Af hverju frönsk börn ERU með ADHD!

Ítrekaðar fullyrðingar sem rekja má til greinar Marilyn Wedge frá 2012 (birt á vef psychologytoday.com) þess efnis að tíðni ADHD í Frakklandi sé mun lægri en í nágrannalöndunum eru rangar og standast ekki nánari skoðun. Sama á við staðhæfingar hvað varðar meðferðarúrræði sem beitt hefur verið þar í landi.

Þannig skrifar Vilhjálmur Hjálmarsson, stjórnarmaður í ADHD samtökunum.

Skrif Vilhjálms:

Staðreyndir málsins eru öllu svartari og birtast meðal annars hjá frönskum ungmennum í auknu brottfalli úr skóla, tíðni reykinga og uppfullum fangelsum af ungmennum með athyglisbrest. Þá sorglegu stöðu má einfaldlega rekja til tregðu Frakka til að viðurkenna ADHD sem taugaþroskaröskun – og eins rótgróinnar andúðar þar í landi á lyfjagjöf, þegar kemur að geðrænum þáttum meðal barna og ungmenna.
Reyndar virðast Frakkar hægt og rólega vera að átta sig á vandanum og breyta samkvæmt því.

Marilyn Wedge var enda svarað í sama miðli seinna það sama ár og röksemdir hennar einfaldlega hraktar. SJÁ HÉR

Enda benda allar rannsóknir til að ADHD sé fyrst og fremst taugaþroskaröskun (þó í einhverjum tilfellum megi rekja greiningu til heilaskaða eða álíka).

ADHD er sem sagt greinilega og óvéfengjanlega erfðatengt fyrirbrigði og hefur ekkert með umhverfi eða uppeldi að gera. Þar með eru engar líkur – ekki litlar, heldur hreinlega engar – á að tíðni ADHD í Frakklandi sé önnur en í nágrannaríkjum (vegna erfðatengsla fellur USA þar undir).

Því miður lifa svona upphlaup þó enn góðu lífi á veraldarvefnum.

Við þetta má svo bæta að Merilyn Wedge er doktor í heimspeki og hefur að auki sálfræðimenntun sem tengist hjónabands- og fjölskylduráðgjöf. Hún gefur sig reyndar út fyrir að vera sérsfræðingur í málefnum barna með ADHD – en við nánari skoðun reynast þau fræði ekki hátt skrifuð, utan kannski lítils hóps í Bandaríkjunum.

Læt fylgja HÉR einn tengil sem lýsir ágætlega um hvað málið snýst

Virðingarfyllst,
Vilhjálmur Hjálmarsson,
einstaklingur með ADHD

Þessi ádrepa er svar mitt við grein eftir Marilyn Wedge sem fyrst birtist á vef psychologytoday.com árið 2012. Á þessu ári hefur allavega í tvígang verið vitnað gagnrýni laust í þessi skrif á íslenskum vefsíðum. Í báðum tilfellum af einstaklingum sem taka fram að viðkomandi tengist skólamálum, sé kennari eða álíka.
Endurbirting er öllum heimil.

  • Upphafleg grein Marilyn Wedge frá 2012 er HÉR