Ekki vitað um fjölda barna með ADHD hér á landi

Ekki eru til tölur um fjölda barna sem greind eru með ADHD hér á landi þrátt fyrir fyrirmæli Landlæknis um að skráning á greiningunni sé skýr. Elín Hinriksdóttir, formaður ADHD samtakanna, segir brýnt að samræmd skráning verði skýr í lögum svo hægt sé að taka til hendinni í málaflokknum.

Fréttastofa Stöðvar 2 fjallaði um málið í fréttatíma í kvöld, 25. ágúst en fréttastofan hefur undanfarna daga fjallað um stöðuna í þjónustu við börn með ADHD.

Talið er að fimm til tíu prósent allra barna séu haldin ADHD eða ofvirkni með athyglisbresti. Þó um sé að ræða töluverðan fjölda er ekki til nákvæm skráning um fjölda barna sem greinast með ADHD hér á landi.

„Nú liggja ekki neinar tölur á lausu um það hversu mörg börn eru greind. Við höfum tölur frá til dæmis Þroska- og hegðunarstöð og öðrum opinberum stofnunum. En að sjálfsögðu erum við líka með sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem gera greiningar og þaðan vantar tölurnar. Þannig að við erum ekki með neina heildstæða tölu yfir hversu mörg börn þetta eru,“ segir Elín H. Hinriksdóttir, formaður ADHD.

„Að sjálfsögðu er það mjög slæmt mál því við viljum náttúrlega vinna með þessi börn. Og hvernig ætlarðu að vinna með hóp sem þú veist ekki hversu margir tilheyra? Það er mjög erfitt.“

Elín segir brýna þörf á að samræmd skráning á þessum greiningum verði skýr í lögum. Tölulegur gagnagrunnur sé grundvöllur þess að hægt sé að taka til hendinni í málaflokknum.

„Það eru tilmæli frá Landlækni að það skuli vera gert. Sumir gera það og sumir ekki.“

Hún segir að ef við berum okkur saman við nágrannalöndin vanti töluvert upp á þjónustuna við einstaklinga með ADHD.

„Ef við tölum til dæmis Danmörku sem við erum í góðu samstarfi við. Þar er staðan þannig að það er svona sirka mánuður í bið eftir greinngu. Ef þú færð ekki greinnigu hjá hinu opinbera eftir mánuð hefur þú rétt á að fara til sérfræðings úti í bæ og ríkið endurgreiðir það,“ segir Elín.

Til samanburðar getur heildarbiðtími barns eftir ADHD greiningu hér á landi verið allt að þrjú ár.

„Þeir hafa miklu fleiri úrræði. Þú færð sálfræðiþjónustu, þú færð svokallað „coaching“ sem þýðir það að þú færð einhvern sem að jafnvel kemur inn á heimilið og hjálpar með þessa erfiðu tíma með börnin. Þetta er náttúrulega sú þjónusta sem við viljum sjá hér.“

 

Frétt Stöðvar 2 um málið

Tengdar fréttir

Stöð 2 - 24. ágúst 2016: Mörg börn með ADHD í sambærilegum vanda og Ingibjörg Melkorka

Stöð 2 - 22. ágúst 2016: Hafði þá tilfinningu að hún myndi ekki lifa af að prófa e-töflu

Stöð 2 - 22. ágúst 2016: Vona að sagan hennar verði til þess að forða einhverjum frá því að prófa fíkniefni og enda á þennan hræðilega hátt


Senda póst til ADHD samtakanna