Þunglyndi er smitandi: Fyrirlestur Michael Yapko

Bandaríski sálfræðingurinn Michael Yapko heldur athyglisverðan fyrirlestur um þunglyndi, þriðjudaginn 1. október. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Þunglyndi er smitandi: Félagslegir þættir þunglyndis og mikilvægi þeirra fyrir meðferð og sjálfshjálp“.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.
Hann verður haldinn á Háskólatorgi, Háskóla Íslands, í sal 102 og hefst kl 17:30.

Eitt megin viðfangsefni Dr. Yapko undanfarna áratugi hefur verið að skilja tilurð og eðli þunglyndis. Hann hefur skrifað um það nokkrar bækur og njóta sjónarmið hans víðtækrar viðurkenningar. Nýjasta bók hans ber titilinn „Depression is contagious: How the Most Common Mood Disorder Is Spreading Around the World and How to Stop It“.

Eins og fram kemur í heiti bókarinnar er þunglyndi algengasti andlegi kvillinn sem fólk glímir við. Það verður stöðugt algengara og stefnir í að verða næst algengasta ástæða örorku. Því skiptir miklu að reyna að skilja þessa óheillavænlegu þróun og hvað sé til ráða. Þótt miklar framfarir hafi orðið í skilningi okkar á þunglyndi, helstu áhættuþáttum, tengslum við önnur andleg vandamál og ýmsum valkostum í meðferð virðist það ekki duga til. Getur verið að of mikil áhersla hafi verið lögð á lyfjameðferð? Er það mögulegt að samfélagsgerðin og þau samskipti sem hún hvetur til stuðli að þunglyndi? Þurfum við að líta á þunglyndi og meðferð við því með nýjum áherslum? Þessi mál snerta fyrirkomulag og stöðu þjónustu við þunglynda; gífurlegan geðlyfjakostnað og litla sem enga fyrirgreiðslu fyrir þá sem vilja leita annarra leiða í að taka á vanda sínum s.s. með ýmsum afbrigðum samtalsmeðferðar.

Dr. Michael Yapko er hér á landi á vegum Endurmenntun Háskóla Íslands og Dáleiðslufélags Íslands. Hann kennir félagsmönnum beitingu dáleiðslu í meðferð og ekki síst hvernig hún getur komið að gagni í meðferð þunglyndis.
Nánari upplýsingar má fá hjá formanni Dáleiðslufélags Íslands, Herði Þorgilssyni, sálfræðingi í síma 893-4522 eða hordur@betrilidan.is

Nánar um fyrirlesturinn og Dr. Michael Yapko

Þunglyndi verður æ algengara, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum. Samkvæmt Alþjóða Heilbrigðismálastofnuninni (WHO) er þunglyndi í dag í fjórða sæti sem helsta ástæða þjáninga og örorku almennings. Sú staðreynd ein og sér segir okkur hversu alvarlegur og víðtækur vandinn vegna þunglyndis er orðinn. Það er þó sýnu verra að spá WHO gerir ráð fyrir að árið 2020 hafi þunglyndi náð öðru sæti sem orsakavaldur mannlegrar þjáningar og örorku. Hvað vitum við um þá orsakaþætti sem breiða út þunglyndi í öllum löndum og öllum samfélagsgerðum? Niðurstöður rannsókna segja okkur að líffræðilegir þættir vegi minna í útbreiðslunni en margir hafa gefið sér og að félagslegir þættir s.s. fjölskylda og menning vegi þyngra. Gæði mannlegra tengsla eiga stóran þátt í því hvernig okkur líður. Þunglyndislyf er ein meðferð við þunglyndi, en hún ein og sér tekur ekki á því sem mestu skiptir.

Það sem fólk gerir hvert öðru, sérstaklega í þeim nánu samskiptum sem eiga sér stað í hjónabandi og fjölskyldum, getur auðveldlega orðið uppspretta sársauka í lífi þess og skapað hugsana-tilfinninga og tengslamynstur sem festast í sessi. Rannsóknir á ólíkum sviðum, frá erfðafræði til taugavísinda og frá faraldsfræði til mannfræði, sýna okkur enn á ný nokkuð sem er afar mikilvægt en við horfum allt of oft framhjá: Á sama hátt og fólk getur verið uppspretta vanlíðunar og valdið sársauka þá getur það líka verið uppspretta vellíðunar og varðað leið frá sársauka. Vísindin eru að staðfesta það sem við höfum vitað í hjörtum okkar: Okkur er eiginlegt að eiga jákvæð og gefandi samskipti við aðra svo okkur geti liðið vel. Engu að síður er staðan sú að þessum mikilvægu samböndum er ógnað og þau eru sködduð sem aldrei fyrr. Markmiðið með fyrirlestrinum er að hjálpa fólki að fá ný sjónarhorn og nýjan skilning á þeim lykil hæfnisþáttum sem ekki aðeins geta dregið úr þunglyndi þess heldur líka dregið úr hættunni á því að það geti orðið þunglynt síðar.
Í fyrirlestrinum verður vísað til rannsókna sem segja okkur að þunglyndi sé miklu frekar félagslegt vandamál en læknisfræðilegt. Þrátt fyrir vinsældir þunglyndislyfja eru ákveðnir hlutir sem ekkert magn lyfja getur fengist við s.s. að búa til þá hæfni sem er nauðsynleg til þess þrífast vel sem einstaklingar eða sem fjölskylda. Skilgreint verður hvernig þunglyndi bjagar tengsl okkar, hvernig við eigum að kljást á raunhæfan hátt við ýmsa þá þætti tilverunnar sem þunglyndið litar. Þá verður einnig fjallað um eitt af lykilatriðum í góðri meðferð, vel ígrundaða virkni.

Tvær bækur Dr. Yapko verða til sölu á sérstöku tilboði í Bóksölu Stúdenta fyrir þá sem hafa áhuga á að verða sér út um þær. Þetta eru bækurnar „Depression is contagious: How the Most Common Mood Disorder Is Spreading Around the World and How to Stop It“ og „Breaking the Patterns of Depression“

Um Dr. Yapko
Michael D Yapko, Ph.D. er klínískur sálfræðingur og hjónabands- og fjölskyldu þerapisti sem býr í Fallbrook í Kaliforníu. Hann nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir vinnu sína við þunglyndi og árangursmiðaða meðferð og kennir reglulega fagfólki um víða veröld. Honum hefur á ferli sínum verið boðið að kynna hugmyndir sínar og meðferð fyrir fagfólki í heilbrigðisþjónustu í meira en 30 löndum og sex heimsálfum auk nær allra ríkja Bandaríkjanna.

Í meira en þrjá áratugi hefur Dr. Yapko haft sérstakan áhuga á öllum þáttum og blæbrigðum skammtímameðferðar, beitingu dáleiðslu til þess að skapa nýja reynslu og nýta í meðferð þunglyndis. Hann er höfundur 12 bóka og ritstjóri þriggja annarra. Nýjasta bók hans er „Depression is contagious: How the Most Common Mood Disorder Is Spreading Around the World and How to Stop It“ en einnig má nefna „Hand-Me-Down-Blues: How to Stop Depression From Spreading in Families“ og „Breaking the Patterns of Depression“. Bækur hans hafa verið þýddar á níu tungumál.

Dr. Yapko er félagi í samtökum bandarískra sálfræðinga (APA), félagi í samtökum bandarískra hjóna- og fjölskylduþerapista, félagi í alþjóðasamtökum um dáleiðslu (ISH) og bandarísku dáleiðslusamtökunum (ASCH). Hann hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til klínískrar dáleiðslu og sálrænnar meðferðar. Meiri upplýsingar um störf Dr. Yapko má finna á heimasíðu hans www.yapko.com.