Fyrstu hvatningarverðlaun ADHD Samtakanna

Frá vinstri til hægri á mynd: Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD Samtakanna. Urður Njarðvík, próf…
Frá vinstri til hægri á mynd: Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD Samtakanna. Urður Njarðvík, prófessor og handhafi verðlaunanna. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Á málþingi ADHD samtakanna, sem ber undirskriftina Orkuboltar og íþróttir, voru veitt fyrstu hvatningarverðlaun samtakanna en handhafi þeirra er Urður Njarðvík, prófessor við Háskóla Íslands. Urður lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1993, meistaragráðu í klínískri barnasálfræði við Louisiana State University 1997 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2000. Hún lauk jafnframt kandidatsári í klínískri barnasálfræði frá Johns Hopkins University Medical School árið 2000.

Að loknu námi starfaði Urður sem sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) þar sem hún kynntist vel börnum með ADHD og foreldrum þeirra. Samhliða starfi sínu á BUGL var Urður stundakennari við Háskóla Íslands. Hún var síðan ráðin lektor við Sálfræðideild árið 2008, dósent frá 2013 og prófessor frá 2019.

Allt rannsóknarstarf Urðar á sviði ADHD beinist að því að bæta hag barna og fólks með ADHD. Leiða í ljós hvernig ADHD tengist öðrum geðrænum vanda og hegðun. Benda á atriði sem leita eftir þegar greiningar eru gerðar og finna bestu stuðnings- og meðferðarleiðir. Rannsóknir Urðar hafa m.a. beinst að kvíða hjá börnum og leitt í ljós að börn með ADHD eru sérstaklega útsett fyrir kvíða.

Urður er því félögum í ADHD samtökunum að góðu kunn og hefur margsinnis haldið fyrirlestra á vegum samtakanna, á málþingum og námskeiðum. Hún hefur verið óþreytandi að fræða bæði fagfólk og almenning um ADHD, og auka þannig skilning á ADHD og þörfum fólks með ADHD, einkum barna með ADHD og vinna þannig gegn fordómum tengdum ADHD. Urðar hefur m.a. beint sjónum sínum að þyngdarvanda barna, einhverfu og ADHD og fleiri fylgiraskana, þá ekki síst kvíða og þunglyndi.

2018 hélt Urður fyrirlestur á málþingi samtakanna rannsóknir sínar sem leiddu skýrt í ljós samspil kvíða og hegðunarvanda. Til dæmis að barn sé kvíðið yfir að opinbera eigin veikleika eina leiðin sem barnið sér út úr þessum vanda er mótþrói. Þetta verður að vítahring sem endað getur í félagslegri jaðarsetningu. Jafnframt hefur Urður sýnt framá að kvíði meðal drengja með ADHD, er mun algengari en talið hefur verið, sem gæti líklega skýrt að talsverðu leyti hve mótþrói er algengur meðal drengja. Þessi sýn á mótþróa barna getur gjörbreytt viðhorfi til barna með erfiða hegðun. Til að bregðast við mótþróanum er ekki rétta leiðin að refsa, heldur hughreysta, hvetja og hjálpa.

Þá verður að nefna nýja rannsókn Urðar sem hún kynnti í fyrirlestrinum „Með storminn í fangið, „Áhrif samkomubanns á líðan barna með ADHD og foreldar þeirra.“ Þar varpar Urður ljósi á að samkomubannið hafi haft afar neikvæð áhrif á líðan barna með ADHD sem og fjölskyldna þeirra. Tilfinningavandi, kvíði og depurðareinkenni barna jukust marktækt og mældust yfir 50%. Sama var með líðan foreldra þeirra. Þessi börn og fjölskyldur þeirra munu þurfa á verulegri aðstoð að halda á komandi mánuðum og árum. Sem þýðir, ef að líkum lætur, auknar áskoranir fyrir ADHD samtökin og samfélagið allt.

Urður Njarðvík er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin og sem þakklætisvott veittu samtökin henni heiðursskjal þess til staðfestingar ásamt listaverki eftir Tolla, sem listamaðurinn lagði til í tilefni þessara fyrstu hvatningarverðlauna ADHD samtakanna. Þess ber að geta að Tolli hefur sjálfur unnið lengi með föngum en rannsóknir hafa sýnt fram á það að meginþorri fanga er með einhverja framheilaskerðingu.