30% ungra fanga með ADHD

Susan Young /MYND:Árni Sæberg
Susan Young /MYND:Árni Sæberg

Áætla má að 30% þeirra ungmenna sem sitja í fangelsum séu með athyglisbrest og ofvirkni eða ADHD. Þegar kemur að fullorðnum föngum eru um 26% með ADHD en fangar með ADHD eru yngri að meðaltali en aðrir þegar þeir hljóta í fyrsta sinn dóm. mbl.is greinir frá.

Þetta kom fram í máli Susan Young, dósents í klínískri réttarsálfræði og gestaprófessors við Háskólann og Reykjavík, sem kynnti í dag nýlegar rannsóknir á ADHD og afbrotahegðun ásamt Gísla H. Guðjónssyni, prófessor í sálfræði, á málstofu í HR.

Young sagði að réttarkerfið og nútíma yfirheyrsluaðferðir reyndust fólki með ADHD illa enda krefst ferlið frá handtöku mikillar athygli þess einstaklings sem sakaður er um glæp.

Samkvæmt Young eiga einstaklingar með ADHD það til að bægja frá sér álagi við yfirheyrslu með því að fara í baklás og segjast ekki vita svör við spurningum lögreglufólks, jafnvel þegar um er að ræða upplýsingar sem greinilegt er að viðkomandi ætti að vita. Slík hegðun getur hins vegar verið túlkuð sem svo að viðkomandi sé að reyna að koma sér undan því að svara sem seint telst málsvörn grunaðs einstaklings til tekna.

Gísli tekur undir með Young og segir fræðslu um ADHD ábótavant meðal lögreglumanna enda séu þeir líklegir til að draga óheppilegar ályktanir af hegðun einstaklings sem ekki getur setið kyrr.
„Það þarf fræðslu innan skólanna, innan lögreglunnar og innan fangelsanna til að þeir sem sinna þessum einstaklingum skilji betur hegðunina. Gísli H Guðjónsson segir börn með ADHD viðkvæmari fyrir vímuefnum og slæmum félagsskap en önnur.
Gísli H Guðjónsson segir börn með ADHD viðkvæmari fyrir vímuefnum og slæmum félagsskap en önnur.
"Oft eru þetta ekki einstaklingar sem vilja hegða sér illa, þeir vilja haga sér vel en ráða ekki við sig og það er það sem fólk þarf að vera meðvitað um.“

Játa þrátt fyrir sakleysi

Gísli hefur rannsakað tengsl ADHD, vímuefna og afbrota hjá íslenskum ungmennum síðastliðinn áratug. Nýjustu rannsóknir hans snúa að fölskum játningum og hafa þær sýnt að mikil fylgni er milli falskra játninga og ADHD.

Yfir 22 þúsund nemendur í íslenskum grunn- og framhaldsskólum svöruðu könnun sem ætlað var að leiða í ljós tengsl falskra játninga við ADHD og hegðunarraskanir. Í ljós kom að 48,5% þeirra svarenda sem höfðu einkenni ADHD og voru á lyfjum við röskuninni höfðu verið yfirheyrðir af lögreglu og að 40,2% þess hóps höfðu gefið falska játningu.

Niðurstöðurnar benda til að hegðunarraskanir og afbrotahegðun séu helstu ástæður þess að ungt fólk sé yfirheyrt af lögreglu en að við yfirheyrslu séu einstaklingar með ADHD líklegri til að játa á sig brot sem þeir hafa ekki framið.

„Til þess að fyrirbyggja falskar játningar er best að reyna að koma í veg fyrir að þessir einstaklingar lendi í slæmum félagsskap eins og afbrotahópum eða byrji að reykja, drekka eða nota vímuefni,“ segir Gísli.

Niðurstöður könnunar sem Gísli og teymi rannsakenda hjá HR lögðu fyrir börn í eldri bekkjum grunnskóla á Íslandi, sýndu að einkenni ADHD gáfu skýrari vísbendingar um reykingar, áfengis og vímuefnaneyslu barnanna en einkenni kvíða, þunglyndis eða uppreisnargirni.

„Forvarnir eru náttúrlega besta leiðin til að hjálpa fólki með ADHD. Það þarf að hjálpa því þegar það er ungt og leik- og grunnskólar þurfa að hafa tækifæri til að kynna sér einkennin svo hægt sé að greina börnin og veita þeim meðferð,“ segir Gísli.
Hann segir erfiðara að hjálpa fólki þegar það er þegar komið á glapstigu og að fólk leiðist oft út í vítahring glæpa og fíkniefna, því þurfi að koma í veg fyrir hann frá upphafi.

Vefur mbl.is