Ályktun aðalfundar ADHD samtakanna

Á þessu ári fagna ADHD samtökin 35 ára starfsafmæli sínu undir yfirskriftinni Betra líf með ADHD í 35 ár. Á þessum 35 árum hafa samtökin vaxið og dafnað og í dag eru rúmlega 4100 fjölskyldur skráðar í samtökin. Hvergi í heiminum er stærra hlutfall landsmanna virkt í hagsmunasamtökum fólks með ADHD og mjög fá samtök hafa fleiri félagsmenn almennt.

Samtökin geta litið afar stolt yfir farinn veg, enda hafa lífsskilyrði fólks með ADHD tekið stakkaskiptum á starfstíma samtakanna, fordómar vikið fyrir þekkingu og stuðningur og skilningur aukist í samfélaginu á flestum sviðum.

En betur má ef duga skal og enn eru mörg brýn verkefni framundan.

Barátta ADHD samtakanna á liðnum árum hefur skilað því að allt þjónustukerfi hins opinbera við greiningar og meðferð á ADHD var tekið til endurskoðunar undir lok árs 2021.

Þeirri endurskoðun fylgdu fögur fyrirheit um styttingu biðlista og aukinn meðferðarstuðning og hefur liðið ár mikið farið í að fylgja þessum breytingum og fögru fyrirheitum eftir.

Árangurinn hefur ekki verið sem skyldi og hafa biðlistar því miður ekkert styst. Þvert á móti hafa þeir lengst og biðtími sömuleiðis, bæði hjá fullorðnum og börnum.

Nýtt ADHD teymi fyrir fullorðna hefur nokkuð haldið í horfinu, en vegna aukinnar eftirspurnar hefur biðtími eftir þjónustu enn ekki styst.

Hjá nýrri Geðheilsumiðstöð barna, sem tók yfir starfsemi Þroska- og hegðunarstöðvar, hefur hinsvegar keyrt um þverbak og biðtími lengst verulega.

Óhætt er að segja að nú er tími umþóttunar og undirbúnings liðinn og tími róttækra aðgerða runninn upp – og þó fyrr hefði verið!

ADHD samtökin geta ekki sætt sig við að enn eitt árið líði án þess að verulega verði gefið í af hálfu hins opinbera í þjónustu við fólk með ADHD. Biðlistar í greiningar og meðferð vegna ADHD verða að styttast og biðtíminn að breytast úr þeim tveimur til þremur árum sem hann er í dag, í 4-8 mánuði að hámarki. Allt annað er í raun ólíðandi, miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag um skaðsemi langs biðtíma og jákvæðan ávinning greiningar og meðferðar vegna ADHD.

Aðalfundur ADHD samtakanna heitir á stjórnvöld að láta nú hendur standa fram úr ermum svo um munar. ADHD samtökin munu fylgjast með hverju skrefi á þeirri mikilvægu vegferð.

Aðalfundur ADHD samtakanna 19. apríl 2023