Laddi: Ég var með athyglisbrest, sem þá var kallað að vera tossi

Mynd: H.Howser
Mynd: H.Howser

Eftirfarandi viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Ladda birtist í Morgunblaðinu 26.maí 2013

Hef ekki mikið sjálfstraust

"Ég er að opna mig á þann hátt sem ég hef aldrei gert áður. Strákarnir, Sigurður Sigurjóns og Karl Ágúst sem sömdu einleikinn með mér töluðu um það í upphafi að ég ætti að opna mig í þessari sýningu. Ég var ekki alveg til í það, fannst það eitthvað skrýtið og var hræddur um að verða væminn. Svo prófaði ég að opna mig fyrir þeim. Við settum það allt á blað og svo dró ég aðeins úr því sem ég hafði sagt þar til ég var orðinn sáttur. Það var skrýtið að tala um erfiða hluti á æfingatímabilinu, eins og til dæmis það að ég er skilnaðarbarn og var þriggja ára þegar pabbi fór. Ég hef aldrei talað um þetta áður, ekki einu sinni í viðtölum en geri það nú á sviði. Mig hefur reyndar oft langað til þess að standa á sviði sem ég sjálfur og vera eðlilegur en ekki byggja allt á skrípakarakterum sem er svo auðvelt," segir Ladd - Þórhallur Sigurðsson, í einlægu og opinskáu viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu. 

Í viðtalinu ræðir Laddi meðal annars um sjálfan sig og æsku sína og það mikla óöryggi sem hann þjáðist af.

"Ég þjáðist af mikilli feimni og minnimáttarkennd sem ég hef að hluta ekki alveg losnað við. Fólki finnst mjög skrýtið að ég skuli ekki vera kominn með mikið sjálfstraust, sem ég hef alls ekki. Þegar ég ákveð að koma fram á sýningum segir fólk í kringum mig: „Já, það verður allt troðfullt“ en ég segi: „Nei, ég held að núna sé velgengninni lokið. Hver nennir að sjá mig endalaust?“

Þetta óöryggi hófst í æsku, kannski út af skilnaði foreldra minna. Við bræðurnir vorum fjórir og við skilnaðinn fóru tveir þeir elstu með pabba austur í sveit þar sem hann gerðist hrossabóndi en Hemmi bróðir minn var eftir með mér hjá mömmu. Ég var mikill mömmustrákur og mátti ekki af henni sjá því ég var svo hræddur um að hún færi líka. Krakkarnir stríddu mér á því að ég ætti ekki pabba en ég bjó til ævintýralegar sögur um pabba sem væri uppi í sveit og ætti milljón hesta. Mamma var ein með okkur tvo bræðurna, við vorum nokkuð fátæk og ég var ekki í flottasta klæðnaðinum og það var verið að stríða mér. Með stríðninni fór að bera á feimni og minnimáttarkennd sem ágerðist.

Ég var stöðugt að breiða yfir þetta óöryggi með alls konar fíflalátum. Í skólanum var ég aldrei ég sjálfur, heldur alltaf einhver karakter. Ef ég var kallaður upp á töflu, sem mér fannst alveg skelfilegt, þá brást ég við með því að búa til karakter og lét eins og fífl og var rekinn í sætið aftur. Ég var með athyglisbrest, sem þá var kallað að vera tossi, og var í tossabekk. Ég var með hugann alls staðar annars staðar en við námið. Ég var farinn að halda að ég gæti ekki lært og það var ekki fyrr en ég ákvað að fara í Iðnskólann sem mér fór að ganga vel í námi. Þá var ég að læra fyrir sjálfan mig. Um leið áttaði ég mig á því að ég væri kannski ekki svo vitlaus og öðlaðist meira sjálfstraust.

Lesa viðtalið í heild