Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2023

Gyða Haraldsdóttir, varaformaður og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, fundarstjóri
Gyða Haraldsdóttir, varaformaður og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, fundarstjóri

Aðalfundur ADHD samtakanna fór fram miðvikudaginn 19. apríl 2023 í húsakynnum félagsins að Háaleitisbraut 13. Á fundinum var kjörið í stjórn samkvæmt lögum samtakanna, ársreikningar vegna 2022 afgreiddir og ályktað um brýnustu verkefnin fram undan í geðheilbrigðismálum.

Varaformaður ADHD samtakanna, Gyða Haraldsdóttir gerði grein fyrir skýrslu stjórnar fyrir árið 2022 í fjarveru formanns og framkvæmdastjórinn, Hrannar Björn Arnarsson gerði grein fyrir ársreiknings félagsins. Ársskýrslu og ársreikninga vegna ársins 2022 má nálgast á hér - ársskýrslur og reikningar ADHD samtakanna.

Árið 2022 var nokkuð tvískipt – fyrri hluti ársins var um margt litaður af takmarkandi þáttum COVID hvað fundahald varðar, en þegar leið á vorið og restina af árinu færðist starfsemin í eðlilegra horf með líflegu viðburðahaldi og starfsemi um allt land.

Áframhaldandi vöxtur einkenndi starfsemi samtakanna á árinu.  Félagsmönnum fjölgaði úr 3616 í 4086 eða um 13%. Ein skráning gildir fyrir hverja fjölskyldu en bak við þá tölu reynast yfirleitt mun fleiri þar sem ekki er óalgengt að aðrir fjölskyldumeðlimir glími einnig við röskunina. Stóraukið líf færðist í starfsemi útibúanna, námskeiðahald og fræðslustarf samtakanna og mikil áhersla var lögð á baráttuna við lyfjafordóma og fyrir bættri og aukinni þjónustu hins opinbera við greiningar og meðferð vegna ADHD.

Samþykkt var að árgjald ADHD samtakanna fyrir næsta starfsár yrði óbreytt, kr. 3650,- eða 10 kr fyrir hvern dag ársins og verða kröfur vegna árgjaldsins stofnaðar í heimabanka félagsfólks. Árgjaldið mun áfram veita umtalsverðan afslátt af námskeiðum samtakanna, af vörum í vefverslun ofl.

Í samræmi við lög samtakanna var kjörið í helming stjórnarsæta, sæti formanns, varaformanns eins sætis í aðalstjórn og eitt sæti varamanns, til ársins 2025, en stjórn ADHD samtakanna skipa sjö aðalmenn og tveir til vara.

Stjórnin er nú þannig skipuð:
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður (kosin til aðalfundar 2025)
Gyða Haraldsdóttir, varaformaður (kosinn til aðalfundar 2025)
Elín Hrefna Garðarsdóttir, gjaldkeri (kosin til aðalfundar 2024)
Tryggvi Axelsson, ritari (kosin til aðalfundar 2024)
Sigrún Jónsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2024)
Bóas Valdórsson, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2025)
Ása Ingibergsdóttir, meðstjórnandi (kosin til aðalfundar 2024)

Varamenn:
Björn S.. Traustason, (kosin til aðalfundar 2024)
Bergþór Heimir Þórðarson, (kosin til aðalfundar 2025)

Nefang stjórnar er: stjorn@adhd.is

 

Ályktun aðalfundar ADHD samtakanna, 19. apríl 2023.

Á þessu ári fagna ADHD samtökin 35 ára starfsafmæli sínu undir yfirskriftinni Betra líf með ADHD í 35 ár. Á þessum 35 árum hafa samtökin vaxið og dafnað og í dag eru rúmlega 4100 fjölskyldur skráðar í samtökin. Hvergi í heiminum er stærra hlutfall landsmanna virkt í hagsmunasamtökum fólks með ADHD og mjög fá samtök hafa fleiri félagsmenn almennt.

Samtökin geta litið afar stolt yfir farinn veg, enda hafa lífsskilyrði fólks með ADHD tekið stakkaskiptum á starfstíma samtakanna, fordómar vikið fyrir þekkingu og stuðningur og skilningur aukist í samfélaginu á flestum sviðum.

En betur má ef duga skal og enn eru mörg brýn verkefni framundan.

Barátta ADHD samtakanna á liðnum árum hefur skilað því að allt þjónustukerfi hins opinbera við greiningar og meðferð á ADHD var tekið til endurskoðunar undir lok árs 2021. 

Þeirri endurskoðun fylgdu fögur fyrirheit um styttingu biðlista og aukinn meðferðarstuðning og hefur liðið ár mikið farið í að fylgja þessum breytingum og fögru fyrirheitum eftir.

Árangurinn hefur ekki verið sem skyldi og hafa biðlistar því miður ekkert styst. Þvert á móti hafa þeir lengst og biðtími sömuleiðis, bæði hjá fullorðnum og börnum.

Nýtt ADHD teymi fyrir fullorðna hefur nokkuð haldið í horfinu, en vegna aukinnar eftirspurnar hefur biðtími eftir þjónustu enn ekki styst.

Hjá nýrri Geðheilsumiðstöð barna, sem tók yfir starfsemi Þroska- og hegðunarstöðvar, hefur hinsvegar keyrt um þverbak og biðtími lengst verulega.

Óhætt er að segja að nú er tími umþóttunar og undirbúnings liðinn og tími róttækra aðgerða runninn upp – og þó fyrr hefði verið!

ADHD samtökin geta ekki sætt sig við að enn eitt árið líði án þess að verulega verði gefið í af hálfu hins opinbera í þjónustu við fólk með ADHD. Biðlistar í greiningar og meðferð vegna ADHD verða að styttast og biðtíminn að breytast úr þeim tveimur til þremur árum sem hann er í dag, í 4-8 mánuði að hámarki. Allt annað er í raun ólíðandi, miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag um skaðsemi langs biðtíma og jákvæðan ávinning greiningar og meðferðar vegna ADHD.

Aðalfundur ADHD samtakanna heitir á stjórnvöld að láta nú hendur standa fram úr ermum svo um munar. ADHD samtökin munu fylgjast með hverju skrefi á þeirri mikilvægu vegferð.