Spyr um villur í lyfjagagnagrunni landlæknis

Hvernig er háttað villuprófun og almennri gæðavöktun á lyfjagagnagrunni embættis landlæknis ? Hvaða skýringar eru á ofskráningu á ávísunum á amfetamíntöflum í lyfjagagnagrunninum á tilteknu tímabili og hvers vegna var því máli lokað án fullnægjandi skýringa? Þannig spyr Smári McCarthy, þingmaður Pírata Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra. Tilefnið er villa sem uppgötvaðist í lyfjagagnagrunni landlæknis. Fyrirspurninni verður svarað munnlega á Alþingi í dag, mánudaginn 27. mars.

Lyfjastofnun gerði í mars 2016 athugasemdir við villuna og óskaði skýringa. Í minnisblaði til heilbrigðisráðherra haustið 2016 lýsti Lyfjastofnun verulegum áhyggjum af gæðum gagna í lyfjagagnagrunni landlæknis og taldi ekki hægt að fullyrða að villurnar hefðu aldrei ógnað öryggi einstakra sjúklinga. Því andmælti landlæknir og fullyrti að strax hefði verið brugðist við og villurnar lagaðar. Í minnisblaði til forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, dagsett í janúar 2017 kemur hins vegar fram að enn eru villur í fyrirspurnakerfi lyfjagagnagrunnsins og því ekki hægt að treysta upplýsingum úr grunninum.

ADHD samtökin hafa ítrekað gagnrýnt þá neikvæðu umræðu sem haldið hefur verið úti, m.a. af starfsmönnum Embættis landlæknis,  um lyf sem einstaklingar með ADHD nota. Þær umræður grundvallast oftar en ekki á upplýsingum úr áðurnefndum lyfjagagnagrunni landlæknis. Því hlýtur að vera eðlilegt að velta fyrir sér hversu réttmæt sú umræða starfsmanna landlæknis er og ekki síður hver staða þeirra fjölmörgu rannsóknarverkefna er, sem háskólanemar hafa unnið og byggja á upplýsingum úr lyfjagagnagrunni landlæknis að hluta til eða í heild.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata Leggur fram fjórar spurningar til heilbrigðisráðherra.

  1. Hvernig er háttað villuprófun og almennri gæðavöktun á lyfjagagnagrunni embættis landlæknis ?
  2. Hvaða skýringar eru á 10.000 taflna ofskráningu á ávísunum á amfetamínsúlfat í lyfjagagnagrunni embættis landlæknis á tímabilinu september 2015 til mars 2016, sem voru síðar innkallaðar í mars 2016?
  3. Hvaða skýringar eru á því að embætti landlæknis lokaði málinu haustið 2016 með 1.985 taflna ofskráningu enn óútskýrða?
  4. Eru frekari of- eða vanskráningar enn óútskýrðar hjá embætti landlæknis? Ef svo er, hvert er umfang þeirra og um hvaða lyf er að ræða?
Áformað er að fyrirspurnin verði tekin fyrir á Alþingi í dag, mánudaginn 27. mars.