Best að biðtíminn væri enginn

"Auðvitað gæti maður sagt að best væri að biðtíminn væri enginn, en landlæknir hefur sett fram viðmið um biðtíma eftir ýmissi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Að áliti embættis landlæknis ætti bið eftir sérfræðiþjónustu ekki að vera lengri en þrír mánuðir. Vissulega væri slíkt æskilegt," sagði Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra meðal annars í svari við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur formanns velferðarnefndar á Alþingi.

Ráðherra upplýsti að Embætti landlæknis væri að hefja athugun á greiningu á ofvirkni með athyglisbresti, bæði hjá börnum og fullorðnum.  Til viðbótar því hefði hann undirbúið og það væri í startholunum að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir þetta heildrænt varðandi börnin, enda snerti málið líka menntakerfið.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis hefur áður spurt heilbrigðisráðherra um aðgerðir í þágu einstaklinga með ADHD. Í fyrirspurn þingmannsins voru settar fram fjórar spurningar vegna þeirrar stöðu sem uppi er.

Í fyrsta lagi spurði þingmaðurinn hvort ráðherra væri kunnugt um að fleiri en 600 fullorðnir einstaklingar bíði greiningar og meðferðar vegna athyglisbrests með ofvirkni. Þá var spurt hvað ráðherra teldi viðunandi biðtíma eftir greiningu fyrir börn annars vegar og fullorðna hins vegar.
Sigríður Ingibjörg spurði ennfremur hvaða vinna væri í gangi í velferðarráðuneytinu til að bregðast við þeim bráðavanda sem við blasir vegna biðtíma eftir greiningu og meðferð vegna athyglisbrests með ofvirkni hjá fullorðnum.
Síðast en ekki síst var spurt hvaða vinna væri í gangi við að skilgreina betur ferlið frá skimun til endanlegrar greiningar, þ.m.t. verkaskiptingu stofnana, svo að einstaklingar í leit að aðstoð, foreldrar barna eða fullorðnir, þurfi ekki að finna út sjálfir hvar hjálp er að fá og lenda á biðlistum í hverju skrefi.

Fram hefur komið að ríflega 600 einstaklingar, 18 ára og eldri eru á biðlista hjá ADHD teymi Landspítalans og rúmlega 400 börn bíða sömu þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð. Nýlega kynnti heilbrigðisráðherra að aukafjármunum yrði veitt til ÞHS í því skyni að fækka á biðlistum. Engar slíkar aðgerðir hafa verið kynntar sem koma fullorðnum einstaklingum til góða og ekki er að sjá slíkar aðgerðir í þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til næstu fjögurra ára.


Umræðan í heild

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Samfylkingu:

Hæstvirtur forseti. Það er stutt síðan við stóðum hér og ræddum þetta sama mál en þá þann hluta er lýtur að börnum. Það var mjög ánægjulegt að rétt áður höfðu borist upplýsingar um aukin fjárframlög til Þroska- og hegðunarstöðvar sem vonandi mun verða til bóta fyrir íslensk börn.

En ég kem hér til að ræða greiningar á fullorðnu fólki. Það er sérstakt ADHD-teymi starfrækt á Landspítalanum og nú í október biðu um 630 manns greiningar hjá því teymi. Samkvæmt upplýsingum þaðan er meðalfjöldi nýrra tilvísana 35 á mánuði undanfarna 18 mánuði en ADHD-teymið annar einmitt um 35 einstaklingum á mánuði. Það þýðir að ekki saxast á biðlistana og miðað við útreikninga mína á því þarf manneskja sem fær tilvísun til teymisins að bíða í 17 mánuði eftir skimun og svo greiningu.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um að það er erfitt að vera með ógreint ADHD og margt fullorðið fólk hefur rekist á margar hindranir í lífinu vegna aðstæðna sinna. Því er mikilvægt að fólk fái greiningu og lyf eða aðra meðhöndlun til að geta tekist á við daglegt líf án stórkostlegra hindrana.

Ég er með fjórar spurningar til ráðherra. Sú fyrsta er þessi: Er ráðherra kunnugt um að fleiri en 600 fullorðnir einstaklingar bíða greiningar og meðferðar vegna athyglisbrests með ofvirkni? Hvað telur ráðherra viðunandi biðtíma eftir greiningu fyrir börn annars vegar og fullorðna hins vegar? Hvaða vinna er í gangi í velferðarráðuneytinu til að bregðast við þeim bráðavanda sem við blasir vegna biðtíma eftir greiningu og meðferð vegna athyglisbrests með ofvirkni hjá fullorðnum? Hvaða vinna er í gangi við að skilgreina betur ferlið frá skimun til endanlegrar greiningar, þar með talið verkaskiptingu stofnana, svo að einstaklingar í leit að aðstoð, foreldrar barna eða fullorðnir, þurfi ekki að finna út sjálfir hvar hjálp er að fá og lenda á biðlistum í hverju skrefi?
Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvert það á að fara. Það er alls ekki augljóst. Það eru margir mánuðir, jafnvel ár, sem fólk bíður í óvissu en lifir við þær hindranir sem gera því erfiðara fyrir að fást við verkefni daglegs lífs.


Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki:

Virðulegi forseti. Háttvirtur þingmaður beinir til mín fjórum spurningum eins og kom fram í ræðu hennar. Ég ætla að reyna að svara þeim eftir bestu getu og föngum.

Í fyrsta lagi spyr hún hvort mér sé kunnugt um að fleiri en 600 fullorðnir einstaklingar bíði greiningar og meðferðar vegna athyglisbrests með ofvirkni.

Því er fljótsvarað: Já, mér er kunnugt um að rúmlega 600 einstaklingar bíða eftir þjónustu ADHD-teymisins sem greinir athyglisbrest og ofvirkni. Áður en ítarleg greining á ADHD hefst fer fram skimun fyrir ADHD og um 50% þeirra sem hafa farið í skimun hjá ADHD-teymi Landspítalans hafa við þá vinnu ekki verið taldir hafa þörf fyrir ítarlega greiningu þar sem ekki sé um ADHD að ræða.

Í öðru lagi spyr þingmaður hvern ég telji viðunandi biðtíma eftir greiningu fyrir börn annars vegar og fullorðna hins vegar.

Auðvitað gæti maður sagt að best væri að biðtíminn væri enginn, en landlæknir hefur sett fram viðmið um biðtíma eftir ýmissi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Að áliti embættis landlæknis ætti bið eftir sérfræðiþjónustu ekki að vera lengri en þrír mánuðir. Vissulega væri slíkt æskilegt. Þetta fer þó ekki alveg saman við álit Landspítala – háskólasjúkrahúss sem telur ásættanlega bið eftir greiningu meðal fullorðinna vera á bilinu sex til átta mánuðir. Sá sem hér stendur er ekki í færum til að greina og gera upp á milli sjónarmiða fagfólks sem um þessi mál hefur fjallað.

Í þriðja lagi spurði hv. þingmaður hvaða vinna sé í gangi í velferðarráðuneytinu til að bregðast við bráðavanda sem við blasi vegna biðtíma eftir greiningu.

Þá vil ég nefna að fyrr á þessu ári var gerður samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans um þjónustu við fólk vegna gruns um athyglisbrest með ofvirkni. Samningurinn tekur til ítarlegrar greiningar fyrir 180–210 fullorðna einstaklinga og hópmeðferð í hugrænni athyglismeðferð sem er fyrir 20–30 einstaklinga á tólf mánaða tímabili. Biðlistar eftir greiningu fullorðinna, eins og hv. þingmaður nefndi, hafa ekki lengst að undanförnu. Þeir hafa heldur ekki styst. Til að stytta biðlistana þyrfti að grípa til tímabundinna úrræða til að vinna þá niður.

Að lokum var spurt hvaða vinna væri í gangi við að skilgreina betur ferlið frá skimun til endanlegrar greiningar, þ.e. með tilliti til verkaskiptingar stofnana, svo að einstaklingar í leit að aðstoð, foreldrar barna eða fullorðnir, þurfi ekki að finna út sjálfir hvar hjálp er að fá og lenda á biðlista í hverju skrefi.

Embætti landlæknis er að hefja athugun á greiningu á ofvirkni með athyglisbresti, bæði hjá börnum og fullorðnum, og væntanlega kemur eitthvað út úr slíkri vinnu og slíkri greiningu. Til viðbótar því hef ég undirbúið og það er í startholunum að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir þetta heildrænt varðandi börnin því að þetta snertir líka menntakerfið. Þá vil ég líka nefna að við bíðum eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á þessum málum. Ég bind vonir við að niðurstaða þeirrar úttektar muni gefa okkur gagnlegar upplýsingar um það hvernig við getum látið hlutina ganga betur en hingað til hefur gengið. Varðandi fullorðna einstaklinga hefur Landspítalinn sett vel skilgreind verkferli frá tilvísun læknis, skimun og að lokum greiningu.
Ég hef í þessum orðum mínum tæpt á svörum við þeim fjórum spurningum sem háttvirtur þingmaður beindi til mín í þessu efni.

 


Páll Valur Björnsson, Bjartri framtíð:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og fyrirspurn og þakka líka hæstvirtum ráðherra svör hans. Ég hvet hann eindregið áfram til að beita sér af fullum dampi í þessu máli til að reyna að leysa þennan vanda sem er greinilega gríðarlega mikill.
Eins og kom fram í fyrirspurn minni til hans um daginn um svipuð mál hvað varðar börn þá er þetta ein mesta heilsuógn og vá sem steðjar að nútímasamfélagi, ekki síst vegna þess að það hefur áhrif á svo ofboðslega marga aðra þætti. Við þekkjum öll fólk sem hefur átt í vandræðum með geðröskun og hefur fengið bót sinna meina eftir greiningu og meðferð. Það verður að segjast eins og er að það er gríðarlegur ávinningur fyrir íslenskt samfélag ef hægt er að koma fólki í greiningu og meðferð sem fyrst. Margir hafa mátt þola hörmungar í lífi sínu. Ég hef kynnst fólki sem hefur fengið meðferð, bæði lyfjameðferð og hugræna atferlismeðferð, og það er með ólíkindum hvað það hefur mikil og góð áhrif á líf þess.
Ég hvet hæstvirtan  heilbrigðisráðherra til að vinna áfram að þessum málum af fullum dampi.

 


Elsa Lára Arnardóttir, Framsóknarflokki:

Herra forseti. Snemmtæk íhlutun skiptir mjög miklu máli í þjónustu við einstaklinga sem hafa fengið greiningu af einhverjum toga. Þess vegna skiptir miklu máli að börn og einfaldlega allir fái þjónustu sem fyrst og komist í greiningu. Þess vegna fagna ég því að gefið hafi verið vel í aukalega til Þroska- og hegðunarstöðvar. Það mun skipta verulegu máli fyrir marga.
Þegar kemur að fullorðnum einstaklingum hef ég áhyggjur af stöðunni, en ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra sé að setja á fót starfshóp og farið verði í átak með samningi við sjúkratryggingar og Landspítalann um að 180–210 einstaklingar fái hugræna atferlismeðferð til að taka á þessum vanda. Ég hvet hæstv. ráðherra áfram til góðra verka í þessum málum.

 


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Samfylkingu:

Hæstvirtur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstvirtum heilbrigðisráðherra innilega fyrir greinargóð svör.
Ég tek undir með háttvirtum þingmanni, Páli Val Björnssyni að þetta er mjög brýnt mál. Ekki einasta skiptir þetta gríðarlegu máli fyrir lífsgæði þeirra sem í hlut eiga heldur skiptir þetta samfélagið í heild sinni miklu máli. Mjög margir sem enda í fangelsi eru með ógreint ADHD. Eins fólk sem leiðist út í alvarlega fíkniefnaneyslu og færi ekki aðstoð og leitast við að deyfa vanlíðan sína. Þau eru ýmis samfélagsmeinin þar sem orsökin er vangreint og vanmeðhöndlað ADHD.
Varðandi biðtímann. Við sjáum af báðum þessum viðmiðum, þótt mér finnist þriggja mánaða viðmiðið landlæknis hið eðlilega viðmið enda fer hann með eftirlitsskyldu í heilbrigðiskerfinu, að við erum langt frá þeim. Það þarf að gera betur. Það þarf tímabundið að setja meiri peninga í þetta.

Síðan held ég að ráðherra ætti að kanna hvort ástæða sé til að koma á ADHD-teymi á Norðurlandi til að þjónusta norðaustursvæðið, þá á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Ég vil hvetja ráðherra til þess að hafa ADHD-samtökin með í þeim starfshópi sem á að fara yfir þetta heildrænt. Þar brennur á. Þau samtök þekkja auðvitað best hvað þýðir að lifa við ógreint ADHD og hvar skórinn kreppir helst í þessum málum.
Annars vil ég aftur þakka fyrir greinargóð svör og lofa hæstv. ráðherra fullum stuðningi í vinnu að þessum málum.

 


Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki:

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni góð orð um mikilvægt mál. Ég tek þeirri brýningu sem hér er sett fram og sömuleiðis loforðum um stuðning við að vinna að úrbótum í þessu efni.
Ég vil einnig segja að það er oft og tíðum mikilvægt að reyna að koma auknum fjármunum til vinnslu í svona verkefnum, en það getur líka verið skynsamlegt að teikna upp betri greiningu og nýja verkferla áður en farið er að verðleggja verkefnin og berjast fyrir að ná fjármunum inn.

Ég vil enn fremur nefna að ég er meðvitaður um þá vankanta sem fylgja því að vera með langa biðlista hér og þar í kerfinu. Varðandi stöðuna sérstaklega í sambandi við ADHD þá ákvað ég einfaldlega að setja börn í forgang þegar ég var að leita að fjármunum til að koma inn í kerfið. Þar til ég sé fram á nýja digra sjóði, sem vonandi koma með birtu og yl næsta árs, hef ég látið þetta duga.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Það er full ástæða til að skoða þetta í stærra samhengi líka, jafnvel á Norðurlandi eða út frá stærri stofnunum, og hafa sömuleiðis samráð við fulltrúa sjúklinga eins og í ADHD-samtökunum þegar við ræðum lengri tíma stefnumótun.

Eins og háttvirtir þingmenn heyra á mér er ég enn að viða að mér upplýsingum. Ég bíð sömuleiðis og vil ítreka það eftir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar á fyrirkomulagi þessara þátta. Ég vænti þess að þar verði til ákveðinn grunnur fyrir okkur til að standa á um úrbætur.



Fleiri fréttir um biðlista og greiningar

Börnin látin bíða

Opið bréf til þingmann: Ég er heppinn - Ég var greindur

Börn eiga ekki heima á biðlistum

Ég er líka brjáluð!