Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna 2022

Á mynd frá vinstri til hægri; Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD Samtakanna, Ásgeir Pétursson, Sty…
Á mynd frá vinstri til hægri; Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD Samtakanna, Ásgeir Pétursson, Styrmir Magnússon og Ólöf Birna Sveinsdóttir fulltrúar KFUM/K og Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á málþingi ADHD samtakanna er nefnist „Þú ert númer 1250 í röðinni...“ og haldið var 27. október á Grand Hótel voru afhent Hvatningaverðlaun ADHD samtakanna og voru KFUM/K þess heiðurs aðnjótandi. Hvatningarverðlaunin eru árlegur viðburður og veitt hverjum þeim sem með mikilsverðum hætti hefur lagt sitt af mörkum til bæta lífsgæði fólks með ADHD á Íslandi. Verðlaunin má veita til einstaklinga, félagasamtaka, stofnanna, fyrirtækja eða hverskyns lögaðila. Ólöf Birna Sveinsdóttir, Ásgeir Pétursson og Styrmir Magnússon veittu verðlaununum móttöku fyrir hönd KFUM/K. Hér að neðan er úrdráttur úr ræðu formanns við veitingu verðlaunanna.

Á síðasta ári voru hvatvingarverðlaunin veitt í fyrsta sinn. Þau hlaut Urður Njarðvík, prófessor við Háskóla Íslands, sem svo sannarlega var vel að viðurkenningunni komin vegna rannsóknarstarfa sinna sem beinst hafa að því að bæta hag barna og fullorðinna með ADHD.  

Þetta árið ákvað stjórn ADHD samtakanna að horfa til annara þátta. Börn og unglingar með ADHD glíma í mörgum tilvikum við lágt sjálfsmat, skerta félagslega færni og fleira sem t.d. getur komið í veg fyrir að þau njóti sín í fjölmennu tómstundastarfi eða leik með jafnöldrum. Yfir vetrartímann hafa ADHD samtökin sem og aðrir aðilar staðið að margvíslegum námskeiðum sem vinna með þessa þætti. Á sumrin hefur framboð á slíku starfi þó verið takmarkað. 

Undantekning hér á er það mikla frumkvöðlastarf sem rekið hefur verið í Vatnaskógi undir merkjunum „Stelpur í stuði“ og „Gauraflokkur.“ Frá árinu 2007 hefur KFUM/K staðið fyrir sumarbúðum fyrir stráka og stelpur með ADHD og skyldar raskanir. Þar skapaðist tækifæri fyrir mörg börn að fara í sumarbúðir á eigin forsendum þar sem þeim er mætt á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Áhersla hefur frá upphafi verið lögð á að mæta þörfum þessara barna á sem bestan hátt og koma á móts við þær áskoranir sem börnin mörg hver glíma við í daglegu lífi. Í því samhengi hefur verið stuðst við ráðleggingar fagfólks við skipulagningu sumarbúðanna til að gera dvöl barnanna eins ánægjulega og auðvelda og hægt er, s.s. með því að aðlaga hefðbundna dagskrá sumarbúðanna, þjálfa starfsfólk ásamt að viðhafa skilgreind viðbrögð og aukin sveigjanleika í nálgun við börnin.  

Það er virðingarvert að hafa farið af stað með verkefni sem þetta sérstaklega fyrir börn með ADHD og hvatning til annara sem starfa á vettvangi barna hvort sem er innan skólakerfisins eða í samhengi við íþrótta- eða tómstundarstarf.  

Jafnframt má þess geta að ýmislegt úr þessu starfi KFUM/K er hluti að þeim grunni sem mótaði námskeiðaröð ADHD samtakanna – Tían – þar sem starfsfólk tómstunda- og íþróttahreyfinga fá sérstaka kennslu gagnvart því að vinna með krökkum með ADHD og skyldar raskanir. 

Nú 15 árum síðar hafa fleiri aðilar fylgt fordæmi KFUM/K, svo sem sumarbúðir Reykjadals í Háholti og óskandi að framboðið eigi bara eftir að aukast. 

Fyrir hönd ADHD samtakanna er mér sönn ánægja kynna KFUM/K sem handhafa hvatningaverðlauna samtakanna árið 2022, fyrir „Gauraflokk“ og „Stelpur í stuði.“ Nú bið ég Heiðu Björgu Hilmisdóttur, formann sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúa að aðstoða við að afhenda fulltrúum KFUM/K heiðursskjali þessu til staðfestingar, ásamt málverki eftir Hallgrím Helgason sem listamaðurinn lagði til í tilefni dagsins. 

Verðlaunin eru veitt annað árið í röð og má hér sjá frétt um verðlaunaafhendinguna á síðasta ári en þau hlaut Urður Njarðvík dr. í sálfræði fyrir rannsóknir sínar í þágu einstaklinga með ADHD. https://www.adhd.is/is/moya/news/fyrstu-hvatningarverdlaun-adhd-samtakanna