Tengsl milli einkunna og lyfjameðferðar við ADHD

Helga Zoëga, mynd af mbl.is
Helga Zoëga, mynd af mbl.is

Börnum með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD), sem hefja lyfjameðferð seint, er hættara við afturför í námi, einkum í stærðfræði, en þeim sem hefja meðferð sína fyrr. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands um rannsókn Helgu Zoëga, sem er nýr doktor í lýðheilsuvísindum. Niðurstöður þeirrar rannsóknar verða birtar í nýjasta hefti vísindatímaritsins Pediatrics, sem er fagtímarit bandarísku barnalæknasamtakanna, en það kemur út í næsta mánuði.

Helga segir að rannsóknin hafi náð til niðurstaðna í samræmdum prófum í íslensku og í stærðfræði í 4. og 7. bekk. Niðurstöðurnar í stærðfræði voru afgerandi fyrir bæði kynin, en þó sérstaklega stelpur, en munurinn hafi verið miklu minni í íslenskuprófunum. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum slíkrar lyfjagjafar, og enn færri sem hafi skoðað hvaða þátt tímasetning lyfjagjafar á í námsárangri barna með ADHD.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu það að á meðan engin breyting varð almennt á árangri barna án ADHD á prófum í 4. og 7. bekk þá versnaði námsárangur þeirra sem hófu lyfjameðferð við ADHD, og þeim mun meira eftir því sem lengra leið frá lokum 4. bekkjar og þar til lyfjagjöf hófst. Þeim börnum hrakaði því minna sem hófu lyfjagjöfina fyrr. Stærðfræðieinkunnir þeirra barna sem hófu lyfjameðferð innan við ári frá prófum í 4. bekk lækkuðu t.d. bara um 0,3% á milli prófanna. Hins vegar lækkuðu einkunnir þeirra sem fengu lyf tveimur til þremur árum eftir 4. bekkjar prófin um 9,4%. Áhrifin af lyfjagjöf sáust miklu betur hjá stelpum en strákum. Helga vill undirstrika það að lyfin eigi ekki endilega erindi til allra barna með ADHD, en að hjá þeim sem þurfi lyfjagjöf þá líti út fyrir að betra sé að hefja lyfjagjöfina fyrr.

Tekið af mbl.is 26. júní 2012: http://mbl.is/frettir/innlent/2012/06/25/tengsl_milli_einkunna_og_lyfjamedferdar_vid_adhd/