Opið bréf til þingmanna: Ég er heppinn, ég var greindur.

"Bara það eitt að fá staðfestingu á að vera ekki latur, heimskur eða galinn breytir heilmiklu. En um leið opnast svo ótalmargar gáttir sem leitt geta til betra lífs – fyrir einstaklinginn sjálfan sem og samfélagið í heild," skrifar Vilhjálmur Hjálmarsson stjórnarmaður í ADHD meðal annars í opnu bréfi til þingmanna. Tilefnið er langir biðlistar eftir greiningum en yfir þúsund einstaklingar bíða nú greiningar.

Þar af eru rúmlega 400 börn á biðlistum hjá Þroska og hegðunarstöð og rúmlega 600 einstaklingar bíða greiningar hjá ADHD teymi Landspítalans. Það eru því að minnsta kosti eitt þúsund fjölskyldur á bið í heilbrigðiskerfinu vegna ADHD greiningar. Þá bíða um eða yfir 400 börn einhverfugreiningar. Afleiðingar aðgerðaleysis eru skelfilegar og kosta samfélagið langtum meira en ef gripið væri nú þegar til aðgerða, unnið á biðlistum og viðunandi aðstoð veitt. Biðlistarnir undirstrika svo ekki verður um villst hve slæm staða er í geðheilbrigðismálum Íslendinga.

Bréf Vilhjálms í heild sinni:

„Ágæti þingmaður

Aðgengi að greiningu er lykilatriði fyrir einstakling með ADHD.

Bara það eitt að fá staðfestingu á að vera ekki latur, heimskur eða galinn breytir heilmiklu.
En um leið opnast svo ótalmargar gáttir sem leitt geta til betra lífs – fyrir einstaklinginn sjálfan sem og samfélagið í heild.

Fyrir hartnær tveimur áratugum, þá rétt þrítugur, var undirritaður svo heppinn að hitta á geðlækni sem sérhæfir sig m.a. í greiningu og meðferð varðandi ADHD. Í stað þess að auka bara við þunglyndislyfin fékk ég viðeigandi greiningu og lífið tók stakkaskiptum.

Vissulega hefði verið ákjósanlegt að vita hið rétta á uppvaxtarárunum. Því fyrr sem börn og ungmenni fá greiningu, meðhöndlun og viðeigandi stuðning eiga þau alla möguleika til að dafna til jafns við sína jafnaldra. Án þess aukast líkur til muna á ýmsum vandamálum sem m.a. geta heft andlegan og félagslegan þroska viðkomandi, svo ekki sé minnst á brottfall úr skóla, afleiddum geðrænum vandamálum og aukinni hættu á misnotkun fíkniefna. Hér gildir þó ávallt hið fornkveðna: Betra er seint en aldrei.

Hér á landi má gera ráð fyrir að tíðni ADHD sé nálægt 5-10% hjá börnum og 4-5% meðal fullorðinna eða varlega áætlað um 15-20.000 einstaklingar.

Í dag bíða ríflega 400 börn og ungmenni eftir ADHD greiningu og biðlistar fullorðinna hjá ADHD teymi Landspítalans ná eitthvað á sjöunda hundraðið. Þetta eru yfir eitt þúsund einstaklingar sem bíða eftir úrræðum.

Nokkuð ljóst er að Þroska- og hegðunarstöð og ADHD teymi LSH hafa hvergi nær undan, skortur er á sérhæfðum geðlæknum og þjónusta sálfræðinga ekki niðurgreidd fyrir 18 ára og eldri. Staðan utan höfuðborgarsvæðisins er því miður enn verri, hreint út sagt sorgleg.

Nú þegar unnið er að fjárlögum næsta árs ásamt ályktun varðandi stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fram til 2020 bið ég þig sem þingmann og fulltrúa almennings að hafa þessi orð mín í huga.“

Með vinsemd og virðingu,

Vilhjálmur Hjálmarsson

Umfjöllun Kvennablaðsins