Hætti að flýja sjálfan sig og fann frelsið

Við vekjum athygli á þessari frétt þar sem faraldsfræðilegar rannsóknir segja að líklegt sé að um 10.000 fullorðnir einstaklingar á Íslandi séu með ADHD en ekki er víst að allir hafi fengið greiningu. Jónas gæti verið einn þeirra. Þessi frétt var tekin hér af vef Fréttatímans í dag 21. júilí 2012: http://www.frettatiminn.is/daegurmal/haetti_ad_flyja_sjalfan_sig_og_fann_frelsid

Mynd/Svavar Pétur Eysteinsson Ljósmyndari: Svavar Pétur Eysteinsson.

Útbrunninn poppari og aðeins 22 ára gamall. Í þeim sporum stóð Jónas Sigurðsson eftir átján mánaða siglingu skemmtisveitarinnar Sólstrandagæjanna um sveitaballamarkaðinn á tíunda áratugnum. Hljómsveitin, sem aldrei átti að vera annað en brandari vina fyrir austan, varð landsþekkt. Tónlist þeirra gekk þvert á fyrirætlanir unga tónlistarmannsins sem vildi láta taka sig alvarlega sem listamann. Hann gekk burtu frá gleðisveitinni, frægðinni og hvarf úr sviðsljósinu í hálfan annan áratug.

„Ég var svo ósáttur. Mér fannst eins og mér hefði mistekist,“ lýsir Jónas þegar hann lítur um öxl og fer yfir ævi sína í gegnum síma frá Borgarfirði eystri þar sem hann ætlar að halda átján tónleika fram að tónlistarhátíðinni Bræðslunni. Það er til marks um vinsældir hans að nú hafa hátt í þúsund manns mætt á fyrstu átta tónleika hans á stað þar sem aðeins 140 búa.

Jónas hefur heldur betur látið að sér kveða eftir að hann ákvað að hætta að pukrast með tónlist sína í Danmörku og lét starf sitt þar hjá Microsoft fara lönd og leið; það þótt stöðuhækkun væri í vændum hjá tölvurisanum. Hann flutti heim og lét tónlistardrauminn rætast – enda er hamingjan hér. Hann hefur stigið inn í birtuna.

Fannst hann klúðra tækifærinu

„Ég var svo dómharður á sjálfan mig. Fannst eins og þarna með Sólstrandargæjunum hefði tækifærið sem ég hefði getað spilað einhvern veginn úr komið og ég væri búinn að klúðra því. Ég hefði fengið mitt breik og klúðrað því. Nú væri allt glatað.“ Jónas segist hafa verið fastur í neti gleðipopppsins.

„Já, þú ert þessi Jónas úr Sólstrandargæjunum, fékk ég oft að heyra. Ég komst hvergi. Ég reyndi og fór með demó til útgefenda en fékk þá að heyra: Já en Jónas, þetta er allt öðruvísi en Sólstrandargæjarnir! Ég var Jónas Sólstrandargæi. Þetta var mitt lífstrauma. Ég sem ætlaði að verða næsti John Lennon endaði sem Krusty the Clown,“ segir Jónas og hlær að þessum örlögum sem hann taldi sig svo lengi ekki geta fengið breytt.

„Ég upplifði að brenna upp og fara frá músíkinni. Ég fór burt frá öllu sem mig langaði að gera í tónlist, eins og ég væri bara útbrunninn.“

Það var þó vart erfið ákvörðun á þessum tíma fyrir ungan mann að sleppa frystihússstarfinu í Þorlákshöfn fyrir upphitunarhlutverkið hjá stórsveitinni Síðan Skein Sól á sveitaböllum. Yngstur þriggja systkina ólst hann þar upp þótt hann hafi klárað grunnskólanámið á Eiðum fyrir austan. Síðan lá leiðin í Menntaskólann á Egilsstöðum og svo aftur á heimaslóðir og í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem hann kynntist ástinni og var nýorðinn faðir þegar Sólstrandarævintýrið brast á. Lögin sem hann hafði spilað með félögunum fyrir austan lifðu í partýum eftir að hann hvarf þaðan, svo þeir ákváðu að gefa þau út.

„Það var frábært að þurfa ekki að fara í skítugan frystihúsgallann og geta keyrt um á rútu,“ segir hann og hlær. „Þetta var áhugaverð reynsla. Ég var að verða 21 árs þegar þetta varð svona stórt og frægt. Það var ofboðslega gaman og óvænt. Allt í einu verður þetta lag; Rangur maður, svona vinsælt. Hljómsveitin sem ég var í og átti að vera grín þvældist um landið og partýið var endalaust. Svo kárnaði gamanið fljótt. Ég var ekki tilbúinn í þetta þá,“ segir Jónas.

Keyrði sjálfan sig í þrot

„Sumir valda þessu hlutverki mjög vel en það gerði ég ekki,“ segir hann þegar hann lítur nærri tvo áratugi aftur. „Ég er ofur virkur og hefði líklegast verið greindur ofvirkur með athyglisbrest ungur í dag. Svo við þessar aðstæður fór hausinn á yfirsnúning,“ segir hann.

„En það sem verra var, af því að þetta átti að vera grín og ég hafði ætlað mér að gera miklu meira þá átti ég erfitt með að höndla þá gagnrýni sem tónlistin fékk. Og margir gagnrýndu tónlistina mjög harkalega og mörgum fannst lítið varið í hana,“ segir Jónas hreinskilnislega: Stóru draumarnir tróðust undir í rússíbanareiðinni.

Á meðan beið kærastan með ungabarn þeirra heima. „Konan mín hefur sýnt mér skilning í gegnum tíðina. Við vorum bæði krakkar að reyna að vera eins og fullorðið fólk er. Við vorum að reyna að halda heimili. Svo var ég alltaf í einhverri rútu að spila. Heimilið gjörsamlega gjaldþrota,“ segir hann og lýsir því hvernig ungir, frægir menn tóku stórar ákvarðanir.

„Við vorum svo geggjaðir og settum allt í þrot. Við Ummi [Guðjónsson, tónlistarmaður og stofnandi Sólstrandargæjanna] vinur minn vorum alltaf í uppreisn og markmiðið var alltaf að gera meira rugl. Þegar fór að ganga vel gerðum við einhverja plötu sem var algjör sýra, keyptum rútu og geimverubúninga. Við vorum algjörlega gengnir af göflunum,“ segir Jónas og hlær. „Við steyptum okkur í gríðarlega skuldir.“

Tók sig of alvarlega

Jónas lítur þetta tímabil allt öðrum augum í dag en þá. „Ég held maður þurfi ekki að taka sig svona rosalega alvarlega og ég gerði þarna. Kannski hefði ég þurft að geta hlegið aðeins meira að þessu og haldið áfram,“ segir hann um þennan átján mánaða túr. „Ég var búinn á því. Ég var kvíðinn, fannst jafnvel erfitt að fara út í sjoppu. Þar væru kannski einhverjir krakkar sem færu að biðja mig um að spila Rangur maður,“ segir hann glettinn og viðurkennir að hann hafi ekki upplifað kvíðann þarna í fyrsta sinn.

„Ég hef alltaf haft í mér kvíða og fælni. Alveg frá því að ég var lítill – og tendensa að vera þungur í skapi. Stundum líður mér vel og stundum ekki. Við þetta ferli fór þetta allt sterkt í gang hjá mér,“ segir hann. „Ég held að ástæðan hafi verið þessi togstreita: Vera ekki tilbúinn að standa með því sem maður var að gera.“

Hann setti tónlistina á hilluna í nærri tíu ár. „Fyrst fór ég aftur til Þorlákshafnar og á sjóinn. Ég fór aftur að vinna í frystihúsinu. Fór í bæinn og að vinna við að líma saman skrifstofustóla í límklefa. Þar gat ég verið einn og hlustað á Gufuna allan daginn – já og Tvíhöfða.“ Endrum og eins spilað Jónas svo á gítarinn. „Fór þá og trúbaði. Það var svona tilraun til að fara út. En ég þorði ekki að spila mitt efni.“

Flúði sjálfan sig til Danmerkur

Fyrir tíu árum ákvað Jónas að bæta við kerfisfræðinám sitt úr Háskólanum í Reykjavík og flutti til Danmerkur. „Mér leið ekki vel. Ég var frekar þungur. Þá er hið klassíska, íslenska svar við því að flytja til útlanda. Þá fer maður til Danmerkur. Þar leið mér fyrst betur. Ég fékk frelsistilfinningu og hugsaði að hérna gæti ég gert allt. Hérna gæti ég gert músíkina mína.“ Þar var auðvelt að lifa í núinu á meðan allt í kringum hann var nýtt.

„En þegar allt er orðið kunnuglegt aftur er eins og það myndist pláss fyrir allt ruglið í hausnum á manni. Þá byrjar allt að hellast yfir mann. Aftur á móti var svo mikill tími og pláss. Við fjölskyldan bjuggum í úthverfi Kaupmannahafnar og höfðum endalaust rými. Mig langaði að verða frjáls og ég ákvað að finna út úr því með öllum tiltækum ráðum. Ég hafði náð ákveðnum botni. Ég vaknaði með mikinn kvíða. Þurfti að fara í göngutúr til þess að hugsa og koma mér í gang. Ég ákvað að setja allt til hliðar og einbeita mér að því að vera frjáls.“

Leitaði til Vísindakirkjunnar

Á meðan hausinn var á harðaspretti var Jónas í toppvinnu hjá Microsoft. Með nægan frítíma setti hann allar forritunarbækur sínar til hliðar og pantaði þrjá kassa af andlegum bókum beint frá Amason. Í leit sinni sótti hann meðal annars námskeið hjá Vísindakirkjunni, sem svo mjög er í sviðsljósinu um þessar mundir.

„Upplifunin var í upphafi sem þeir vildu hjálpa, en svo fannst mér þegar leið á að þeir notfærðu sér veikleika fólks. Þú ert alltaf spurður þegar þú ert að fara: Hvenær kemur þú næst? Þú ert látinn lofa. Ég var þarna í nokkrar vikur á námskeiðum. Svo hætti ég. Í meira en tvö ár á eftir voru þeir að hringja í mig tvisvar í viku. Ég upplifði þetta sem afskiptasaman sértrúarsöfnuð,“ segir hann.

„Ég fór út um allt og á alls konar fundi: Hugleiðsluhópa og annað. Það er ofboðslega mikið líf í andlega heiminum í Danmörku,“ segir hann um vegferð sína að frelsi en þar kynntist Jónas ýmsu fallegu og gefandi.

„Ég byrjaði að iðka hugleiðslu. Ég prófaði að kyrja, möntrur. Svo lærði ég seinna TM-hugleiðslu sem er mjög effektíf. Svo fór ég að lesa mikið af andlegum bókum. Ég fór að stunda hugleiðslu í tengingu við náttúruna; eins og bænir – bæn án þess að þar séu trúarbrögð að baki. Trúarbragðalausar bænir,“ segir hann.

„Smátt og smátt fara að gera vart við sig ótrúlegar tilviljanir sem ég á erfitt með að útskýra. Fólk fór að detta inn í mitt líf óvænt. Eins og allt í einu dettur inn maður frá Ísrael sem heyrir demó frá mér og hefur trú á mér sem tónlistarmanni og vill fjármagna fyrstu plötuna mína. Og þannig, koll af kolli, detta menn inn í þetta.“

Neikvæð fortíð verður jákvæð

Að lokum bægði Jónas hræðslunni við að opinbera tónlist sína frá. „Lögin mín er mjög persónuleg og einlæg og ég þorði ekki að standa upp og segja þetta allt. Það er þægilegra að vera kúl og fela sig á bakvið dulkóðuð orð en að tala frá hjartanu,“ segir hann.

„En ég hef fengið að upplifa það að taka þessa hluti sem ég hef verið að berjast við – sem er þessi sársauki og ég taldi áður neikvæðan – og sjá þá snerta annað fólk og verða að einhverju jákvæðu afli. Þeir snerta aðra sem hafa upplifað svipaða hluti. Þetta neikvæða sem ég upplifði áður er því orðið að eldsneyti og í rauninni orðið að einhverju fallegu. Það er ótrúlegt,“ segir hann. „Þessi ákvörðun sem ég tók (leitin að frelsinu) breytti vegi mínum.“

Segja má að Jónas hafi verið í vari í Danmörku þegar fyrsta platan kom út. Hann gat flogið út yrðu dómarnir harðir. En þeir reyndust góðir. „Næsta skref hjá mér var því að koma heim og kýla á þetta, setja allt í músíkina.“ Hann vinnur nú sem hönnuður tölvukerfa sprotafyrirtækisins Gagnavörslunnar meðfram tónlistinni.

Afþakkaði Microsofts-frama

„Mér gekk rosalega vel hjá Microsoft. Var kominn í leiðtogaþjálfunarprógram, var á leiðinni að vera færður upp og hefði þá getað flust til Bandaríkjanna. En þessi andlega vitrun var farin að vaxa innra með mér og ég skynjaði tilgangsleysi þess að vinna fyrir stórfyrirtæki – þó að egóið segði: Vá, gaman að vera stór kall hjá Microsoft, sagði hjartað mér að þetta væri tilgangslaust. Þannig að ég ákvað að fara heim og setja allt á fullt í músíkinni,“ segir hann og tók þá ákvörðun að vinna aðeins hjá sprotafyrirtækjum með hugsjónir að leiðarljósi.

„Eftir að ég flutti heim hef kynnst mörgum í gegnum músíkina, fólki eins og mér sem pælir ekki bransanum heldur elskar að skapa. Það hefur, í gegnum ótrúlegar tilviljanir, dregist að verkefnum mín. Þetta fólk er ástæða þess að mér hefur gengið vel,“ segir hann.

Reynslan sem gimsteinn

Nú á beinu brautinni myndi Jónas ekki vilja breyta fortíðinni. „Einu sinni sá ég svo eftir þessum árum þar sem mér fannst ég svolítið týndur og hafa setið fastur. En núna finnst mér þessi reynsla vera eins og gimsteinn. Ef maður nær að vinna sig í gegnum svona hluti, verður þetta að reynslu sem er dýrmæt. Ég hef hluti að segja sem ég hefði ekki haft hefði ég ekki fengið að upplifa þetta.“ Hann hefur fundið lausn á rótleysi og óróleika hugans, sem hafi alltaf blundað í honum: „Ég þurfti að fara þessa leið.“

Jónas er nú aftur á heimleið – heim til Þorlákshafnar, þar sem himinn ber við haf. Þó ekki til að fela sig frá sjálfum sér. Hann er að gera þriðju plötuna og hefur kallað til lúðrasveitina sem hann var í þrettán, fjórtán, fimmtán ára og tónlistarhóp móður sinnar, vinkvenna og gamalla kennara, sem kallast Tónar og trix. Meira brass-blásin tónlist, meiri kraftur er í vændum frá þessum tónlistarmanni, sem hefur heillað landann í annað sinn og þakkar lífsbókinni lexíuna. „Mig langar að loka hringnum.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
gag@frettatiminn.is