LSH verið í spennitreyju frá árinu 2000

Frá afhendingu ályktunarinnar í morgun
Frá afhendingu ályktunarinnar í morgun

Fulltrúar 45 félagasamtaka, einkum sjúklingasamtaka styrktar-og stuðningsfélaga sjúkra og samtaka aldraðra, afhentu fyrir hádegi forseta Alþingis ályktun. Í ályktuninni er skorað á ríkisstjórn, fjárlaganefnd og Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu til að tryggja að umhverfi sjúklinga, aðstaða starfsfólks og nema standist bæði lög og þann metnað sem íslensk þjóð vilji sýna. Niðurskurður til Landspítala í fjárlagafrumvarpi næsta árs kunni að valda ómældum kostnaði fyrir spítalann. Rekstrarfé sem þar sé gert ráð fyrir muni ekki duga til að spítalinn geti veitt þá þjónustu sem lög kveði á um. Til að Ísland geti talist velferðarríki verði heilbrigðisþjónusta landsins að standast þær kröfur sem gerðar séu til sjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Í ályktuninni segir jafnframt að Landspítalinn hafi frá árinu 2000 nær árlega verið í „spennitreyju við fjárlagagerð“. Eftir hrun hafi Landspítalinn tekið á sig gríðarlega sparnað í rekstri og sparað 40 milljarða á fimm árum, eða sem nemi einu rekstrarári. „Fjárlög ársins 2014 fólu í sér nokkurn varnarsigur fyrir spítalann og þá sem þurfa á þjónustu hans að halda. Sú von um viðsnúning sem þá vaknaði mun reynast skammvinn verði Landspítalinn enn að taka á sig skerðingu áframlögum á næsta ári.“

Þá hafi tvær skýrslur embættis Landlæknis sýnt fram á afleita stöðu húsnæðismála á geðdeild og húsnæðis-og mannauðsmála á lyflækningasviði. Þá standist aðeins fjögur prósent salerna spítalans byggingareglugerð og fjórir til sex sjúklingar þurfi víða að liggja saman á stofum og deila salerni.

Ályktunin í heild

Félögin sem standa að ályktuninni eru: 

  • ADHD samtökin 
  • Astma- og ofnæmisfélag Íslands 
  • Brjóstaheill - Samhjálp kvenna 
  • CCU, Crohn´s og Colitis Ulcerosa 
  • samtökin 
  • Einhverfusamtökin 
  • Einstök börn 
  • FAAS (Alzheimer) 
  • Félag CP á Íslandi 
  • Félag áhugafólks um Downs-heilkenni 
  • Félag eldri borgara í Reykjavík 
  • Félag lesblindra á Íslandi 
  • Félag lifrarsjúkra 
  • Félag nýrnasjúkra 
  • Geðhjálp 
  • Geðvernd 
  • Gigtarfélag Íslands 
  • HIV-Ísland 
  • Heilaheill 
  • Hjartaheill – Landssamtök hjartasjúklinga 
  • Hjartavernd 
  • Hugarafl 
  • Hugarfar 
  • Kraftur 
  • Krabbameinsfélag Íslands
  • Landssamband eldri borgara 
  • Landssamtökin Þroskahjálp 
  • Lauf 
  • MG-félag Íslands (Myasthenia Gravis) 
  • MND-félagið á Íslandi 
  • MS-félag Íslands 
  • Neistinn – styrktarfélag hjartveikra barna 
  • Ný rödd 
  • Parkinsonsamtökin á Íslandi 
  • Samtök lungnasjúklinga 
  • Samtök sykursjúkra 
  • SÍBS 
  • Sjálfsbjörg - Landssamband fatlaðra 
  • SPOEX (Psoriasis) 
  • Stómasamtökin 
  • Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna 
  • Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra 
  • Styrkur 
  • Tilvera, samtök um ófrjósemi 
  • Tourette-samtökin á Íslandi 
  • Umhyggja – félag til stuðnings 
  • langveikum börnum 
  • Vífill 
  • Öryrkjabandalag Íslands