Aðalfundur ADHD samtakanna er í kvöld

Aðalfundur ADHD samtakanna árið 2016 verður haldinn í húsnæði samtakanna, Háaleitisbraut 11-13, í kvöld mánudaginn 14. mars 2016 klukkan 20:00. Meðal venjulegra aðalfundarstarfa er kosning stjórnar samtakanna fram að aðalfundi 2017. Stjórn samtakanna er skipuð sjö mönnum og tveimur til vara. Formann, varaformann, gjaldkera og ritara skal kjósa sérstaklega.

Í sjöttu greina laga ADHD samtakanna segir að aðalfund skuli halda í mars mánuði ár hvert. Til hans skal boðað með sérstöku fundarboði sem sent er félagsmönnum með að minnsta kosti viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Sömuleiðis skal tilkynnt um hann í fjölmiðlum.

Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

  • Félagsstjórn gerir grein fyrir störfum samtakanna á liðnu starfsári 
  • Félagsstjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna fyrir liðið ár til samþykktar. Reikningsár samtakanna er almanaksárið
  • Lagabreytingar
  • Kosning stjórnar
  • Kosning tveggja félagslegra endurskoðenda til eins árs í senn
  • Ákvörðun félagsgjalda
  • Önnur mál.

Þá segir að lögum samtakanna verði aðeins breytt á aðalfundi þeirra. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum. Lagabreyting telst samþykkt ef ¾ hlutar fundarmanna á löglega boðuðum aðalfundi greiða henni atkvæði.

Hægt er að bjóða sig fram til setu í stjórn á fundinum sjálfum. Frambjóðendur skulu vera félagsmenn og hafa greitt árgjald.