Átak til að stytta bið eftir þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að auka fjárveitingar til Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (ÞHS) til að stytta bið eftir þjónustu. Gert er ráð fyrir að með átaksverkefni á þessu og næsta ári megi veita allt að 200 fleiri börnum þjónustu en ella.

ADHD samtökin fagna ákvörðun heilbrigðisráðherra í þágu barna og binda vonir við að til sambærilegs átaks verði gripið vegna biðlista fullorðinna eftir þjónustu. Ríflega 600 einstaklingar bíða eftir þjónustu ADHD-teymis Landspítala.

Tilvísunum barna til ÞHS hefur fjölgað verulega ár frá ári, en þangað er vísað börnum til greiningar og meðferðar s.s. vegna ofvirkni og athyglisbrests, röskunar á einhverfurófi, hegðunarvanda, kvíða og depurðar.

Árið 2013 voru tilvísanir til stöðvarinnar 405, árið 2014 voru þær 456 og á þessu ári stefnir í að þær verði yfir 500. Biðlistar hafa því lengst jafnt og þétt síðustu misserin og bíða nú hátt í fjögurhundruð börn sem fengið hafa tilvísun eftir þjónustu og meðferð.

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi frá því í sumar haft til skoðunar mögulegar leiðir til að stytta bið eftir þjónustu Þroska- og hegðunarstöðvar, í samráði við stofnunina.

Niðurstaðan er annars vegar sú að veita aukið fé í átaksverkefni sem gerir stofnuninni kleift að veita um 200 fleiri börnum þjónustu en ella væri mögulegt til loka næsta árs. Hins vegar verður settur á fót vinnuhópur til að að skoða í víðu samhengi stöðu þeirrar þjónustu sem veitt er á Þroska- og hegðunarstöðinni, í samvinnu við þá aðila sem málið varðar og er stefnt að því að ljúka þeirri vinnu fyrir lok næsta árs.