Krefjumst aðgerða !

Stjórn ADHD samtakanna
Stjórn ADHD samtakanna

Aðalfundur ADHD samtakanna, haldinn fimmtudaginn 29.04.2021 lýsir yfir þungum áhyggjum af skorti á geðlæknaþjónustu við fullorðna einstaklinga með ADHD. Þrátt fyrir aukna áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á geðheilbrigðismál hefur ástandið síst batnað heldur versnað til muna.

Grafalvarlegt ástand hefur skapast hjá fullorðnum einstaklingum með ADHD sem þurfa að leita sér þjónustu geðlæknis til greiningar og lyfjameðferðar. Samkvæmt leiðbeiningum Embættis landlæknis mega eingöngu þeir sem eru undir eftirliti geðlæknis hefja lyfjameðferð við ADHD en nú er svo komið að geðlæknar taka ekki við nýjum skjólstæðingum og því reynist einstaklingum með ADHD ógerningur að hefja lyfjameðferð og hafa í engin hús að venda. ADHD teymi Landspítalans sinnir greiningu og meðferð á vegum hins opinbera en biðlistinn telur í dag rúmlega 3 ár.

Er grannt er skoðað kemur í ljós að margir af fullorðnum einstaklingum með ADHD gengur illa að fóta sig í lífinu og þurfa á aðstoð að halda á ýmsum sviðum svo sem námslega, félagslega og í atvinnulífinu. Nauðsynlegt er að veita þessum hópi viðeigandi þjónustu, gera þeim kleift að hámarka styrkleika sína og um leið bæta lífsskilyrði. Þannig styrkjum við einstaklinginn til að verða virkur þjóðfélagsþegn og leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Samtökin hafa um langt skeið vakið athygli á slæmu aðgengi að geðlæknaþjónustu en nú keyrir um þverbak, ástandið er orðið grafalvarlegt og jafnvel lífsógnandi.

Hið opinbera þarf að auka enn frekar við fjármagn sem varið er í þennan málaflokk. Sjálfstætt starfandi geðlæknar anna ekki eftirspurn og geðheilsuteymi heilsugæslunnar sinnir einungis þeim sem þurfa á sérhæfðari þjónustu og meðferð að halda. Samtökin krefjast aðgerða til handa einstaklingum með ADHD en öll óvissa og bið í geðheilbrigðsmálum ógnar heilsu þeirra enda um að ræða hóp í einstaklega viðkvæmri stöðu.

Samþykkt á aðalfundi ADHD samtakanna, 29. apríl 2021.