Greiningarárátta og geðraskanir

"Skyldur stjórnvalda eru ótvíræðar á þessu sviði, skýrar leiðbeiningar, áætlun og stefnu skortir og sá langi biðtími sem einkennir þjónustuna er óviðunandi og líklegur til að hafa þungbærar og langvarandi afleiðingar. Ég skora á ráðherra að taka þessi skilaboð alvarlega og bregðast snöfurmannlega við", segir Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslunnar í grein á visir.is. Greinin ber yfirskriftina "Er ég með greiningaráráttu?" og er þar vitnað til ummæla ráðamanna um meintar ónauðsynlegar greiningar fagaðila vegna  þroska-, geð- og lyndisraskana barna og biðísta sem börn mega sæta.

Grein Gyðu Haraldsdóttur

"Ef marka má ummæli heilbrigðisráðherra á haustfundi sálfræðinga á síðasta ári eru ég og mínir nótar haldin greiningar­áráttu á háu stigi. Þessi árátta mín og fjölmargra annarra sérfræðinga á sviði geðheilbrigðis barna lýsir sér í því að við drögum að okkur fjölda barna og unglinga, framkvæmum á þeim ónauðsynlegar greiningar og hengjum svo á þau merkimiða um hinar ýmsu raskanir.

Er það raunin að svona megi skýra sívaxandi biðlista í geðheilbrigðisþjónustu barna? Það kemur væntanlega ekki á óvart að ég kannist ekki við þessa áráttu hjá sjálfri mér en kannski er innsýn mín í eigin vanda bara ekki nægileg. Orð ráðherra beindust þó ekki bara að mér persónulega, heldur vísuðu þau til þess fjölmenna hóps fagfólks sem starfar við að greina og veita meðferð við þroska-, geð- og lyndisröskunum barna á stofnunum eða í einkarekstri. Það er staðreynd, sem flestir þekkja núorðið af endurtekinni umfjöllun, að biðlistar geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn eru alltof langir og að æ fleiri börn bíða lengur og lengur eftir greiningu og viðeigandi meðferð.

Á tilgáta ráðherra við rök að styðjast, eða eru skýringarnar aðrar? Nú blasir við að biðlistar myndast þegar einstaklingar sem leita eftir þjónustu eru fleiri en mannaflinn ræður við að sinna. Minn vinnustaður, Þroska- og hegðunarstöð, er ein þessara þjónustustofnana sem eru að sligast af biðlistum. Börnum er vísað til okkar í sk. nánari greiningu þegar vandi þeirra í námi, skólasókn, hegðun, félagasamskiptum eða líðan er það alvarlegur að þau geta ekki notið sín í leik og starfi. Þau glíma við námserfiðleika, einbeitingarvanda, hvatvísi, erfiða hegðun, skerta félagsfærni, kvíða eða depurð sem ekki hefur tekist að ná tökum á þrátt fyrir að þegar hafi verið gripið til ýmissa úrræða. Áður hafa áhyggjur foreldra og kennara af erfiðleikum barns leitt til tilvísunar til sérfræðiþjónustu sveitarfélags ef ekki hafði tekist að ráða bót á vandanum með almennum úrræðum fyrsta þjónustustigsins.

Í frumgreiningu skólasálfræðings er námsstaða barnsins, félagsaðstæður, hegðun, félagsfærni og vitsmunastaða skoðuð með prófunum, áhorfi, matslistum og viðtölum. Þannig getur fengist skýring á vanda barnsins og niðurstöðurnar nýtast til að skipuleggja íhlutun. En þetta dugir ekki alltaf til. Í tilfellum þar sem frumgreiningin bendir sterklega til alvarlegs vanda þarf auk íhlutunar að vísa barninu í nánari greiningu. Sama á við þegar vandi barnsins viðhelst eða ágerist þrátt fyrir hjálparúrræði.

Tilgangur nánari greiningar er að svara því hvort barnið glími við tiltekna röskun eða ekki, þ.e. hver er líklegasta skýringin á viðvarandi vanda barnsins og hvaða orsakir má útiloka. Þetta þýðir jafnframt að hægt er að mæla með meðferð í takt við vanda barnsins og auka líkur á árangri. Ekki má heldur vanmeta gildi þess fyrir barnið sjálft og foreldrana að fá svör og skýringar á eðli vandans, að vita að þau eru ekki ein í þessu, þetta sé ekki þeim að kenna og að ýmislegt megi gera til hjálpar. Stóri vandinn er hins vegar sá að börn sem þurfa greiningu bíða alltof lengi og langur biðtími veldur vanlíðan og vanmáttartilfinningu allra hlutaðeigandi. Á meðan magnast vandinn og fleiri börn þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en ella.

Börn eiga ekki heima á biðlistum!
Þetta voru skilaboð ungmennaráðs UNICEF til heilbrigðisyfirvalda þegar þau mótmæltu með táknrænum gjörningi á biðstofu stöðvarinnar nú á dögunum. Skilaboðin í skýrslu ríkis­endurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu barna eru líka skýr. Skyldur stjórnvalda eru ótvíræðar á þessu sviði, skýrar leiðbeiningar, áætlun og stefnu skortir og sá langi biðtími sem einkennir þjónustuna er óviðunandi og líklegur til að hafa þungbærar og langvarandi afleiðingar. Ég skora á ráðherra að taka þessi skilaboð alvarlega og bregðast snöfurmannlega við."

Fréttavefur Vísis

Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar