Starfshópur um meðferð og þjónustu við börn með ADHD

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir umgjörð varðandi þjónustu, meðferð og stuðning við börn með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD) og skyldar raskanir. 

Hópnum er ætlað að gera yfirlit yfir greiningar á ADHD meðal barna á fyrsta þjónustustigi og yfirfara þjónustuferli við börn með þessar greiningar á fysta öðru og þriðja þjónustustigi. Einnig að kanna flæði og samvinnu kerfa og þjónustustiga og bið eftir þjónustu á hverju stigi, greina veikleika og helstu hindranir og leggja mat á hvaða aðgerðir gætu helst stuðlað að úrbótum.

Starfshópurinn á einnig að greina kostnað við núverandi þjónustu á öllum þjónustustigum, hvernig hann skiptist á milli þjónustuveitenda og þjónustuþega, leggja mat á hvernig núverandi þjónusta mætir þörfum barna með ADHD, áætla þörf fyrir þjónustu á næstu árum og setja fram tillögur um aðgerðir ásamt kostnaðargreiningu.

Starfshópurinn skal hafa víðtækt samráð við aðra hlutaðeigandi s.s. Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, Barnaverndarstofu, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Umhyggju og aðra eftir atvikum.

Áætlað er að hópurinn skili niðurstöðum í september 2016.

Starfshópinn skipa:

Hafrún Kristjánsdóttir, án tilnefningar, formaður
Björk Óttarsdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneytinu
Gyða Hjartardóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, án tilnefningar
Þröstur Emilsson, tiln. af ADHD-samtökunum
Starfsmaður hópsins er Karl Frímannsson

Vefur velferðarráðuneytisins