Ávísun og afgreiðsla ADHD lyfja - Breytingar taka gildi 3. apríl 2018

Ný reglugerð um ávísun eftirritunarskyldra lyfja, þar með talið ADHD lyfja, tekur gildi 3. apríl 2018. Samkvæmt reglugerðinni verður heimilt að ávísa allt að 12 mánaða magni lyfja í hvert sinn en að hámarki má afgreiða til sjúklings allt að 30 daga skammt í senn, nema aðrar takmarkanir gildi. Óheimilt er að ávísa ADHD lyfjum [metýlfenídat] nema fyrir liggi lyfjaskírteini fyrir viðkomandi sjúkling frá Sjúkratryggingum Íslands.

Lyfjastofnun hefur um nokkurt skeið haft til athugunar að takmarka frekar heimildir til að ávísa ákveðnum eftirritunarskyldum lyfjum, þar með talið ADHD lyfjum. Tillögur Lyfjastofnunar varðandi framkvæmd frekari takamarkana í þessa átt voru kynntar á vef stofnunarinnar 15. september 2017 og umsagna óskað. Töluvert af umsögnum barst og voru haldnir fundir með umsagnaraðilum.

Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um lyfjaávísanir og afgreiðslu lyfja, sem tekur gildi 3. apríl 2018, verður heimilt

  • að ávísa allt að 12 mánaða magni hverju sinni
  • að afgreiða til sjúklings í lyfjabúð allt að 30 daga skammt í senn, nema þegar aðrar takmarkanir gilda

Nýja reglugerðin hefur áhrif á fyrirætlanir Lyfjastofnunar. Stofnunin fyrirhugar m.a. ekki að takmarka ávísun metýlfenidat-lyfja við tilgreindar sérfræðigreinar innan læknisfræðinnar. Þá hyggst stofnunin ekki heldur takmarka ávísað magn við tilgreindan fjölda taflna/hylkja. Þess í stað verði heimilt að afgreiða sem nemur 30 daga skammti hverju sinni, miðað við notkunarfyrirmæli læknis, frá þeim tíma er nýja reglugerðin tekur gildi.

Nýju reglugerðinni er ætlað að sporna við misnotkun ávanabindandi lyfja. Þar er einkum kveðið á um örvandi lyf, svo sem amfetamín og metýlfenídat. Sjúklingur sem þessum lyfjum er ávísað á skal eins og áður segir, hafa lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands.  Enn fremur skal meginreglan vera sú að lyfi sé ávísað rafrænt, pappírslyfseðlar verði víkjandi. Þá er ekki heimilt að ávísa ávana- og fíknilyfi ef í lyfjaávísanagátt er gild ávísun fyrir sama sjúkling á sama lyf með sama styrkleika.

 

Frétt á vef Lyfjastofnunar 31.01.2018

Listi yfir ávana- og fíknilyf

Reglugerð heilbrigðisráðherra um lyfjaávísanir og afhendinu lyfja

Senda póst til ADHD samtakanna