Enn spurt um biðlista

"Hyggst ráðherra hefja átak til að stytta biðlista eftir greiningu, m.a. hjá greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð?" ÞAnnig hljóðar hluti fyrirspurnar Elsu Láru Arnardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins og fulltrúa í velferðarnefnd Alþingis til Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra. Þingmaðurinn spyr ennfremur um aukið fjármagn til málaflokksins í þessu syni eða til annarra aðgerða í þágu barna sem bíða úrræða.

Fyrirspurn Elsu Láru er svohljóðandi:

1. Hyggst ráðherra hefja átak í að stytta biðlista eftir greiningu, m.a. hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Þroska- og hegðunarstöð?
2. Hyggst ráðherra bæta við fjármagni til að stytta biðlista eða beita sér fyrir annars konar aðgerðum og ef svo er, hvernig aðgerðum?

Tilefnið er líkt og áður, langir biðlistar eftir greiningum. Hundruð einstaklinga bíða nú greiningar og úrræða vegna ADHD og fylgiraskana. Á Þroska- og hegðunarstöð bíða nú á fjórða hundrað börn, þar af er hátt í þriðjungur í svokölluðum forgangi. Þroska- og hegðunarstöð hefur tekist að saxa hægt og bítandi á biðlistana með sérstöku átaki. Þó eru enn, eins og áður segir, á fjórða hundrað börn á biðlista. Ástandið er lítið skárra þegar kemur að fullorðnum einstaklingum en bið hjá ADHD teymi Landspítala er um 2 ár.

Biðlistarnir undirstrika svo ekki verður um villst hve slæm staða er í geðheilbrigðismálum Íslendinga. ADHD samtökin hafa ítrekað á síðustu árum bent á vandann en lítið þokast. Þingmenn úr öllum flokkum hafa þráfaldlega vakið athygli á ástandinu úr ræðustóli á Alþingi og innt ráðherra málaflokksins svara en hægt þokast. Engum dylst sá kostnaður sem af þessu hlýst, fyrir ríki og sveitarfélög og sætir furðu að ekki sé tekið á vandanum nú þegar.

 

Embætti landlæknis hefur ákveðið viðmiðunarmörk um það sem getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu. Eftirfarandi viðmið gilda:

 

  • Samband við heilsugæslustöð samdægurs
  • Viðtal við heilsugæslulækni innan 5 daga
  • Skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga
  • Aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu

 

Þrír mánuðir eru að mati landlæknis ásættanleg bið eftir sérfræðiþjónustu - ekki 8 X 3 mánuðir.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna benti fyrir nokkrum árum á ágalla í geðheilbrigðisþjónustu barna á Íslandi. Nefndarmenn höfðu meðal annars áhyggjur af löngum biðlistum eftir greiningu og meðferð. Mælst var til að geðheilbrigðisþjónusta við börn yrði efld og þeim tryggður betri aðgangur að greiningum og þeirri meðferð sem þörf væri á. Að auka ætti vægi sálfræðimeðferðar, efla fræðslu og félagsleg úrræði og styðja betur við foreldra og kennara (sjá gr. 38 og 39). Einnig má benda á að þetta ástand kemur illa saman við 3 gr. Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna sem er ein af grundvallargreinum sáttmálans.

Fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur til félags- og jafnréttismálaráðherra


Senda póst til ADHD samtakanna