Eyðum biðlistum og stóraukum úrræði vegna ADHD

Ályktun aðalfundar ADHD samtakanna 26. mars 2019
Ályktun aðalfundar ADHD samtakanna 26. mars 2019

Á aðalfundi ADHD samtakanna, sem haldinn var þriðjudaginn 26. mars 2019 var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:

Eyðum  biðlistum og stóraukum úrræði vegna ADHD

Óviðunandi bið er eftir greiningum á ADHD á Íslandi, bæði hvað varðar börn og fullorðna, en áætlað er að 15-20 þúsund einstaklingar séu með ADHD á Íslandi.

Alvarlegur skortur er á geðlæknum og ekki síst erfitt fyrir fullorðna að leita sér greiningar og í framhaldi meðferðar. Greining og eftirlit geðlæknis er í dag forsenda lyfjameðferðar vegna ADHD og önnur úrræði, niðurgreidd af stjórnvöldum eru því miður afar fá. ADHD teymi LSH sinnir einnig greiningu á fullorðnum með ADHD en allt upp undir tveggja ára bið er eftir því úrræði. ADHD samtökin hafa um langt skeið vakið athygli á slæmu aðgengi fólks með ADHD að geðheilbrigðisþjónustu og greiningum og úr því ófremdarástandi verður að bæta, m.a. með því að stórefla þjónustu ADHD teymis LSH.

Biðlisti á Þroska- og hegðunarstöð, sem annast greiningu barna, er einnig allt of langur og nú bíða um það bil 250 börn eftir greiningu. Meðalbiðtími eftir greiningu þar er eitt ár. Ljóst er að auka þarf fjármagn til Þroska- og hegðunarstöðvar og þar með gera stöðinni kleift að eyða biðlistum. Um leið þarf að búa svo um hnútana að nægir fjármunir og mannafli sé til staðar svo hægt sé að veita þjónustu, þeim sem til stöðvarinnar leita, innan þriggja mánaða eftir að beiðni berst.

ADHD samtökin hafa miklar áhyggjur af þessari alvarlegu stöðu því ljóst er að hver mánuður í lífi fólks með ógreint og ómeðhöndlað ADHD er einum mánuði of mikið og vandinn eykst ef ekkert er að gert, ekki síst í lífi barns á viðkvæmu mótunarskeiði. Biðlistum eftir greiningu á ADHD þarf að eyða, bæði hjá ADHD teymi LSH og Þroska- og hegðunarstöð án tafar.

Sálfræðiþjónustu þarf að veita á sömu forsendum og aðra heilbrigðisþjónustu. Átak stjórnvalda til að efla geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslum og byggja upp geðteymi vítt og breytt um landið er gott skref í þá  átt. Mikilvægt er einnig að sálfræðiþjónusta verði felld undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands eins fljótt og auðið er.

Sálfræðiþjónusta getur skipt sköpum hjá einstaklingum með ADHD og um leið dregið úr þörf fyrir dýrari úrræði. Snemmbært aðgengi að greiningu og sálfræðimeðferð mun án efa stórauka lífsgæði fólks með ADHD og draga verulega úr öllum kostnaði, hvort heldur átt er við fjárhagslegan kostnað samfélagsins eða þann mannlega kostnað sem ógreindur einstaklingur þarf að bera.

Hvað allt ofangreint varðar verður að horfa sérstaklega til aðgengis einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins að heilbrigðisþjónustu og lyfjum.

Þá er afar mikilvægt  að koma inn almennri fræðslu um ADHD í menntastofnanir landsins og ekki síst inn í grunnnám kennara. Með réttum kennsluaðferðum og skilningi er hægt að bæta verulega líðan barna með ADHD í skóla og frístundum. Í þessu samhengi má reyndar benda á að „sértækar lausnir“ henta oftar en ekki heildinni betur líka og gera kennsluna hnitmiðaðri.

Betri lífsskilyrði fyrir fólk með ADHD mun bæta lífsgæði allra – ekki bara þeirra einstaklinga sem glíma við ADHD á Íslandi, heldur einnig fjölskyldna þeirra, nærsamfélags og samfélagsins alls. Greining og aðgengileg úrræði vegna ADHD er einhver besta samfélagslega fjárfesting sem heilbrigðis- og skólakerfið geta ráðist í á komandi árum.