Fullt hús á ADHD námskeiði Reykjavíkurborgar

Yfir 200 sóttu námskeið um ADHD frá leikskólum Reykjavíkurborgar.
Yfir 200 sóttu námskeið um ADHD frá leikskólum Reykjavíkurborgar.

Yfir 200 þátttakendur úr leikskólum Reykjavíkurborgar, tóku þátt í námskeiði ADHD samtakanna, sem haldið var þann 13. júní sl. á vegum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar – setið var í hverju sæti!

Námskeið var sérsniðið fyrir starfsfólk leikskóla og var haldið undir yfirskriftinni ADHD-Hvað getum við gert? Tilgangurinn var að efla þekkingu leikskólastarfsfólks og kennara á ADHD röskuninni og þeim áskorunum sem henni fylgja. Fjallað var m.a. um líðan barna, hagnýtar leiðir í kennslu og sjónrænt skipulag.

Fyrirlestrum Jónu Kristínar og Ingu var afar vel tekið.

Fyrirlesarar komu úr fremstu röð en það voru þær Jóna Kristín Gunnarsdóttir grunnskólakennari og hegðunarráðgjafi og Inga Aronsdóttir leikskólakennari og foreldraráðgjafi hjá Sjónarhóli -  ráðgjafamiðstöð. Var þeim vel tekið og mikil ánægja með námskeiðið.

 

 

ADHD samtökin þakka Reykjavíkurborg kærlega fyrir framtakið, sem er til mikillar fyrirmyndar og mun án nokkurs vafa stuðla að aukinni þekkingu á ADHD innan leikskólans sem og betri kennslu aðferðum til að koma til móts við börn með ADHD – og i raun, alla sem í leikskólunum eru.

Önnur sveitarfélög, einstakir leikskólar, grunnskólar eða framhaldsskólar, félagsmiðstöðvar, íþróttafélög eða aðrir sem vinna með börnum og ungmennum með ADHD geta að sjálfsögðu leitað til ADHD samtakanna um sérsniðinn námskeið af þessum toga og verður öllum slíkum óskum tekið vel – best er að senda póst á adhd@adhd.is

Þá bendum við tvö fjarnámskeið ADHD samtakanna sem sérstaklega eru sniðinn fyrir þá sem vinna með börnum og ungmennum í skólum, íþróttum og tómstundastarfi. Annarsvegar námskeiðið TÍA – tómstundir, íþróttir og ADHD og hinsvegar Skólinn og ADHD, sem er nýtt námskeið sérsniðið fyrir kennara og annað starfsfólk grunn- og leikskóla. Skráning stendur yfir á heimasíðu samtakanna.