ADHD og mótsagnir um lyfjafíkn - Opið bréf til landlæknis

Greinin sem birtist á visir.is 11.desember 2013

Í Læknablaðinu birtist nýverið grein sem ber heitið "ADHD og misnotkun lyfja I" ( frá lyfjaeftirliti landslæknis 2. pistill). ADHD samtökin hafa ítrekað síðan reynt að ná fundi með landlækni því þau hafa þungar áhyggjur af þeim fullyrðingum sem þar er haldið fram og geta skaðað málefnalega umræðu um ADHD og lyfjagjöf.
Greinin er að mati ADHD samtakanna í hróplegu misræmi við áður útgefnar klínískar leiðbeiningar landlæknis; [Vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni – ADHD] sem embættið gaf út í mars 2012.

Í grein lyfjaeftirlits landlæknis er því haldið fram að methylphenidat, sem er virka efnið í þeim lyfjum sem helst eru notuð við ADHD, (þ.e. Rítalín, Rítalín Uno og Concerta) geti valdið fíkn. Í greininni segir meðal annars orðrétt:

„Methylphenidat er mjög hættulegt lyf vegna þeirrar miklu fíknar sem það veldur hjá sumum einstaklingum. “
Þetta er ítrekað í gegnum greinina og á öðrum stað segir:
„Methylphenidat getur vissulega bætt verulega líðan og lífsgæði sjúklinga með ADHD en það getur líka valdið fíkn, kvíða, svefntruflunum og einstaka sinnum geðrofi.“
Loks er hnykkt á þessari fullyrðingu með eftirfarandi orðum:
„Það er líka staðreynd að Methylphenidat getur valdið alvarlegri fíkn er misnotað og ofnotað á ýmsan hátt og er uppáhaldslyf sprautufíkla. “

Fíkn og fullyrðingar

Í klínískum leiðbeiningum um ADHD er fjallað um fíkn, vímuefni og ADHD. Þar segir að samband ávana/fíknar sé flókið og ekki mikið rannsakað. Ennfremur segir að ADHD sé áhættuþáttur fyrir fíkniefnaneyslu, sérstaklega ef aðrar fylgiraskanir eru til staðar og svo virðist sem tíðni ADHD sé meiri meðal þeirra sem leita aðstoðar vegna ýmissa fíknivandamála.
En þegar kemur að því hvort neysla á Methylphenidat geti leitt til fíknar segi hins vegar orðrétt í klínískum leiðbeiningum embættis landlæknis;
„Áhyggjur hafa verið uppi um hvort meðferð með örvandi lyfjum leiði til fíknar. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á slíkt. Í raun virðast börn og ungmenni, sem hafa fengið meðferð með örvandi lyfjum, síður líkleg til að leiðast til misnotkunar vímuefna en önnur börn með ADHD. Niðurstaða meirihluta rannsókna (4/7) er að börn með ADHD, sem hafa fengið meðhöndlun, eru tvöfalt ólíklegri til að lenda í fíkniefnavanda en börn sem ekki fá meðferð.
(Wilens et al., 2003; Wilens, 2004; Barkley et al., 2003)
Ekki er mælt með því að meðhöndla ADHD með örvandi lyfjum hjá einstaklingum með fíknivanda. Hjá einstaklingum sem ekki hafa verið í neyslu í a.m.k. 12 mánuði kemur til greina að beita örvandi lyfjum en þá þurfa þeir að vera undir ströngu eftirliti á stofnun með sérhæfingu bæði á sviði fíkniraskana og ADHD. Slíkt eftirlit ætti fela í sér mánaðarlegar mælingar á fíkniefnum í þvagi.“

Hvað er rétt?

Fullyrðing höfunda starfsmanna landlæknis í Læknablaðinu stangast með öðrum orðum á við klínískar leiðbeiningar landlæknis frá 2012. Það er því fullkomlega eðlileg ósk að landlæknir skýri fyrir þeim fjölmörgu foreldrum sem eiga börn með ADHD sem taka lyf og ekki síður fullorðnum einstaklingum með ADHD, sem taka lyf vegna röskunarinnar, hvað átt er við með fullyrðingum í grein lyfjaeftirlitsins. Eru klínískar leiðbeiningar að þessu leyti rangar og ber af þeim sökum ekki að taka þær alvarlega eða hvað skýrir þessa þversögn?

Óréttmæt orðræða embættismanna

Að sjálfsögðu hafa ADHD samtökin áhyggjur af misnotkun fíkla eins og flestir í samfélaginu en finnst hins vegar óréttmætt að spyrða orðræðuna; „ADHD lyf og fíklar“ alltaf saman. Það gerum við ekki með með aðra sjúklingahópa og lyf sem þeir þurfa nauðsynlega á að halda, eins og contalgin, morfín eða önnur sterk verkjastillandi lyf. ADHD samtökin telja hins vegar að gagnlegra geti verið að takast á við þann vanda á annan og faglegri hátt heldur en með fullyrðingum, líkt og starfsmenn landlæknis hafa tamið sér. Öll lyf eru skrásett í gagnagrunn og Methylphenidat lyf eru eftirritunarkyld lyf. Því ætti að vera leikur einn að fara vandlega yfir allar ávísanir sem þykja óeðlilegar og skoða hvað býr að baki. Í framhaldi af slíkri skoðun er eftir atvikum hægt að bregðast við.

ADHD teymi Landspítala getur gegnt lykilhlutverki

Í ár var stofnað ADHD teymi á landspítalanum og var markmiðið m.a. að bæta þjónustu við fullorðna einstaklinga, ná réttari greiningum og um leið ná betur utanum lyfjávísanir. Þar með má draga úr misnotkun. ADHD teymið getur gegnt lykilhlutverki þegar kemur að einstaklingum sem þarfnast frekari skoðunar, hvort heldur er um að ræða greiningar viðkomandi eða lyfjanotkun, enda til þess ætlast að embætti landlæknis vísi vafatilfellum til teymisins og að geðlæknar geti fengið annað álit á erfiðum tilfellum. Það er því skynsamlegt, faglega og fjárhagslega að efla teymið. Það mun til lengri tíma skila stórfelldum sparnaði.

Skynsamleg umræða skilar mestu

Það er og hefur alltaf verið markmið ADHD samtakanna að umræða um ADHD sé fagleg og til hennar vandað. Alhæfingar og órökstuddar fullyrðingar gera lítið annað en að skaða málstað einstaklinga með ADHD, sem oftar en ekki þurfa að berjast fyrir skilningi og stuðningi. Slík umræða er alls ekki til þess fallin að auka á skilning og stuðning innan samfélagsins. Þvert á móti elur hún á fordómum í garð ADHD einstaklinga og aðstandenda þeirra. ADHD samtökin neita að trúa því að slíkt vaki fyrir embætti landlæknis. Fjárhagsleg sjónarmið mega ekki blinda embættismenn þegar verið er að fjalla um lífsgæði einstaklings. En rétt er og skylt að fara sem best með þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru, til hagsbóta fyrir alla. ADHD samtökin eru nú sem fyrr, reiðubúin að taka þátt í starfi sem færir okkur nær því markmiði.

Nánari upplýsingar um ADHD samtökin og um röskunina má finna á vefsíðu samtakanna www.adhd.is

Klínískar leiðbeiningar Landlæknis

Björk Þórarinsdóttir, formaður ADHD samtakanna
Þröstur Emilsson, framkvæmdastjóri ADHD samtakanna