lögbundinni þjónustutryggingu verði fólk sett í fyrsta sæti. Sjúkratryggingar beri ábyrgð á því að sá sem þarf á þjónustu að halda fái hana innan ákveðins tíma – ásættanlegs biðtíma.