Ráðherra vill tryggja geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi:

ADHD samtökin fagna þeirri áherslu sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra hefur lagt á að tryggja geðheilbrigðisþjónustu barna og ungmenna á Norður- og Austurlandi. ADHD samtökin binda vonir við að allir, sem að málinu þurfa að koma, leggist á eitt svo ljúka megi málinu hið fyrsta. Málið var rætt á Alþingi í vikunni.

Eftirfarandi frétt birtist á vef Vikudags 20. júní 2013

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir allt kapp verða lagt á að tryggja geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á þjónustusvæði Sjúkrahússins á Akureyri. Hann hefur þegar fundað með framkvæmdastjórn sjúkrahússins og öðrum aðilum málsins til að ræða mögulegar lausnir. Málið var rætt á Alþingi í dag [fimmtudag 20.júní].

Þann 1. apríl síðastliðinn tók gildi uppsögn barna- og unglingageðlæknis við Sjúkrahúsið á Akureyri og uppsögn sálfræðings sem einnig starfaði að þessum málum. Síðan hefur enginn barna- og unglingageðlæknir starfað þar og raunar hefur enginn læknir með þessa sérfræðimenntun starfað utan höfuðborgarsvæðisins. Fljótlega tókst að ráða aftur í stöðu sálfræðings sem tók til starfa 1. júní. Tvisvar hefur verið auglýst eftir barna- og unglingageðlækni en það hefur ekki enn borið árangur. Sjúkrahúsinu er ætlað að sinna geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni allt vestur frá Hrútafirði austur til Hornafjarðar.

Vandinn felst hvorki í læknaskorti né skorti á fjármunum

Efnt var til umræðu á Alþingi í dag um stöðu geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi og var heilbrigðisráðherra til andsvara. Ráðherra sagði því ranglega haldið fram að skortur á fé væri rót vandans. Aukin fjárveiting til barna- og unglingageðheilbrigðisþjónustu við Sjúkrahúsið á Akureyri samkvæmt fjárlögum þessa árs hefði ekki orðið til þess að leysa mönnunarvandann. Hann benti einnig á að fjöldi sérfræðinga í geðlækningum væri svipaður hér og annars staðar á Norðurlöndunum. Skortur á læknum væri því ekki vandamálið, heldur að fá þá til starfa utan höfuðborgarsvæðisins: „Það þarf tvo til að semja“ sagði ráðherra og lagði áherslu á að fólk yrði ekki þvingað til samninga. Hins vegar sé hægt að beita sér fyrir lausnum með því að ræða við málsaðila og stuðla þannig að samningum með viðræðum. Kristján Þór hefur þegar átt tvo fundi með framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri, rætt við aðstandendur barna sem þurfa á þjónustu að halda og fundað með lækninum sem sagði upp störfum í vor.

Ráðherra segir mikilvægt að skoða þessi mál í heild með það að markmiði að tryggja þessa þjónustu um allt land en einskorða ekki umræðuna við tiltekin landsvæði. Þetta sé eitt af verkefnunum framundan, segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.


Umfjöllun á vef heilbrigðisráðuneytisins

Umræður um  málið á Alþingi 20. júní 2013