Makríll og mannréttindi

"Getum við gert eitthvað gagnlegra við þann mikla arð sem náttúruauðlindirnar okkar skila en að bæta lífsgæði og tækifæri barnanna okkar, ekki síst þeirra barna sem þurfa á svolitlum stuðningi að halda og eiga rétt á honum samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna?" Þannig spurði Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar á Alþingi í dag. Páll Valur er einn sendiherra barna á Alþingi og vekur iðulega athygli á brotalömum í opinbera kerfinu sem sinna á réttindum barna.

Páll Valur Björnsson kvaddi sér í dag hljóðs á Alþingi undir liðnum "störf þingsins", sagðist ætla að segja nokkur orð um börn og líka nokkur orð um makríl og náttúruauðlindir. Hann minnti á að Ísland hefði fullgilt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1992 og sá mikilvægi mannréttindasamningur hefði verið tekinn í íslensk lög. Færri vissu að barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með því hvernig aðildarríki að sáttmálanum uppfylla skyldur sínar, hefði gert alvarlegar athugasemdir við það hversu langir biðlistar eru á Íslandi eftir greiningum fyrir börn með ofvirkni og athyglisbrest og aðrar raskanir. Það ætti einnig við um börn sem hafa einkenni um einhverfu eða glíma við geðrænan vanda og börn með málþroskaraskanir.

"Þetta hefur lengi verið svona, þó að öllum megi vera ljóst að þessir biðlistar og þessi biðtími skerðir mjög mikið lífsgæði þessara barna og tækifæri og möguleika til réttra viðbragða og viðeigandi þjálfunar og það þó að þetta stangist á við skyldur okkar samkvæmt barnasáttmálanum, eins og fyrr sagði. Samkvæmt upplýsingum mínum mundu nokkrir tugir milljóna duga til að stytta þessa biðlista mjög mikið og jafnvel eyða þeim. Er þetta ásættanleg forgangsröðun í landi sem á svo verðmætar náttúruauðlindir að þær eru mældar í tugum og hundruðum milljarða króna en ekki í tugum eða hundrað milljónum króna eins og það kostar að vinna á þessum skammarlegu biðlistum?

Hæstv. forseti. Getum við gert eitthvað gagnlegra við þann mikla arð sem náttúruauðlindirnar okkar skila en að bæta lífsgæði og tækifæri barnanna okkar, ekki síst þeirra barna sem þurfa á svolitlum stuðningi að halda og eiga rétt á honum samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna? — Ég held ekki.

Þegar við ákveðum hvernig við eigum að haga nýtingu makrílstofnsins og annarra náttúruauðlinda sem við eigum saman, og hvernig við notum arðinn sem þær sannarlega eiga að skila okkur, eigum við alltaf að spyrja okkur fyrst: Hvað er börnunum í þessu landi fyrir bestu? Í nútíð og framtíð," sagði Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar á Alþingi í dag.

 

Ræða Páls Vals á Alþingi 05. maí 2015