Lyfjagreiðslukerfið einfaldað með aukinni sjálfvirkni

Þann 1. desember næstkomandi tekur gildi breyting á nýja lyfjagreiðsluþátttökukerfinu með aukinni sjálfvirkni til einföldunar, jafnt fyrir lyfjanotendur og lækna.

Frá þeim tíma öðlast fólk sjálfkrafa rétt til fullrar greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði þegar það hefur náð þakinu sem skilgreinir hámarkskostnað einstaklings. Umsókn læknis sem nú er krafist verður þar með óþörf.
ADHD samtökin fagna þessari breytingu í átt til einföldunar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra undirritaði í dag reglugerð sem kveður á um þessa breytingu.
Lyfjagreiðslukerfið sem tók gildi 4. maí síðastliðinn byggist á þrepaskiptri greiðsluþátttöku þar sem hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst innan tólf mánaða tímabils.

Í fyrsta þrepi greiðir einstaklingurinn lyf að fullu, í öðru þrepi greiðir hann 15% af verði lyfja og í þriðja þrepi greiðir hann 7,5%. Þegar lyfjakostnaður hefur náð ákveðnu hámarki getur læknir sótt um að Sjúkratryggingar Íslands greiði lyf viðkomandi að fullu það sem eftir er tímabilsins.

Krafa um að læknir sæki sérstaklega um fulla greiðsluþátttöku til sjúkratrygginga hefur verið gagnrýnd frá upphafi og bent á að nýta bæri kosti rafræna kerfisins að fullu þannig að þetta gerðist sjálfkrafa. Fyrir þessu var þó sérstök ástæða þar sem markmiðið var að hafa eftirlit með fjöllyfjanotkun og grípa inn í ef þörf krefði. Með breyttu verklagi Sjúkratrygginga Íslands hefur verið tryggt að þetta markmið glatast ekki og stofnunin mun engu að síður fylgjast með fjöllyfjanotkun og bregðast við eftir þörfum, þrátt fyrir að ekki verði lengur þörf fyrir umsókn læknis eftir breytinguna sem tekur gildi 1. desember næstkomandi.

Umrædd breyting mun leiða til aukins hagræðis og einföldunar á framkvæmd kerfisins. Hjá læknum sparast vinna við gerð umsókna og einstaklingarnir sem í hlut eiga þurfa hvorki að bíða eftir útgáfu skírteinis né greiða fyrir kostnað vegna umsóknar læknis.

Vefur velferðarráðuneytisins